fbpx

 Aðalfundur Landssambands eldri borgara haldinn í Reykjavík 10 og 11 apríl 2019 ályktar eftirfarandi:

Fundurinn krefst þess að staðið verði við það fyrirheit að allir eldri borgarar nái að minnsta kosti lágmarkslaunum og greiðslur Tryggingarstofnunar ríkisins breytist á sama tíma og taxta- breytingar verða á launamarkaði. Þá telur fundurinn núverandi regluverk um fjármagnstekjur óviðunandi, því samkvæmt lögum er einnig greiddur skattur af verðbólgunni. Eðlilegt er að skattleggja aðeins raunvextina. Vaxtatekjur eldri borgara hafa líka í för með sér skerðingu á lífeyri almannatrygginga. Þessi tvísköttun fjármagnstekna er sérstaklega óréttlát. Hún kemur í veg fyrir að eldri borgarar geti varveitt sparnað sinn í bönkum með jákvæðum raunvöxtum. Hækka þarf frítekjumark fjármagnstekna hjá Tryggingastofnun ríkisins og/eða taka upp sérstakan persónuafslátt gagnvart fjármagnstekjum eldri borgara. Fundurinn telur það algjört réttlætismál að almennt frítekjumark verði hækkað verulega og jafnframt því verði gerð áætlun um lækkun og afnám prósentuskerðingar Tryggingastofnunnar vegna greiðslna úr  lífeyrissjóðum. Einnig leggur fundurinn áherslu á að tryggður verði jöfnuður milli lífeyrisþega gagnvart Almannatryggingum, vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum sem tilkominn er vegna skylduiðgjalds, hvort sem lífeyrir kemur úr samtryggingu eða séreign. Fundurinn telur að afnema beri skerðingu vegna atvinnutekna við útreikninga hjá Tryggingastofnun ríkisins, og að  reglur um sveigjanleg starfslok verði endurskoðaðar nú þegar. Enda sé það í samræmi við framtíðarsýn og meginmarkmið eins og það byrtist í fjárhagsáætlun ríkistjórnararinnar 2019-2023.