fbpx

 

Í tilefni væntanlegra sveitarstjórnarkosninga 14. maí nk. hafa öll aðildarfélög LEB, 55 talsins víða um land, sameinast um helstu áhersluatriði til að leggja fyrir væntanlegar sveitastjórnir í þágu eldra fólks á landinu.

 

Áhersluatriði eldra fólks í komandi sveitarstjórnarkosningum

 

Tryggjum fjárhagslegt sjálfstæði

Lágmarkslífeyrir fylgi lágmarkslaunum

Það þarf að vera sameiginlegt markmið sveitarstjórnarfólks að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði eldra fólks. Það er því eðlileg krafa að lágmarkslífeyrir fólks verði aldrei lægri en umsamin lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði. Viðvarandi fjárhagslegt óöryggi skerðir lífsgæði eldra fólks, stuðlar að verra heilsufari og minnkar möguleika til sjálfsbjargar.

 

Húsnæðismál eru skipulagsmál

Fjölbreytt búseta eldra fólks

Stórkostlegur vandi blasir við á húsnæðismarkaði. Í skipulagsmálum sveitarfélaga verður að gera kröfu um að hluti byggingarsvæða verði ætlaður fyrir félagslegar íbúðir og leiguíbúðir fyrir eldra fólk.  Eðlilegt er að sveitarstjórnir hlutist til um byggingu leiguíbúða fyrir eldra fólk á viðráðanlegu leiguverði. Mikilvægt er að endurskoða reglur um húsnæðisbætur.

 

Litlar íbúðir sem tengjast þjónustu og samveru

Lífsgæðakjarnar svara kröfu um öryggi og samveru

Fjölga þarf lífsgæðakjörnum þar sem heimili og þjónusta er tengd saman. Í lífsgæðakjörnum er að finna minni leiguíbúðir sem tengjast hvers konar þjónustu,  skapa öryggi og samveru. Eldra fólk krefst fjölbreyttari búsetuúrræða með valfrjálsri þjónustu í tengslum við þjónustumiðstöðvar og heilsugæslu.  Velferðartækni ætti að vera mikilvægur þáttur í öryggi og bættri aðstöðu í heimahúsum eldra fólks.

 

Kröftugt heilsuátak meðal eldra fólks

Heilsugæslan verði miðstöð heilsueflingar sveitarfélaga

Ríki  og sveitarfélög þurfa að stórauka samvinnu sína með það að markmiði að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar í sveitarfélögunum. Heilsugæslan og sveitarfélögin nálgist  fólk fyrr á lífsleiðinni með skipulagðri hvatningu til heilsueflingar og aukins heilsulæsis. Styðja þarf við  möguleika á heilsueflingu á vegum sveitarfélaga, íþróttafélaga og félaga eldra fólks um land allt.  Gerður verði sérstakur samningur milli sveitarfélaga, ríkis, íþróttarhreyfingar og félaga eldra fólks um fjármögnun og framkvæmd heilsueflingarátaks meðal eldra fólks.

 

Eru okkar elstu bræður og systur afgangsstærð?

Fórnarlömb reksturs hjúkrunarheimila

Veikt eldra fólk er fórnarlömb langvarandi skorts á  hjúkrunarrýmum og þolendur mannréttindabrota. Eldra fólk dvelur vikum og mánuðum saman á Landsspítalanum þvert á gildandi lög og reglur. Mjög aðkallandi er  að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku, aðgang að heilbrigðisþjónustu, hjálpartækjum og annari þjónustu á hjúkrunarheimilum.

 

Drögum úr húsnæðiskostnaði eldra fólks

Afsláttur af fasteignargjöldum

Afsláttur sveitarfélaga af fasteignagjöldum er mikilvægur til að draga úr húsnæðiskostnaði eldra fólks en hann er mismikill eftir sveitarfélögum og tekjumörk breytileg. Mikilvægt er að afslátturinn breytist í takt við breytingar á fasteignasköttum og þannig sé tryggt að hann haldi verðgildi sínu.

 

Festa öldungaráð í sessi

Öldungaráð

Mikilvægt að öldungaráð hafi skýra stjórnsýslulega stöðu í skipulagi sveitarfélaga og þeim gert kleift að gegna því mikilvæga hlutverki sem lög kveða á um.