fbpx

FUNDARGERÐ

                                            Framkvæmdastjórnarfundur LEB nr. 256

                                haldinn 08.01.2013. kl. 10:00 að Sigtúni 42.

Mætt voru: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (JVK), Unnar Stefánsson (US), Eyjólfur Eysteinsson (EE), Ragnheiður Stephensen (RS), Sigurlaug Inga Árnadóttir (SIA), Anna Lúthersdóttir (AL), Haukur Ingibergsson (HI) og Grétar Snær Hjartarson (GSH).

Fjarverandi: Guðný Kristinsdóttir (GK).

SIÁ ritaði fundargerð.

JVK setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna og síðan þakkaði hún fundarmönnum fyrir mjög gott samstarf á liðnu ári og óskaði viðstöddum alls góðs á nýju ári.

  1. Fundargerð 255. fundar.

Formaður lagði fram fundargerð 255. fundar framkvæmdastjórnar LEB.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Fundargerðin samþykkt.

  1. Vinna formanns, stjórnar og framkvæmdastjóra LEB frá 11. des. 2012 til 8. jan. 2013.

11. des.     Fundur í þjónustunefnd LEB; RS, JVK og Bryndís Steinþórs.

12. des. Gengið frá bréfi til velferðarráðherra skv. umræðu á stjórnarfundi með ítrekun um að  lagt verði fram frumvarp um almannatryggingar sem átt hefði að taka gildi 1. jan. 2013. Þar áttu að koma fram breytingar á ellilífeyri og hækkun bóta almannatrygginga. JVK og GSH. Lýst er í bréfinu furðu á því að frumvarpið skuli ekki hafa verið lagt fram ennþá.

14. des. Fundur í samráðsnefnd um ESB-umsókn. Vinnufundur allan daginn. Farið yfir sjávarútvegsmál. JVK mætir.

17. des. Birt í Mbl. grein eftir JVK um kjaramál sem send var Mbl. í byrjun desember.

18. des. Fundur í framkvæmdanefnd vegna landsfundar um bréf til uppstillingarnefndar og fleiri mál sem tengjast landsfundi. GSH, HI og JVK.

19. des. JVK og GSH ganga frá bréfi til uppstillingarnefndar ásamt ýmsum fylgiskjölum.

20. des. JVK og GSH vinna að jólakveðju (vísu og mynd á jólakort) til FEB-félaga.

24. des. Sigmar B. Hauksson sem verið hefur ritstjóri Listarinnar að lifa árið 2012 andaðist eftir stutta sjúkrahúslegu. JVK sendir samúðarkveðju til Kjartans, samstarfsmanns hans og biður fyrir kveðju til fjölskyldu Sigmars.

  1. janúar 2013. JVK mætir í móttöku á Bessastöðum fyrir LEB.

  2. jan. Unnið að undirbúningi stjórnarfundar LEB, JVK og GSH.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Lagt fram til kynningar.

  1. Fundargerð þjónustunefndar LEB frá 11. des.

Níundi fundur í þjónustunefnd LEB eftir Landsfund 2011 var haldinn 11. des. 2012 kl. 13:00 og mættu fulltrúar að Sigtúni 42.

Mættar voru Ragnheiður Stephensen, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Bryndís Steinþórsdóttir.  Varamenn: Anna Lúthersdóttir og Eyjólfur Eysteinsson voru fjarverandi.

  1. Ragnheiður formaður setti fund og bauð nefndarmenn velkomna.
  1. Ritari lagði fram fundargerðir tveggja síðustu funda nr.7 og 8 og voru þær samþykktar.  Fundargerðirnar áður verið sendar fundarmönnum í tölvupósti.
  1. Mætt var til fundar Ólöf Guðný Geirsdóttir, sem er starfandi í HÍ og hjá Rannsóknarstofu í öldrunarfræðum, til að ræða um hollustu matarsendinga fyrir aldraða og næringarinnihald máltíða. Bryndís taldi nauðsynlegt að fá fram hvað hægt væri að gera til að bæta hollustu matarins og einnig þyrfti upplýsingar um hvort fólk borðar matinn sem það fær sendan. Eru máltíðir næringarfræðilega samsettar? Ólöf sagði að hjá Reykjavíkurborg hefði verið starfandi næringarfræðingur til að fylgjast með skólamáltíðum, Jóhanna Eyrún Torfadóttir, en henni verið sagt upp og staðan lögð niður. Ólöf taldi slíka stöðu vera nauðsynlega og einnig fyrir aldraða.
  1. Hún taldi best að senda fyrirspurn til Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um að skoða hollustu á mataræði eldri borgara, samanber könnun um skólamáltíðir. Gera þyrfti sambærilegar kröfur þar og fyrir skólabörn. Spurning væri hvaða sjónarmið ráði þegar heimsending matar er boðin út. Eru það kröfur um hollustu eða eru aðeins hagræn sjónarmið látin ráða við val á tilboðum í heimsendingu matar fyrir eldri borgara.
  1. Afgreiðsla: Rætt um að þjónustunefnd sendi fyrirspurn til borgarstjórnar Reykjavíkur um hvernig þessum málum er fyrir komið þar. Ólöf ætlar að beina því til nemenda í næringarfræði við HÍ að taka það sem lokaverkefni að gera samanburð á höfuðborgarsvæði og Norðurlandi hvað varðar hollustu matar, hvaða kröfur eru gerðar í útboðsgögnum þegar óskað er tilboða í matarsendingar til eldri borgara og fleira mætti útfæra betur í verkefninu ef einhver fæst í það. Ákveðið að fá Ólöfu aftur á fund í febrúar til að heyra hvernig málið stendur. Henni þakkað kærlega fyrir komuna, góðar upplýsingar og vilja til að fylgja málinu eftir.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:30.

Fundargerð ritaði Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Lagt fram til kynningar. Stjórn LEB ræddi tillöguna um að kanna hollustu matar hjá Reykjavíkurborg og voru uppi efasemdir um að einskorða sig við Reykjavík, frekar ætti að skoða málið á landsvísu. Lagt til að þjónustunefnd verði nefnd velferðarnefnd hér eftir, þar sem það lýsi betur hlutverki hennar.

  1. Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um tóbaksvarnir o.fl. þingmál nr. 499 á þingskjali 641.

Formaður lagði til að veita eftirfarandi umsögn:

„Landssamband eldri borgara mælir eindregið með því að frumvarpið verði samþykkt. Við teljum fyllilega tímabært að takmarka aðgang fólks að reyklausu tóbaki, sem getur ekki síður en annað tóbak valdið heilsutjóni, sem kemur fram síðar á ævinni.“

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar LEB 8. janúar 2013.

  1. Landsfundurinn.

Framkvæmdanefnd landsfundar LEB er búin að hittast og ræða dagskrá landsfundarins og nú liggur fyrir að senda til félaganna í LEB tillögur um stund og stað og verð. Einnig hvernig  kostnaður félaganna verður greiddur. Lagt er til að framkvæmdanefndin verði fimm manns, þar af tveir frá FEB-H. Lögð verður áhersla á að unnið verði í hópum á landsfundinum til að efla samstöðu fundarmanna. Framkvæmdanefnd fer  til fundar við Jón Kr. Óskarsson, formann FEB í Hafnarfirði, og ræðir við hann nk. fimmtudag um undirbúning og framkvæmd landsfundar LEB í maí í vor.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Samþykkt að framkvæmdanefnd landsfundarins sjái alfarið um framkvæmd landsfundar LEB.

  1. Farið yfir breytingar á lögum LEB.

Tillaga að lagabreytingum sem laganefnd LEB skilaði af sér 16. nóv. 2011 var lögð fram á formannafundi LEB í mars 2012. Haustið 2012 var tillagan send formönnum allra FEB-félaga með beiðni um skoðun og athugasemdir ef einhverjar væru. Skilafrestur var til 15. des. 2012.

Bréf barst frá FEB í Hafnarfirði og Félagi aldraðra í Borgarfjarðardölum. Stjórn LEB fór nákvæmlega yfir lögin og tillögur að breytingum, bæði frá laganefnd og þeim tveimur félögum sem sendu inn athugasemdir.

Birnu Bjarnadóttur, formanni laganefndar, verða sendar tillögur að breytingum sem framkvæmdastjórn lagði til.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:

Samþykkt að JVK semji greinargerð um lagabreytingar og sendi formanni laganefndar.

  1. Önnur mál.

  1. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður kjaranefndar Landssambands eldri borgara, mætti á framkvæmdastjórnarfundinn og ræddi vítt og breitt um stöðuna í kjaramálum okkar.  Þórunn hefur ómældan áhuga á kjörum eldri borgara og hvetur til að senda skilaboð frá okkur til stjórnvalda og skyldra aðila um stöðu mála og láta í okkur heyrast hvort heldur á „Facebook“, í blöðum eða útvarpi.

Þórunn er nú að skrifa blaðagrein um kjaramál, heimaþjónustu, heilsu og hækkanir á vörum. Einnig mun hún hafa samband við útvarpsstöðvar um að flytja þar erindi um stöðu eldri borgara. Ljóst er að kjaraskerðingin 1. júlí 2009 liggur mjög þungt á okkur og að ekki skuli vera búið að leiðrétta þá aðför að eldri borgurum í landinu, en þessi skerðing átti að vera tímabundin og þrjú ár nefnd í því sambandi. Enginn fundur hefur verið í starfshópi um almannatryggingar um skeið. Til stóð að leggja frumvarp um breytingar á almtrlögunum fram á Alþingi á haustönn 2012, en það hefur enn ekki orðið.

Afgreiðsla framkvæmdastjórnar:.

Þórunni þökkuð koman á fundinn og fyrir skelegga umræðu um kjaramál okkar.

  1. EE ræddi um endurskoðun reikninga félagsins og sagði að þeir ættu að vera tilbúnir um næstu mánaðamót. EE þakkaði JVK og HI fyrir mjög gott starf í almannatrygginganefndinni og vill þrýsta á að samkomulagið sem gert var þar verði afgreitt fyrir þingkosningar í vor.

JVK ætlar að hafa samband við fjármálaráðherra og velferðarráðherra vegna málsins.

  1. Kjaramálanefnd fundar 10. jan. Rætt um að senda ályktun frá nefndinni um kjaramál.  JVK mætir á fund nefndarinnar. HI telur að við eigum að senda áskorun til velferðarráðherra um að standa við gefin fyrirheit.

  1. GSH mun senda fyrirspurn til velferðarráðuneytis og óska eftir vitneskju um afgreiðslu ráðuneytisins á umsókn LEB um rekstrarstyrk og þjónustusamning.
  1. US sagði frá því að Pétur Magnússon, forstjóri DAS og formaður Öldrunarráðs Íslands, óskaði eftir að formaður og varaformaður LEB mættu á fund hjá ÖÍ næsta dag, vegna undirbúnings að fyrirhugaðri ráðstefnu ÖÍ. Helgi K. Hjálmsson er fulltrúi LEB í ÖÍ. HI telur að formaður LEB eigi alltaf að eiga sæti í Öldrunarráði Íslands. JVK og US munu mæta á fundinn.

JVK þakkaði fyrir góðan fund og sagði fundi slitið kl. 14:45.

Næsti fundur 12. febrúar kl. 10:00 að Sigtúni 42.

Sigurlaug I. Árnadóttir

-fundarritari-