fbpx

Við viljum vekja athygli á sýningunni Lífsblómið Fullveldi Íslands í 100 ár sem var opnuð í Listasafni Íslands þann 17. júlí síðastliðinn.

Sýningin Lífsblómið fjallar um fullveldi Íslands, forsendur þess og meginþætti í sjálfstæðisbaráttu og sjálfsmynd Íslendinga frá árinu 1918 og til dagsins í dag. Að henni standa Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðskjalasafn Íslands og Listasafn Íslands. Sýningin veitir sýn yfir fullveldistímann á aðgengilegan hátt með fjölda sýningarhluta.

Á sýningunni eru sýnd í fyrsta skipti á Íslandi tvö af helstu miðaldahandritum Íslendinga, sem varðveitt eru í Kaupmannahöfn, Ormsbók með Fyrstu málfræðiritgerðinni frá miðri 12. öld og Reykjabók Njálu frá um 1300. Á sýningunni eru einnig merk handrit frá Árnastofnun í Reykjavík eins og Möðruvallabók og Staðarhólsbók Grágásar. Úr fórum Þjóðskjalasafns má sjá fundargerðabók þjóðfundarins 1851, sambandslagasamninginn 1918 og manntalið 1703 sem er á skrá UNESCO yfir menningarverðmæti á heimsvísu eins og handritasafn Árna Magnússonar. Myndlistin ljær umræðunni um ýmis átakamál á fullveldistímanum rödd sína og eru verk á sýningunni eftir marga af fremstu listamönnum þjóðarinnar, m.a. Ragnar Kjartansson, Ólaf Elíasson, Birgi Andrésson, Ólöfu Nordal ásamt fjölda annarra.

Sýningin er opin alla daga nema mánudaga, frá kl. 10 17. Aðgangseyrir fyrir eldri borgara er 750 krónur. Hægt er að bóka leiðsögn hjá sérfræðingi á virkum dögum frá kl. 1417 eða eftir samkomulagi. Nauðsynlegt er að bóka tíma fyrir fram. Fjörutíu mínútna leiðsögn kostar 15 þúsund krónur, auk aðgangseyris hvers og eins.

Hafið samband við Svanhildi Maríu Gunnarsdóttur, svanhildur.maria.gunnarsdottir@arnastofnun.is og í síma 822 0121 eða Ragnheiði Vignisdóttur, ragnheidur@listasafn.is og í síma 515 9614 eða 621 9614 til þess að bóka tíma. Svanhildur María og Ragnheiður veita allar frekari upplýsingar.