fbpx

 

Hluti fundarmanna á Landsfundi LEB 2020

Eftirfarandi grein birtist á vefnum Lifðu núna miðvikudaginn 15. júlí 2020 og speglar umræðuna á Landsfundi LEB 2020

 

„Þetta er svo mikið óréttlæti. Þegar það kostar ekki krónu að leyfa eldri borgurum að vinna sér til bjargar og þeim er meinað það.  Þegar verið er að skerða greiðslur Tryggingastofnunar á móti lífeyrisgreiðslum.  Þegar eldri borgarar missa öll réttindi sín í verkalýðshreyfingunni eftir áratuga starf. Þetta er svo ótrúlegt, að það er ekki hægt að þegja lengur“, segir Halldór Gunnarsson  formaður kjararáðs Félags eldri borgara í Rangárvallasýslu.  Á landsfundi LEB  -Landssambands eldri borgara -fyrir skömmu, las hann upp samþykkt félagsins frá í júní  þar sem lýst er vantrausti á stjórn LEB vegna þess að hún hafi engum árangri náð í hagsmunabaráttunni síðustu 10 ár. Ef ekki yrði breyting þar á, myndi félagið íhuga að segja sig úr Landssambandinu.

Vildi ekki vera formaður áfram

Nokkrar umræður urðu um kjaramálin  á fundinum og hægaganginn sem mörgum hefur þótt ríkjandi í þeim síðustu árin. Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB gagnrýnir það einnig  í leiðara nýjasta LEB blaðsins sem kom út um mánaðamótin, hversu hægt hefur þokast.  Haukur Halldórsson stjórnarmaður í LEB  var formaður nefndarinnar sem velferðarráðherra skipaði um lífskjör og aðbúnað aldraðra, en hún skilaði áliti  fyrir einu og hálfu ári og lagði  til að kjör þeirra sem njóta takmarkaðra réttinda í almannatryggingakerfinu, m.a.vegna þess að þeir hafa ekki búið nægilega lengi hér á landi, yrðu lagfærð. Frumvarp þar að lútandi var loks lagt fyrir Alþingi og samþykkt í síðustu viku. Ráðherranefndin hélt áfram störfum, en Haukur er ekki lengur formaður hennar.  „Ég gaf ekki kost á mér til áframhaldandi formennsku vegna þess að ég var ósáttur við starf nefndarinnar“, segir hann. „Mér fannst eins og það væri takmarkaður áhugi hjá stjórnvöldum að bæta kjör eldri borgara“. Haukur telur að  eldri borgar þurfi sterkara bakland í baráttunni.  Þar þurfi verkalýðshreyfingin og opinberir starfsmenn að koma að málum. „Síðan þufum við sjálf að vera sammála um hvað við setjum í forgang“ segir hann og bendir á að sú hafi ekki alltaf verið raunin.   „Stjórnmálaflokkar óttast ekki eldri borgara, það er vandinn“ , segir Þorbjörn Guðmundsson varamaður í stjórn LEB.

Framboð ef ekki kemst hreyfing á málin

En  hvað er til ráða   þegar stjórnmálamenn daufheyrast við bænum eldri borgara?  Halldór Gunnarsson telur að fyrsta atriðið sé að reyna að ná samstöðu með verkalýðshreyfingunni um að taka upp mál eldri borgara. Þá þurfi að styrkja Landssambandið fjárhagslega og auka sjálfstæði þess.  Eldri borgarar hafi á sínum tíma ekki viljað vera með í lottóinu og fái því ekki framlög af þeim peningum eins og Öryrkjabandalagið.  „Við verðum að hafa peninga til að gera það sem þarf og svo finnst mér sjálfsagt að Landssambandið styrki málaferli Gráa hersins myndarlega. Ef ekki tekst að koma neinni hreyfingu á málin finnst mér að Landssambandið eigi að hafa forystu um að kosin séu sjálfstæð kjararáð í félögum Landssambandsins, sem vinni í kjarabaráttunni og m.a. að framboði eldri borgara, í flokkum eða með sjálfstæðu framboði“, segir hann.

Málstaðurinn okkar megin

Haukur Halldórsson segist ekki trúa á digurbarkalegar yfirlýsingar og að menn láti glamra í vopnum. „Ég tel málstaðinn vera okkar megin og dropinn holar steininn“, segir hann en bætir við að baráttan sé snúin. Þannig hafi til dæmis Tekjusagan, vefurinn sem fjármálaráðuneytið setti á netið, ekki gefið rétta mynd af kjörum eldri borgara og erfitt hafi reynst að leiðrétta það. Það hafi komið upp hugmyndir um aðgerðir á vegum eldri borgara, svo sem eins og að stöðva umferð um Keflavíkurveginn og fleira og Grái herinn hafi farið í mál.  Haukur segir að danskir eldri borgarar hafi prófað að stofna stjórnmálaflokk sem bauð fram tvisvar sinnum. „Það kann að vera leið, ég ætla ekki að hafna því , alls ekki, en þá þurfa bæði Landssambandið og félögin að vinna markvisst að því.  Það þarf einnig að ríkja góð samstaða um það meðal eldri borgaranna sjálfra“.

Eiga eldri borgarar að stíga fram sem stjórnmálaafl?

„Það er ljóst að eitthvað meira þarf til, en bara samtalið við stjórnvöld, þó það sé sannarlega mikilvægt“ segir Þorbjörn Guðmundsson.  Hann segir athyglisvert að á Siglufirði hefðu eldri borgar tikynnt að þeir væru tilbúnir í framboð fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og þá hefðu stjórnmálaflokkarnir farið að tala við þá.  Tveir fulltrúar eldri borgara hefðu  komist í bæjarstjórn fyrir sína flokka og þeir hefðu skapað sér þannig stöðu að þeir hefðu áhrif. Nú væri fullt samráð við þá um þau mál sem að þeim snúa.  „Þau fóru ekki í sérframboð, heldur létu flokkana vita að stuðningur þeirra ylti á að þeim yrði sköpuð aðstaða til áhrifa“, segir Þorbjörn sem segist hafa hugsað alvarlega um það að í haust þyrfti lykilfólk í eldri borgara hreyfingunni að hittast og móta sér tiltölulega einfalda og skýra stefnu. Leggja fram 3-4 lykilmál sem þeir vildu ná fram og ganga eftir því við flokkana sem bjóða fram, hvaða afstöðu þeir hafi til þessara mála. Stilla þurfi flokkunum upp fyrir kosningar og eldri borgarar þurfi að bjóðast til að taka örugg sæti á framboðslistum sinna flokka.  Eftir kosningar þurfi þeir að geta unnið saman að því sem ein heild að tryggja framgang sinna brýnustu mála. „Mér finnst þetta tilraunarinnar virði“, segir Þorbjörn „hvort eldri borgara hreyfingin eigi að fara að stíga fram sem hreyfing í stjórnmálum“.