Nú í upphafi árs 2021 þegar lög um bann við afhendingu á plastburðarpokum tóku gildi átti formaður LEB, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, fund með umhverfisráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, í umhverfisráðuneytinu. Við það tækifæri afhenti hún ráðherranum fjölnota tauburðarpoka sem LEB hefur látið framleiða með árituninni Afi og amma redda málunum.
HÉR er hægt að lesa frekar um sjálfa tauburðarpokana og hvernig er hægt að verða sér út um þá
Þessi fundur formanns LEB og ráðherra var ekki síst táknrænn vegna þess að nú í upphafi árs tóku gildi ný lög sem banna afhendingu plastburðarpoka.
Umbúðalausir eldri borgarar
Með þessum táknræna fundi hrindir LEB af stað umhverfisverkefni sínu sem ber heitið Umbúðalausir eldri borgarar.
Auk fjölnota tauburðarpokanna er LEB með í vinnslu stiklur til sýninga í sjónvarpi, samfélagsmiðlum og vefsíðum.
Í stiklunum er athygli eldra fólks og annarra vakin á umhverfisvernd í daglegu lífi og hvernig hver og einn getur lagt sitt af mörkum á einfaldan og skilvirkan hátt.
Ein af þessum stiklum vekur athygli á notkun umhverfisvænna fjölnota burðarpoka, önnur um nauðsyn á að farga lyfjum og öðrum eiturefnum á réttan hátt o. sv. frv.
LEB vill með þessu hvetja sitt fólk til að vera til fyrirmyndar, kynslóðina sem hefur rutt brautina í margs konar skilningi í samfélagi okkar í gegnum tíðina. Stiklurnar verða væntanlega tilbúnar til sýninga núna á fyrrihluta þessa árs.
Bann við afhendingu plastburðarpoka tekur gildi
Um áramótin tóku þær reglur gildi sem banna afhendingu plastburðarpoka í verslunum. Bannið tekur jafnt til þunnu, glæru grænmetispokanna og innkaupaburðarpokanna, en nær ekki yfir plastpoka sem eru seldir í rúllum í hillum verslana.
Til þess að koma í veg fyrir að einnota neysla færist yfir á aðra eru einnota burðarpokar úr öðrum efniviði en plasti gjaldskyldir.
Plastpokabannið er í samræmi við Evróputilskipun sem lýtur að því að draga úr notkun á plastpokum. Bannið var einnig meðal þeirra tillagna sem samráðsvettvangur um aðgerðir í plastmálefnum afhenti Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í loks árs 2018. Í samráðsvettvangnum áttu sæti m.a. fulltrúar atvinnulífsins, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis og ráðuneyta.
Plastpokabannið er ein af fjölmörgum aðgerðum sem stjórnvöld ráðast í til þess að draga úr notkun á plasti, auka endurvinnslu á því og koma í veg fyrir plastmengun sjávar. Nánar má lesa um aðgerðirnar í aðgerðaáætlun í plastmálefnum; Úr viðjum plastsins, sem kom út síðastliðið haust.