Kári Jónasson leiðsögumaður og fyrrverandi fréttamaður skrifar:
Enn á ný hafa fulltrúar verkalýðshreyfingar og vinnumarkaðsins sest að samningaborðinu til að semja um kaup og kjör. Það er talað um að þeir séu nú að semja fyrir meira en 100 þúsund manns. Á næstunni fara svo væntanlega í gang viðræður milli ríks og sveitarfélaga við BHM og BSRB. Þá eru ótalin mörg önnur félög, eins og Blaðamannafélag Íslands, flugmannafélagið og fleiri.
En það vantar að geta eins hóps- meira en 50 þúsund manna – sem eiga enga fulltrúa við samningaborðið, og það er eldra fólkið í samfélagi okkar, – sem á undanförnum árum hefur unnið hörðum höndum að því að byggja upp það velferðarsamfélag sem við nú búum við.
Já, þessi hópur á engan fulltrúa við samningaborðið, þótt margir í honum hafi lagt mikið á sig á undanförnum árum innan sinna stéttarfélaga við að bæta kjörin. Verkalýðsfélögin mörg hver – ekki öll – hafa hreinlega þurrkað nöfn þeirra út úr bókum sínum ,ef svo mætti segja, því kröfur um bættan hag þessa hóps eru sjaldséðar í kröfugerðinni í yfirstandandi samningum.
Þá vill svo til að einmitt þessa dagana eru kjör eldra fólks til umræðu hjá háttvirtu Alþingi, og ef marka má fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir, þá er þar ekki feitan gölt að flá fyrir eldra fólk.
Það er gjarnan talað um að virkja eldri borgara til meiri atvinnuþátttöku, en þar er yfir margar hindranir að fara. Ein er sú að eftir 70 ára aldur greiðir fólk ekki í lífeyrissjóð ef það stundar launaða vinnu. Fyrirtæki og stofnanir sleppa þannig við að greiða 11,5 % af launum þeirra í sjóðina, og má því segja að eldra fólk sé ódýr vinnukraftur. Launþegarnir fá hinsvegar ekkert aukalega í sinn vasa, og þetta er atriði sem gjarnan mætti taka upp í þeim viðræðum sem nú standa yfir og fyrirhugaðar eru.
Greinin birtist fyrst í Fréttabalaðinu 16. nóvember 2022