Aðalmeðferð skerðingamáls Gráa hersins fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur föstudag 29. október 2021. Þeir sem stefna ríkinu eða Tryggingastofnun ríkisins fyrir hönd Gráa hersins eru þau Ingibjörg H. Sverrisdóttir, Sigríður J. Guðmundsdóttir og Wilhelm Wessman. Þau telja að skerðingarnar fari í bága við stjórnarskrána.
Aðalmeðferðin tók um fjórar klukkustundir. Fyrsta talaði lögmaður stefnenda, Flóki Ásgeirsson og síðan tók Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður til varna.
Farið var vítt og breitt yfir lögin sem gilda um almannatryggingar í landinu, ýmsa dóma og ákvæði stjórnarskrárinnar sem einnig koma við sögu í málinu. Þannig telur Flóki að eignaréttur lífeyrisjóðsréttinda í Lífeyrissjóðum sé varinn í 72 grein stjórnarskrárinnar og ellilífeyrisréttindi fólks í almannatryggingakerfinu sömuleiðis. Stefnendur hafi allir greitt skatta og vinnuveitendur þeirra 2% tryggingagjald til almannatrygginga.
Villandi að tala um skerðingar
Einar Karl lagði áherslu á að lífeyrisréttindi manna í lífeyrissjóðum væru í engu skert í núverandi kerfi og að ellilífeyrir almannatrygginga félli ekki undir 72.grein stjórnarskrárinnar. Hann væri ekki áunninn eins og greiðslur úr lífeyrissjóði heldur grundvallaðist hann á 76.grein stjórnarskrárinnar sem fjallar um aðstoð við ýmsa hópa sem standa höllum fæti, þar á meðal aldraða. Hann segir villandi að tala um skerðingar á ellilífeyri frá almannatryggingum, þar sem hann sé hugsaður sem viðbót við lífeyri úr lífeyrissjóðum, eða aðstoð við þá sem eldri eru. Ríkið hafi fullan rétt til að ákveða upphæð ellilífeyris einhliða. Því hærri greiðslur sem menn hafi úr lífeyrissjóðum, því minna fái þeir frá almannatryggingum. Þannig fái menn ekki ellilífeyri frá ríkinu séu þeir með 620.000 krónur eða meira í mánaðartekjur.
Skerðingarnar óhemju íþyngjandi
Varðandi skerðingarnar í almannatryggingakerfinu sagði Flóki að þær væru óhemju íþyngjandi fyrir stefnendur, sem hefðu unnið og greitt iðgjöld í lífeyrissjóði alla ævi og væntu þess að það skilaði þeim ávinningi þegar þeir hættu störfum á vinnumarkaði. Hann tók dæmi um að skerðingar yllu því að tekjur uppá 5 milljónir króna lækkuðu í 4 milljónir vegna skerðinganna. Hann sagði langsótt að halda því fram að ekki væri verið að skerða réttindi fólks og tekjur allra stefnenda væru lágar. Hann sagðist líta á lífeyrisréttindin og réttindin í almannatryggingakerfinu sem eina heild og á vísaði því á bug að það væri hægt að skerða réttindi fólks í öðru kerfinu vegna réttinda í hinu.
Kjarabætur meiri en hjá öðrum
Einari Karli þótti aftur á móti skjóta skökku við að tala um skerðingar í kerfinu þar sem ellilífeyrir hækkaði stöðugt og hefði hækkað verulega með nýju almannatryggingalögunum sem tóku gildi árið 2017. Fyrsta árið hefðu þau lög haft í för með sér 11 milljarða hækkun ríkisútgjalda. Hann sagði líka að greiðslurnar í almannatrygginakerfinu hefðu alltaf verið tekjutengdar. Með núverandi kerfi væru skerðingar minni en áður og ellilífeyrir hærri. Kjör eldri borgara hefðu batnað verulega og kjarabætur verið meiri hjá þeim en öðrum.
Hér hefur einungis verið drepið á það helsta í málflutningi beggja aðila. Búist er við dómi eftir fjórar til sex vikur. Að loknum málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur efndi Grái herinn til útifundar á Austurvelli. Þar var spilað og sungið og Þórhildur Þorleifsdóttir flutti ávarp.
Erna Indriðadóttir tók saman. Greinin birtist fyrst á vefnum LIFÐU NÚNA
Útifundur Gráa hersins á Austurvelli eftir málflutning
Eftir málflutninginn hélt Grái herinn útifund á Austurvelli og talið er að hátt í þúsund manns hafi sótt fundinn og var mikil stemming á honum og baráttuandi.
Fyrir fund hitaði rokkamman sjálf, Andrea Jónsdóttir, með að þeyta skífum.
Helgi Pétursson formaður LEB setti fundinn og var jafnframt kynnir fundarins. Að því loknu steig annar lögmaður Gráa hersins, Flóki Ásgeirsson, á svið og rakti helstu rök bæði sækjenda málsins og verjenda. Þá stigu á svið Örn Árnason leikari og Jónas Þórir píanóleikari og fóru með gamanmál. Að skemmtun þeirra lokinni var það Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri sem flutti brýningu til eftirlaunafólks og var gerður góður rómur að máli hennar. Það var síðan söngvaskáldið Hörður Torfa sem lauk fundinum með ljóðum sínum og lögum.
Andrea Jónsdóttir sá síðan um að fundargestir yfirgæfu fundinn undir góðri og kröftugri tónlist