fbpx
  1. 335. – stjórnarfundur- pdf skjal 335.  – Stjórnarfundur LEB 29. okt 2020-word
335. Stjórnarfundur LEB 29. október 2020

Kl. 10.00-13.00

Mætt : Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Haukur Halldórsson, Valgerður Sigurðardóttir, Dagbjört Höskuldsdóttir, Ingibjörg Sverrisdóttir, Ingólfur Hrólfsson og Þorbjörn Guðmundsson, ásamt starfsmanni LEB, Viðari Eggertssyni.
Guðfinna Ólafsdóttir boðaði forföll.

Fundargerð síðasta fundar samþykkt.

Formaður, Þórunn Sveinbjörnsdóttir setti fund.

  1. Staða mála núna
  • Þórunn sagði frá fundi með Ásmundi Daða Einarssyni ráðherra félagsmála, sem hún sat ásamt Ingibjörgu. Þar var farið yfir kjaramál eldri borgara og fleira. Til stóð að ráðuneytið hefði samband aftur en af því hefur ekki orðið.
  • Einnig var fundur með samtökum sveitarfélaga, rafrænn. Valgerður, Guðfinna og Ingólfur tóku þátt í þeim fundi ásamt Þórunni. Þar var t.d. farið yfir starfsemi öldungaráða hjá sveitarfélögunum, en misjafnt hefur verið, eftir sveitarfélögum hvernig þau vinna. Auk annara mála s.s. um hvort niðurskurður væri á dagskrá vegna covid.
  • Í gær, 28. október, var tveggja tíma rafrænn fundur með norrænu samtökunum NOPO sem LEB er aðili að. Aðallega var farið yfir árið og svo voru skýrslur frá löndunum um Covid faraldurinn.
  • Fundur var svo með forstöðumanni Fjölskyldu og hýsdýragarðsins um  samstarf um eldri borgara daga.
  • Þórunn minntist á Landakot og þá erfiðu stöðu sem þar er vegna Covid smita.
  1. Mál á Alþingi sem snerta eldra fólk
  • Þingmannafrumvarp nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um söluhagnað eigna, þar sem tekið er m.a á frístundaeignum.
  • Frumvarp um lífeyrisréttindi flutt af Samfylkingunni um hækkun lífeyris, sem felur í sér að elli og örorkulífeyrir fylgi þróun lámarkstekjutryggingar í samræmi við kjarasamninga.
  • Einnig tvö frumvörp frá Flokki fólksins sem snertir aldraðra.
  • Þórunn kynnti líka skýrslu sem unnin var af félagsmálaráðuneytinu fyrir Ágúst Ólaf Ágústsson þingmann um stöðu aldraðra og lögð var fram á Alþingi í lok september. Sú skýrsla er fróðleg.
  • Þorbjörn spurðist fyrir um hvort ekki væri búið að senda umsögn til Alþingis varðandi fjárlögin. Það var ekki gert á því formi heldur send inn ályktun LEB um málið. Ingibjörg minntist á að til væri listi yfir þá sem beðnir væru um að senda umsögn um frumvarpið – en LEB er á þeim lista. Viðar mun senda stjórninni þennan lista. Ganga þarf eftir því að fá fund með fjárlaganefnd og að LEB láti vita vel af sér og sínum málum. Þórunn sagði að fyrir lægi beiðni um fund með fjárlaganefnd. Haukur minntist á að það væri mörg atriði í fjálagafrumvarpinu sem athugunar þyrfti. Fjárlagafrumvarpið verður til skoðunar í kjaranefnd.
  1. Staða TR við úttekt ríkisendurskoðunar

Gagnrýni ríkisendurskoðunar nær minna til eldri borgara en öryrkja. En ljóst er að bæta þarf málsmeðferð við töku ákvarðana og útreikning bóta. Stofnunin hefur sett fram tillögur til úrbóta í 7. liðum. Þorbjörn sagði mikilsvert að skilið yrði á milli eftirlaunafólks og öryrkja þegar farið verður í endurskoðun á lögum um almannatryggingar. Haukur lýsti sig sammála um að ekki sé talað um í einu orði öryrkja og aldraðra, enda hefur það verið stefna LEB. Rætt var um tekjuáætlanir sem ætlast er til að eftirlaunafólk gerði. Ingibjörg sagði að svona tekjuáætlanir gætu aldrei orðið nákvæmar. Fáir gera tekjuáætlanir, þær eru of flóknar. Valgerður tók undir að skilið yrði í milli aldraðra og öryrkja. Hún minntist líka á að til stæði að breytt yrði útreikning vegna skerðinga á atvinnutekjum. Urðu allmiklar umræður um lífeyrismál og skerðingar, starfsemi lífeyrissjóðana og fleira.
Samþykkt að leggja ríka áherslu á aðskilnað örorku og aldraða í umræðunni um almannatryggingar. 

  1. Kjaranefnd LEB

Í henni eru Sigurður Björgvinsson Hafnarfirði, Haukur Halldórsson Akureyri, Þorbjörn Guðmundsson Reykjavík, Drífa Sigfúsdóttir Reykjanesbæ, Jón Ragnar Björnsson Hellu, Sigurbjörg Gísladóttir Reykjavík og varamenn Stefanía Magnúsdóttir Garðabæ og Ingibjörg H. Sverrisdóttir Reykjavík.

  1. Umsókn um rekstrarstyrk

Verið er að sækja um sérstakan rekstrarstyrk vegna sérstaks átaks í rekstri LEB til félagsmálaráðuneytisins, skv auglýsingu þess dags. 9. október 2020.

  1. Dómsmál vegna 70 ára starfsloka

Lagt fram bréf frá Daníel Isebarn um dóm í héraðsdómi vegna konu sem hann  höfðaði mál fyrir. Dómsmálið er vegna uppsagnar þegar hún varð sjötug. Málið tapaðist. Er nú spurningin hvort áfrýja eigi málinu. Ingólfur vakti máls á því að fara yrði varlega vegna þess að nú væri í umræðunni að hækka lífeyrisaldurinn. Urðu allmiklar umræður um málið, sveigjanleg starfslok og fleira . Til að taka ákvörðun um áfrýjun þarf meiri upplýsingar og upplýsingaöflun. Verður rætt betur á næsta fundi.

  1. Lög um stuðning við þá sem eiga lítil lífeyrisréttindi vegna skertrar búsetu. — Staða mála

Lagt fram upplýsingarblað frá TR um afgreiðslu á félagslegum viðbótastuðningi við aldraða nýbúa og íslendinga sem ekki hafa náð 40 ára búsetu á Íslandi.

  1. Húsnæðismál LEB

Þórunn og Viðar hafa aðeins verið að skoða húsnæðismál, en afar þröngt er á skrifstofunni. Þau telja hægt að fá annað húsnæði  á hagkvæmara verði og mun stærra rými. Samþykkt að þau haldi áfram að skoða málið.

  1. Akstur á efri árum

Eftir er talsvert af styrk sem LEB fékk til verkefnisins sem lagt er til að nota í fræðsluefni. Samþykkt að gefa út upplýsingarit um akstur, hvernig hægt er að leggja bílnum og taka leigubíl, hvenær endurnýja þarf skírteini og svo frv.

  1. Öldungaráðin hvar standa þau?

Til stendur að LEB geri athugun á því hvernig sveitarfélögin skipa í ráðin og félög eldri borgara, hversu miklu vinna þeirra skilar, hvort greidd er þóknun fyrir nefndarstörfin og hvort öldungaráðin virki eða ekki. Samþykkt að senda út spurningalista til formanna aðildarfélag LEB.

  1. Önnur mál
  • Þórunn dreifði úrklippu úr Morgunblaðinu af umfjöllun þar sem fjallað er um fyrirspurn efnahags- og viðskiptanefndar til fjármálaráðuneytisins, sem snýr að því hvers vegna bætur hækki um 3,6 % við áramótin næstu þegar laun hækki um 5,2%.
  • Þórunn minntist líka á orðanotkun sem snertir aldraða s.s vistmenn sem eru dvalargestir á Landakoti. Rætt var um stöðu hjúkrunarheimilanna en rekstur þeirra er erfiður.
  • Einnig var minnt á að taka upp vinnu við Afsláttarbókina.

 

Lagt til að næsti fundur verði 19. nóvember.

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Dagbjört Höskuldsdóttir, ritari.

 

Fundargerð samþykkt á stjórnarfundi mánudaginn 30. nóvember 2020

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Haukur Halldórsson   Valgerður Sigurðardóttir

Dagbjört Höskuldsdóttir   Ingibjörg H. Sverrisdóttir

Ingólfur Hrólfsson   Þorbjörn Guðmundsson