fbpx

Landsfundur Landssambands eldri borgara, haldinn 5. – 6. maí 2015, vill að Framkvæmdasjóður aldraðra verði efldur og geti staðið við kröfur um fjölgun hjúkrunarrýma sem taki mið af fjölgun aldraðra á næstu árum. Ástandið á enn eftir að versna ef ekkert er að gert. Ríki og sveitarfélög verða að bregðast við vandanum nú þegar með gerð áætlunar um fjölgun hjúkrunarrýma til að mæta brýnni þörf á næstu árum. Fólki standi jafnframt til boða almenn dvalarrými t.d. á hjúkrunarheimilum eða sérstökum sambýlum. Landsfundurinn skorar á stjórnvöld að koma sem fyrst á samþættingu hjúkrunar og heimaþjónustu um land allt. Efla þarf dagdvöl og fjölga plássum í endurhæfingu aldraðra.

Landsfundurinn vill að eftirlit með hjúkrunarheimilum verði markvisst og fylgt verði viðurkenndum reglum og stöðlum um hjúkrun aldraðra. Gerðir verði þjónustusamningar við öll hjúkrunarheimili. Landsfundurinn ítrekar þá kröfu að greiðslufyrirkomulag á hjúkrunarheimilum verði endurskoðað. Fólk haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu þegar það flytur inn á hjúkrunarheimili, greiði húsaleigu, fæði og aðra grunnþjónustu. Ríki eða sveitarfélög greiði fyrir hjúkrun og umönnunarþáttinn og vasapeningar verði aflagðir. Miklar líkur eru á því að með núverandi fyrirkomulagi sé um stjórnarskrárbrot að ræða.

Landsfundurinn beinir því til heilbrigðisráðherra að nauðsynlegt er að efla heilsugæslu og aðra grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins. Heilsugæslan er fyrsti snertipunktur og þyrfti að sinna víðtækara starfi en verið er að sinna í dag. Fjölga þarf heimilislæknum verulega svo allir eigi völ á heimilislækni og hafi að þeim greiðan aðgang. Bið eftir læknaviðtölum er óheyrilega löng. Efla þarf framboð á heilsurækt fyrir aldraða bæði á hjúkrunarheimilum og fyrir þá sem búa á eigin heimili. Lækka þarf komugjöld til lækna sem hafa hækkað verulega undanfarin ár.

Landsfundurinn skorar á stjórnvöld að hraða uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut eins og fremst er unnt. Jafnframt verði tekin ákvörðun um að nýta núverandi húsakynni Landspítala í Fossvogi sem sérstaka miðstöð öldrunarlækninga. Það væri verðugt hlutverk fyrir þá byggingu þar sem ljóst er að með fyrirsjáanlegri fjölgun aldraðra er mjög æskilegt að hafa betri aðstöðu til öldrunarlækninga og rannsókna en nú er.

Landsfundurinn skorar á heilbrigðisráðherra að draga til baka þær breytingar á reglugerð um styrki vegna hjálpartækja nr. 1155/2013, sem hafa útilokað niðurgreiðslu til aldraðra á þeim hjálpartækjum sem auðvelda umönnun aldraðra í heimahúsum og viðhalda færni þeirra til að búa heima. Skilgreining á því hverjir eigi rétt á niðurgreiðslu hjálpartækja er allt of þröng í reglugerðinni og aðgangur aldraðra að hjálpartækjum verulega takmarkaður. Landsfundurinn leggur til að eftirtalin hjálpartæki og heilbrigðisþjónusta verði niðurgreidd í forvarnarskyni, svo sem: Heyrnartæki, neyðarhnappur, gleraugu, ýmis konar farartæki og tannlækningar.