fbpx

FUNDARGERÐ

Framkvæmdastjórnarfundur LEB nr. 257

haldinn 19.02. 2013. kl. 10:00 að Sigtúni 42.

Mætt voru: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (JVK), Unnar Stefánsson (US), Eyjólfur Eysteinsson (EE), Ragnheiður Stephensen (RS), Sigurlaug Inga Árnadóttir (SIA), Haukur Ingibergsson (HI), Grétar Snær Hjartarson (GSH).

Fjarverandi: Guðný Kristinsdóttir (GK) og Anna Lúthersdóttir sem var veik.

SIÁ ritaði fundargerð.

JVK setti fundinn og  bauð fundarmenn velkomna.

  1. Fundargerð 256. fundar.

Formaður lagði fram fundargerð 256. fundar framkvæmdastjórnar LEB.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Fundargerðin samþykkt.

  1. Vinna formanns, stjórnar og framkvæmdastjóra LEB frá 8. jan. – 19. feb. 2013.

9. jan.   Fundur í Öldrunarráði um áætlaðan þjóðfund um mál eldri borgara og framtíðarsýn. JVK og US mæta.

10. jan. Undirbúningsnefnd landsfundar. HI, GSH og JVK. Fundað í Hafnarfirði með stjórn FEBH.

12. jan. JVK skrifar bréf til FEB-félaga um starf LEB á árinu 2012.

15. jan. JVK semur bréf til LEB-félaga um landsfund .  Velferðarvaktin, fundur. US mætir.

17. jan. Öldrunarráð. JVK mætir.

22. jan. Velferðarnefnd LEB. JVK, RS, BS.  Ákveðið að senda spurningalista til sveitarfélaga  á höfuðborgarsvæði og Akureyri um verð og hollustu á innihaldi heimsends matar.

23. jan. Öldrunarráð. JVK mætir.

24. jan. Fundur í Samráðsnefnd um ESB-umsókn. JVK mætir. Rætt um að hafa næst fund um landbúnaðarmál og halda síðan opinn fund.

25. jan. Kynning í þjónustumiðstöð Breiðholts um LEB og FEBR. Sigurður hjá FEBR mætir.

29. jan. Hádegisfundur hjá Framsóknarflokki. US mætir í stað JVK (sem lenti í bílslysi) og einnig mætti GSH. Fundur hjá landlækni. RS og BS mæta.

30. jan. Öldrunarráð, fundur. US mætir.

6. feb.   Öldrunarráð, fundur. US mætir.

11. feb. Farið yfir þingmál til umsagnar. Umsögn send um frumvarp um almannatryggingamál  þar sem dregnar séu til baka skerðingar fyrri ára. Flutningsmenn eru Hreyfingin.

Guðbjartur ráðherra hefur samband við JVK um frumvarp um ellilífeyri. Enn stefnt að því að leggja það fram.  Þó ljóst að það klárast ekki á þessu þingi.

GSH mætir á fund Almannaheilla, sem eru samtök frjálsra félagasamtaka.

12. feb. Fundur í framkvæmdanefnd vegna landsfundar. GSH, HI. JVK fjarverandi.

13.-14. feb. Unnið að undirbúningi stjórnarfundar LEB, JVK og GSH.

15. feb. Fundur í nefnd um samningsgerð við Velferðarráðuneytið og um fjárhagsáætlun 2013 og 2014, GSH, HI, EE.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Lagt fram til kynningar.

  1. Fundargerð þjónustunefndar frá 22.01. 2013.

10. fundur velferðarnefndar LEB eftir Landsfund 2011 var haldinn 22.01 kl. 10:00 og mættu fulltrúar að Sigtúni 42.

Mættar voru: Aðalmenn: Ragnheiður Stephensen, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Bryndís Steinþórsdóttir. Varamenn eru boðaðir, en ekki er skyldumæting hjá þeim. Varamenn eru Anna Lúthersdóttir og Eyjólfur Eysteinsson.

  1. Formaður setti fund og bauð nefndarmenn velkomna. Hún sagði að von væri á Berglindi Magnúsdóttur sem er forstöðumaður heimaþjónustu Reykjavíkur. Enn væri hún að bíða eftir svari frá landlækni þar sem hún hefði óskað eftir fundi hjá honum. Bryndís lagði fram minnisblað þar sem fram kom m.a. það sem hún hefur unnið frá síðasta fundi og helstu atriði sem hún vildi ræða á þessum fundi varðandi menntun starfsfólks í heimaþjónustu og heimsendan mat, einkanlega á Reykjavíkursvæðinu.

  1. Berglind mætti kl. 10:30 og var boðin velkomin. Hún fór yfir þessi mál í víðu samhengi

og kom þetta fram: Nýir starfsmenn í heimaþjónustu skulu sækja þrjú grunnnámskeið.

Síðan geta þeir fengið sérstök námskeið um tiltekin efni. Hún taldi allt of mikið gert úr              þrifum eldra fólks. Frekar ætti að leggja áherslu á heimaþjónustu. Að fá fólk til starfa væri erfitt en þó væru hærri laun í heimaþjónustu en t.d. fyrir ófaglærða á leikskóla. Hvað matarsendingar í heimahús varðaði þá væri nú komin tvö ár síðan byrjað var með kælingu á heimsendingu matar, sem hefði verið talið nauðsynlegt til að næringargildi héldist. Ekki hefði verið gerð könnun á því hvernig það hefði reynst. Enn ætti líka eftir að stækka framreiðslueldhúsið til þess að hægt væri að hafa fjölbreyttari mat og auka valfrelsi notenda.

  1. Nefndin ræddi svo málið eftir þessar upplýsingar. JVK vitnaði í skýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga um félagsþjónustu þar sem fram kemur að óheimilt er að ráða í starf hjá sveitarfélögum til þjónustu við fatlaða fólk sem hlotið hefur refsidóma vegna brota á almennum hegningarlögum. Sveitarfélög eigi rétt á að fá upplýsingar úr sakaskrá, en samþykki viðkomandi aðila þurfi til. Hún hafði upplýsingar frá Akureyri um að þar væri sveitarfélagið að setja sér reglur um að krefjast ætíð sakavottorðs þegar ráðið væri í störf í heimaþjónustu. Ákveðið að semja bréf til þjónustuhóps aldraðra hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og leggja fram spurningar um hvernig málum sé háttað hjá þeim.  JVK falið að semja drög að bréfi og senda á milli nefndarmanna í tölvupósti.

Fundargerð ritaði Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Lagt fram til kynningar.

  1. Umsögn um þingskjal 573, mál 454.

Eftirfarandi umsögn lögð fram:

Eldri borgarar hafa tekið á sig miklar skerðingar allt frá því að breytingar voru gerðar á lögum um almannatryggingar árið 2009. Landssamband eldri borgara hefur margoft mótmælt þeim skerðingum og óskað eftir því að þær verði dregnar til baka. Rætt var um að þetta væri tímabundin ráðstöfun sem ætti að gilda til þriggja ára. Enn hefur ekki borið á neinum breytingum til þess að draga þetta til baka eða gera frekari breytingar á lögum um almannatryggingar í þágu eldri borgara og öryrkja.

Landssamband eldri borgara tók á síðasta ári þátt í starfshópi m.a. með fulltrúum allra þingflokka og aðilum vinnumarkaðarins um endurskoðun almannatryggingarlaga og hefur staðið að því að lagt yrði fram nýtt frumvarp um ellilífeyri þar sem tekið væri á þeim skerðingum sem gilda í dag. Landssambandið mun að sjálfsögðu standa við það samkomulag sem þar var gert en þykir þó ljóst að á þessu þingi nái það ekki fram að ganga. Þetta frumvarp sem hér er lagt fram miðar að því að snúa við þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um almannatryggingar með lögum nr. 100/2007.

Landssamband eldri  borgara mælir með því að frumvarpið verði samþykkt.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Umsögn rædd og samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar LEB 19. feb. 2013.

  1. Landsfundurinn.

Öll gögn varðandi landsfundinn eiga að vera tilbúin 28. feb. JVK og HI eru að útbúa bréf til formanna allra félaga þar sem fram kemur dagskrá landsfundarins ásamt tillögu um árgjald aðildarfélaga eldri borgara til LEB 2013-2014. Skjalalistinn verður að vera tilbúinn til útsendingar tveimur mánuðum fyrir landsfund Landssambands eldri borgara.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar.

Samþykkt.

  1. Fjármál – ársreikningur LEB.

Verið er að leggja síðustu hönd á ársreikninga og fjárhagsáætlun LEB. Í ljós hefur komið að leiðrétta þarf færslu í ársreikningi 2011. Þegar reikningar verða tilbúnir munu þeir liggja frammi á skrifstofu félagsins að Sigtúni 42 og verði settir á heimasíðu LEB.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Samþykkt að semja okkur að tækninni og nota tölvurnar.

  1. Þjóðfundur Öldrunarráðs.

JVK sagði að LEB væri boðið að taka þátt í Þjóðfundi Öldrunarráðs sem ber nafnið

Framtíðarþing um farsæla öldrun“ og verður haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur 7. mars og hefst kl.16:30.

Öll félög sem taka þátt borga fyrir þátttöku og JVK leggur til að LEB borgi kr. 50.000.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Samþykkt og ef framlagið dugar ekki verður það endurskoðað.

  1. Önnur mál.

  1. Lagt er til að velferðarnefnd LEB sendi til Hrafnistu og annarra fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu eftirfarandi:

Landssamband eldri borgara ályktaði á síðasta landsfundi sínum 2011 að á hjúkrunarheimilum skyldi unnið eftir hugmyndafræði Lev og bo, Eden eða sambærilegri stefnu í öldrunarmálum. Það felur í sér að hjúkrunarheimili verði rekin eftir þeirri grundvallarhugsun að heimilisfólkið búi ekki á vinnustað starfsfólksins heldur starfi það inni á heimilum heimilismanna. Starfsfólk á ekki að klæðast sérstökum starfsmannafatnaði í vinnunni. Heldur bregður það sér í hlífðarslopp ef óhapp hendir eða setur upp svuntu við eldhússtörf eins og gert er í heimahúsum. Löngu sannað er að besta sóttvörnin er góður handþvottur og því til viðbótar að heimilismaður búi í einbýli.

Við í stjórn LEB leggjum mikla áherslu á að þessari stefnu sé fylgt. Persónulegur klæðnaður starfsfólks er stór þáttur í að skapa hlýlegan og skemmtilegan heimilisbrag á hjúkrunarheimilum.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Samþykkt að fela velferðarnefnd LEB að ganga frá bréfinu.

  1. Borist hefur svar við styrkbeiðni af safnliðum fjárlaga 2013.

Velferðarráðuneytið vísar til umsóknar Landssambands eldri borgara um styrk á grundvelli auglýsingar 19. október 2012 um úthlutun styrkja til félagasamtaka og verkefnastyrki á sviði velferðarmála. Alls bárust 142 umsóknir.

Velferðarráðherra hefur ákveðið að veita Landssambandi eldri borgara styrk að fjárhæð 5.000.000 kr. til að bæta upplýsingamiðlun til aldraðra, styrkja starfsemi skrifstofu Landssambands eldri borgara og efla og reka heimasíðu sambandsins.

Velferðarráðuneytið mun innan skamms boða Landssamband eldri borgara til fundar til að ræða möguleika á samningi til tveggja ára.

Upplýsingar um styrkþega og fjárhæðir styrks verða birtar á heimasíðu ráðuneytisins síðar í þessum mánuði.

                         Guðbjartur Hannesson   Valgerður Gunnarsdóttir.

Afgreiðsla framkvæmdarstjórnar:

Fundarmenn lýstu yfir ánægju með bréfið.

  1. JVK  sagði frá fundarboði frá Öryrkjabandalagi Íslands sem haldinn verður um sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk og þar sem spurt verður um afstöðu framboða til Alþingis.

  1. JVK fékk boð frá Halldóri Guðmundssyni, forstöðumanni Öldrunarþjónustu Akureyrar, um að halda stjórnarfund LEB þar og kynna sér um leið öldrunarmál á Akureyri. JVK falið að þakka boðið, en við sjáum ekki möguleika á að þiggja það að svo stöddu vegna kostnaðar. Rætt um að gott væri að geta haldið a.m.k. einn stjórnarfund árlega úti á landi.

  1. RS sagði frá hópi 8, sem er í tengslum við flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga og á að taka fyrir gæði og eftirlit í öldrunarþjónustu; þar væru fundir byrjaðir og væntir hún góðs af þeim fundum.

  1. EE sagði frá því að fundi í stóru nefndinni um flutning málefna aldraðra hefði verið       frestað vegna ágreinings sem þyrfti að leysa við hjúkrunarheimilin.

  1. JVK sagði að Velferðarnefnd LEB hefði sent bréf með spurningum til þjónustuhópa  aldraðra á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri um hvernig háttað er til við heimaþjónustu aldraðra í þessum sveitarfélögum.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12:00.

Næsti fundur áætlaður 5. mars  kl. 10:00 að Sigtúni 42.

Sigurlaug I. Árnadóttir

– fundarritari-