fbpx

Fundargerð stjórnarfundar LEB nr. 265

 

Stjórnarfundur LEB nr. 265, haldinn miðvikudaginn 26.06.2013 kl.08:00

 

í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, Reykjavík.

 

Mættir voru Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (JVK), Haukur Ingibergsson (HI), Eyjólfur Eysteinsson (EE) og Jón Kr. Óskarsson (JKÓ). Einnig Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður kjaranefndar LEB.

 

Fjarverandi : Anna Lúthersdóttir og Ragnheiður Stephensen

 

JVK setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Tilefni fundarins, sem boðaður var með dags fyrirvara, væri að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hafi daginn áður, 25. júní, lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum. Áformað væri að afgreiða málið á sumarþing og því væri mikilvægt að LEB skoðaði og tæki afstöðu til þess sem þar væri lagt til. Rætt var um efni frumvarpsins og samþykkti stjórnin eftirfarandi:

 

Landssambands eldri borgara fagnar frumvarpi

 

félags- og húsnæðismálaráðherra um bætt kjör aldraðra

 

Landssamband eldri borgara fagnar frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem ráðherra lagði fram á Alþingi 25. júní sl. Landssambandið skorar á alþingimenn að samþykkja frumvarpið þannig að aðstefndar kjarabætur aldraðra gangi í gildi 1. júlí og minnir á að um 36.000 íslendingar eru 67 ára og eldri og hefur þessi hópur enga lögvarða samningsstöðu um kjör sín og réttindi.

 

Í frumvarpinu eru stigið mikilvægt fyrsta skref í þá átt að bæta kjör aldraðra og draga að fullu til baka þær skerðingar sem lögfestar voru árið 2009, eins og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn lofuðu á aðdraganda kosninga til Alþingis 27. apríl sl.

 

Ákvæði frumvarpsins um að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækki úr 480.000 kr. í 1.315.200 kr. á ári, hvetur aldraða til aukinnar þátttöku og virkni í atvinnulífinu og eykur möguleika þeirra á að bæta kjör sín. Ákvæði frumvarpsins um að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki grunnlífeyri almannatrygginga mun bæta kjör fjölmargra aldraðra. Sambærileg áhrif mun hafa framkvæmd fyrirheits sem gefið er í greinargerð frumvarpsins um að lagaákvæði frá 2009 um hækkun hlutfalls tekjutengingar tekjutryggingar úr 38,35% í 45%, verði ekki framlengt er ákvæðið fellur úr gildi í árslok 2013.

 

Landsamband eldri borgara leggur áherslu á að haldið verði áfram vinnu í þágu aldraðra við einföldun og umbætur á almannatryggingakerfinu þar sem m.a. verði byggt á vinnu hóps sem starfaði á síðasta kjörtímabili og skipaður var fulltrúum frá öllum þingflokkum, aðilum vinnumarkaðarins og helstu hagsmunaaðilum.

 

Ákveðið var að leggja samþykktina fram á fundi stjórnar LEB með ráðherra sem haldinn verður í kjölfar stjórnarfundarins.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 08:30.

 

Fundarritari Haukur Ingibergsson