Blaðamaður vefmiðilsins Lifðu núna skrifar frá Landsfundi LEB 2022 sem haldinn var þriðjudaginn 3. maí í Hraunseli í Hafnarfirði
Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara er bjartsýnn á starf nýrrar verkefnisstjórnar sem ætlað er að gera heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. „Svipað og gert var í málefnum barna á síðasta kjörtímabili“ sagði Helgi þegar hann fór yfir störf Landssambandsins síðasta árið á landsfund LEB sem nú stendur yfir í Hafnarfirði. Landssambandið hefur þegar tilnefnt þau Helga Pétursson formann LEB og Ingibjörgu Sverrisdóttur formann FEB fulltrúa sína í verkefnisstjórninni.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um er að ræða stuðningsþjónustu eða heilbrigðisþjónustu, á forsendum þess sjálfs, á réttu þjónustustigi og á viðunandi tíma. Mikilvægt er að samþætta þjónustu við eldra fólks því það mun auka lífsgæði fólks og stuðla að því að þjónustukerfi hér á landi ráði við vænta fjölgun notenda á komandi árum. Þverfaglegt samstarf á milli félags- og heilbrigðisþjónustu í málefnum eldra fólks er grundvallaratriði til að ná fram samlegðaráhrifum fagþekkingar á hvoru sviði fyrir sig og tryggja fullnægjandi þjónustu við þennan stækkandi þjóðfélagshóp.
Félags- vinnumarkaðs- fjármála- og heilbrigðisráðherra munu eiga fulltrúa í verkefnisstjórninni, auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssamband eldri borgara
Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er að leiða vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk, að stuðla að samvinnu og samhæfingu milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila. Stjórninni er ætlað forgangsraða og útfæra tímasett markmið í aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem verði lögð fram í haust. Í framhaldinu á stjórnin að vinna skipulega að innleiðingu og framkvæmd fyrrgerinar aðgerðaáætlunar m.a. með tillögum um hvaða breytinga á lögum og reglugerðum þarf að ráðast í til að ná fram þeim markmiðum sem sett eru fram.
127 fulltrúar Félaga alls staðar að af landinu eru nú staddir á Landsfundinum í Hafnarfirði. Eftir hádegi verða umræður og þar verða samþykktar ályktanir meðal annars um hjúkrunarheimilismál.