fbpx

 

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir að fleiri hjúkrunarrými væru í boði ef framkvæmdasjóður aldraðra hefði verið nýttur í uppbyggingu þeirra, líkt og reglur kveða á um.
Ljósm.: Vísir/ARNAR

 

Formaður Landssambands eldri borgara gagnrýnir að framkvæmdasjóður aldraðra hafi verið nýttur í rekstur hjúkrunarheimila en ekki í uppbyggingu þeirra líkt og reglur kveða á um. Þannig hefði til dæmis að miklu leyti verið hægt að koma í veg fyrir það úrræðaleysi sem nú blasi við í kjölfar hópsýkingarinnar á Landakoti.

Framkvæmdasjóði aldraðra er ætlað að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land. Í reglugerð um sjóðinn segir að fé úr sjóðnum eigi að vera varið til byggingar stofnana, þjónustumiðstöðva og dagdvala, svo fátt eitt sé nefnt. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir sjóðinn hins vegar ekki hafa verið nýttan í uppbyggingu hjúkrunarheimila.

„Þetta er mjög stór sjóður og það eru tveir milljarðar sem koma inn árlega, sem eiga að fara í uppbyggingu hjúkrunarheimila en í mörg, mörg ár hefur verið tekið úr honum í rekstur hjúkrunarheimila. Og það stendur til að gera það á næsta ári, ekki að fullu, en við værum löngu löngu búin að byggja þessi hjúkrunarheimili ef hann hefði ekki verið nýttur í það,“ segir Þórunn.

Fyrir liggi að skortur sé á úrræðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða, ekki síst núna þegar það vantar nýjar lausnir fyrir fólk sem dvalið hefur á Landakoti. Fjárskortur sé ástæðan fyrir því að sjóðurinn hafi verið nýttur í rekstur hjúkrunarheimila.

„Ástæðan er undanþága árlega vegna þess að peningum af skornum skammti er skammtað í rekstur hjúkrunarheimila og þar hefur þyngst verulega á seinni árum, ekki síst vegna þess að mörg hjúkrunarheimili þurftu að breyta sínu húsnæði fyrir tveimur áratugum eða svo, úr tvíbýli í einbýli og þá fækkaði svo mörgum hjúkrunarrýmum að það í raun og veru leiddi af sér dýrari rými. Og það kallar á meira fjármagn í reksturinn og svo eru það auknar kröfur sífellt um gæði þjónustunnar og allt annað.“

Þá hafi fjölgun eldri borgara ekki verið tekin inn í áætlanir stjórnvalda. Því þurfi að breyta.

„Það er svo mikil fjölgun fram undan að til þess að brúa það bil þurfum við gríðarlegt átak,” segir Þórunn.

Þórunn sagði jafnframt í kvöldfréttum Stöðvar 2 miðvikudaginn 18. nóvember sl. að starfsemi Landakots megi ekki tapast og að setja þurfi fjármagn í að lagfæra hana. Viðtalið má sjá hér.

 

  • Þessi frétt birtist fyrst á visir.is fimmtudaginn 19. nóvember 2020