Vinir okkar Danir leggja nú mikla áherslu á að vinna gegn einmanaleika eldra fólks. Í lok árs 2016 var stofnað nýtt ráðherraembætti, ráðherra málefna aldraðra, svo það er ljóst að Danir ætla að taka málefnið föstum tökum. Danir er með mun hærra hlutfall aldraðra en við hér á Íslandi og þar vinnur fólk skemur.
LEB er virkt í norrænu samstarfi, sem er mikilvægt fyrir öll Norðurlöndin og þaðan kemur ýmiss konar fróðleikur um stöðu mála í hverju landi. Vikulega gefa systursamtök okkar í Danmörku út fréttabréf, fagligsenior.dk, á Netinu þar sem meðal annars er töluvert fjallað um einmanaleika og viðbrögð við honum.
Boblberg.dk er vefur sem hægt er að fara inn á og leita að fólki sem gæti vel hugsað sér að kynnast öðru fólki til að spjalla við og verja gæðastundum með. Þar er hægt að leita að:
- Vinum og vinkonum.
- Einhverjum til að fara með í ræktina eða í annars konar hreyfingu.
- Einhvern til að fara með í göngutúra.
- Ferðafélaga, dansfélaga og íþróttavini.
- Matarklúbbum og annars konar samvinnu.
- Einhvern til að skrifast á við eða tala við.
- Öðrum með heilabilun eða aðra viðkomandi og margt margt fleira.
Það sem fólk þarf að gera er að fara inn á heimasíðuna boblberg.dk. Leita að hópi sem gæti hentað og gefa upplýsingar um sjálfan sig.
Um 110.000 manns eru skráðir í bobleberg og aðgangur er ókeypis.
Væri þetta ef til vill heppileg leið, eða eitthvað í þessa átt, til að fjölga í vinahópnum og vinna gegn einmanaleika hér á landi?
Gaman væri að fá viðbrögð.