fbpx

 

 

Strangt til tekið gætu þrjár kynslóðir sömu fjölskyldu verið í félagi eldri borgara. Þeir yngstu kannski 60 ára, foreldrar þeirra kannski 80 ára og afar og ömmur þeirra yngstu kannski 100 ára. Þrjár ólíkar kynslóðir, allt „eldri borgarar“!


Viðar Eggertsson skrifar pistilinn:

„Eldri borgari“ er í sjálfu sér teygjanlegt hugtak. Almennt er litið svo á að sá sem hefur lokið föstu starfi og er kominn á eftirlaun sé eldri borgari. Á Íslandi er formlegur eftirlaunaaldur þegar fólk verður 67 ára, en þá hefur það skýlausan rétt til að fá mánaðarlegar greiðslur úr almannatryggingum sem kallast í lögum „ellilífeyrir“ og er í raun almenn eftirlaun eftir fullan starfsaldur í a.m.k. 40 ár. Ef fólk kýs að hefja töku ellilífeyris á þessum tímamótum, þá ber því jafnframt að hefja reglulega töku ú sameign sinni í lífeyrissjóðum.

Síðan eru frávik frá þessu aldursmiði, 67 ára lífaldri. Lítum aðeins á frávikin:

60 ára.

 • Eftirlaunaréttur sjómanna hefst við 60 ára aldurinn. Þá geta þeir fengið fulla greiðslu frá almannatryggingum.
 • Þegar fólk verður sextugt getur það almennt hafið mánaðarlega útgreiðslu reglulegra eftirlauna úr séreign sinni í lífeyrissjóðum.
 • 60 ára getur fólk gerst félagi í einhverju af þeim 53 félögum eldri borgara sem starfrækt eru nánast í hverju sveitafélagi landsins. LEB – Landssamband eldri borgara er síðan heildarsamtök þessara félaga. Á vefsíðu LEB er t.d. að finna skrá yfir öll aðildarfélögin. Vefsíða LEB: www.leb.is
  Strangt til tekið gætu þrjár kynslóðir sömu fjölskyldu verið í félagi eldri borgara. Þeir yngstu kannski 60 ára, foreldrar þeirra kannski 80 ára og afar og ömmur þeirra yngstu kannski 100 ára. Þrjár ólíkar kynslóðir, allt „eldri borgarar“!

65 ára.

 • Fólk getur hafið snemmtöku „ellilífeyris“ frá almannatryggingum frá og með 65 ára aldri en þó með ákveðnum skilyrðum, eins og þeim til dæmis að fólk hefji þá jafnframt að taka við greiðslum úr sameign sinni í lífeyrissjóðum. Snemmtaka felur í sér hlutfallslegri lægri mánaðarlegar greiðslur, bæði úr sameign lífeyrissjóða og lífeyri frá almannatryggingum. Hvort tveggja reiknast út sem svo að það teygist úr því tímabili sem fólk muni hugsanlega njóta lífeyrisgreiðslanna. 

70 ára.

 • Á þeim tímamótum þegar fólk verður 70 ára gera lög og kjarasamningar ráð fyrir að fólk sem starfar hjá hinu opinbera að því beri að láta af föstu starfi. Vissulega getur fólk yfir sjötugt verið í tímavinnu eða starfað t.d. sem verktakar hjá hinu opinbera. Nú er í meðförum hjá ríkinu sem og ýmsum sveitarfélögum að hækka þennan aldur upp í 72 ára.

Orð og hugtök koma og fara. Fólk talar stundum um æviskeiðin frekar en að nota orð eins og „eldri borgari“. Þá er ævinni skipt upp í t.d. fjögur æviskeið.

 • Fyrsta æviskeiðið er bernskan og skólaárin.
 • Annað æviskeiðið er þegar fólk er komið á vinnumarkað, eignast sitt eigið heimili og kemur sér fyrir í lífinu.
 • Þriðja æviskeiðið eftirlaunaldurinn meðan fólk er við góða eða sæmilega heilsu og getur að mestu séð um sig sjálft og getur tekið þátt í lífinu af þónokkrum þrótti.
 • Fjórða æviskeiðið er þegar fólk er orðið máttfarið og heilsulítið og stutt er í endalokin. Þetta fólk er gjarnan komið á hjúkrunarheimili.

Vert er að minna á að það eru til fleiri félög eldra fólks. Öflug og áhugaverð samtök eftirlaunafólks sem kallast U3A. Þau reka m.a. Háskóla 3ja æviskeiðsins (sem skammtöfunin U3A stendur fyrir). U3A er alþjóðleg hreyfing fólks á þriðja æviskeiðinu. Sjá vefsíðu U3A á Íslandi: http://www.u3a.is

U3A er líka hluti af verkefninu Vöruhús tækifæranna sem einnig er áhugavert. Sjá vefsíðuna: https://voruhus-taekifaeranna.is

U3A og Vöruhús tækifæranna notast við hugtakið „þriðja æviskeiðið“ en ekki „eldri borgari“.