Góður fundur með Félags- og húsnæðismálaráðherra
Fulltrúum Landssambandsins var boðið á fund með Félags- og húsnæðismálaráðherra, mánudaginn 8. desember sl. Á fundinn mættu Björn Snæbjörnsson, Sigurður Ágúst Sigurðsson og Oddný Árnadóttir. Við fengum afar góðar móttökur eins og venjulega hjá ráðherra og hennar aðstoðarfólki. Fundurinn var hugsaður til að koma á framfæri okkar áherslum í kjara- og húsnæðismálum og fá að heyra hvað er í farvatninu á næstunni hjá ráðuneytinu. Mikill og góður hljómgrunnur er á milli okkar um þau málefni sem brenna mest á okkar fólki. Við komum okkar helstu baráttumálum að og ráðherra upplýsti okkur jafnframt um ýmislegt jákvætt sem er að gerast m.a. í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Þar sem knappur tími er oftast gefinn í fundi sem þennan, óskuðum við eftir meira samráði milli okkar og ráðuneytisins. Vel var tekið í það og við hvött til að senda ráðuneytinu formlega beiðni um stofnun samráðshóp sem hittist þrisvar til fjórum sinnum á ári. Við bindum vonir við að það bæti upplýsingaflæðið og að okkar rödd fái að heyrast oftar og meira.