fbpx

Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB skrifar pistilinn:

 

Fyrir síðustu Alþingiskosningar lagði LEB – Landssamband eldri borgara til að unnið yrði  að þróun og uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk sem tryggðu öryggi og samveru. Í  lífgæðakjörnum þarf fjölbreytt val leiguíbúða með aðgangi að þjónustu eftir þörfum hvers og eins. Í kjarnanum yrði fjölbreytt þjónusta s.s. hárgreiðslu- og snyrtistofur, veitingastaðir, apótek og lágvöruverslun svo eitthvað sé nefnt. Kjarninn væri tengdur við hjúkrunarheimili og heilsugæslu. Hugsunin er að einstaklingar geti flutt sig innan kjarnans eftir þjónustuþörf. Megin áherslan er á að fólk geti búið sem lengst í sjálfstæðri búsetu.

Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB

Staðsetning skiptir miklu máli,  góð aðstaða til útivistar s.s. gönguleiðir og önnur aðstaða til útiveru. Þegar hugað er að staðsetningu er mikilvægt að tryggja greiða leið að skipulögðum svæðum eins og t.d. almenningsgörðum og góðum tengslum við lífið í nærumhverfinu þar sem annað fólk sækir. Nauðsynlegt að huga að því að staðsetning leiði ekki til einangrunar eldra fólks frá öðru fólki.  Það þarf einnig að huga að veðurfari og kjarnarnir séu ekki á jaðarsvæðum.

Í sumar fengu fulltrúar LEB kynningu á fyrirhugaðri uppbyggingu á Gunnarhólma sem er staðsett í nágrenni Reykjavíkur en utan núverandi byggðar. Það er frábært að fólk sé að velta fyrir sér hvernig megi bæta aðstöðu eldra fólks en þá er einnig mikilvægt að eiga samtal við þá sem koma til með að njóta þess sem upp á er boðið og þróa hlutina út frá þörfum þeirra. Í þessu tilfelli hefði verið æskilegt að kann vilja eldra fólks til þess að taka sér búsetu utan núverandi byggðar á jaðarsvæði.

Lífsgæðakjarnar eiga vera í góðum tengslum viðkomandi  byggðarlag og þannig staðsettir að auðvelt sé að vera virkur þátttakandi í sínu samfélagi. Eldra fólk vill ekki vera  geymsluvara utan alfaraleiðar. Eldra fólk vill geta séð um sig sem lengst, búið í sjálfstæðri búsetu þar sem það nýtur öryggis og samveru við annað fólk.

Eldra fólk er stækkandi hópur og sem kallar á fjölbreytt úrræði. Búseta og þjónusta þurfa að fara saman. Sveitarfélög þurfa að taka frá byggingasvæði þar sem hægt að koma fyrir lífsgæðakjörnum með fjölbreyttri þjónustu, góðum tengslum við aðra byggð og náttúruna.

Að búa vel að eldra fólki er arðsamt fyrir samfélagið t.d. með lífsgæðakjörnum. Það seinkar innlögnum á hjúkrunarheimili og auðveldar að veita góða þjónustu. Það leiðir til meiri samskipta við annað eldra fólk  og dregur úr einangrun sem er fylgifiskur fólks sem er farið að gefa eftir vegna veikinda og aldurs.

Mikill skortur er á hjúkrunarheimilum og hefur uppbyggingin ekki fylgt eftir breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Skorturinn hefur birst í löngum biðlistum og útskriftarvanda stóru sjúkrahúsanna.  Nú þegar heilbrigðisráðherra boðar átak í fjölgun hjúkrunarheimila er jafnframt æskilegt að horfa samhliða á aðra möguleika sem geta bæði í senn lengt sjálfstæða búsetu eldra fólks, bætt þjónustuna og seinkað innlögn á hjúkrunarheimili.

Í upphafi spurði ég: Er Gunnarshólmi rétti staðurinn fyrir lífsgæðakjarna eldra fólks? Mitt svar er að staðsetningin uppfyllir ekki þau skilyrði sem ég tel að þurfi að vera til staðar. Við eigum ekki að staðsetja eldra fólk í jaðarbyggðum. Eða eins og Hallgerður sagði forðum við viljum engar hornkellingar vera.


Höfundur er formaður kjaranefndar Landsambands eldri borgara (LEB). Pistillinn birtist fyrst á Heimildinni.

Gunnarshólmi Svæðið sem um ræðir er við hlið Suðurlandsvegar. Þarna er áformað að 7.500 manns geti búið, innan bæjarmarka Kópavogsbæjar. – Mynd: Kópavogsbær