LEB er samstarfsaðili átaksins Gulur september
Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Markmiðið er að Gulur september opni samtalið, auki meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna og sé til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju. Í ár er sérstök áhersla á eldra fólk og sjálfsvígsforvarnir. Það er okkur í LEB mikill heiður að fá að styðja við þetta verkefni og fá að kynna það fyrir okkar félagsmönnum.
Sjálfsvíg eru lýðheilsuvandi sem hefur víðtækar tilfinningalegar, félagslegar og efnahagslegar afleiðingar. Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna er 10. september, en tilgangur hans er að sýna stuðning við sjálfsvígsforvarnir, að minnast þeirra sem hafa dáið í sjálfsvígi og sýna aðstandendum stuðning og samhug.
Að Gulum september standa fulltrúar frá: Embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala, Lífsbrú, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossinum, SÁÁ, Sorgarmiðstöð, Þjóðkirkjunni og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
Dagskráin í Gulum september stendur frá 1. september – 10. október.
Við vekjum sérstaka athygli á fyrirlestri sem fram fer 5. september:
Að styðja við góða líðan á eftirlaunaaldri
Rafræn fyrirlestraröð Sálfræðingafélagsins
5. september kl: 12:00 - 12:30
Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur með sérhæfingu í málefnum um geðheilbrigði aldraðra hjá HSN.
Aðrir áhugaverðir fyrirlestrar:
Fimm leiðir til að hlúa að vellíðan í daglegu lífi
Rafrænt fræðsluerindi á vegum Embættis landlæknis
10. september kl: 12:30 - 13:00
Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur og verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis flytur.
Rafræn fyrirlestraröð Sálfræðingafélagsins
12. september kl: 12:00 - 12:30
Rúnar Helgi Andrason, sérfræðingur í klínískri sálfræði, Reykjalundi
Rafræn fyrirlestraröð Sálfræðingafélagsins
19. september kl: 12:00 - 12:30
Dr. Ingunn Hansdóttir
Svefnlyf og hvernig er hægt að hætta á þeim
Rafræn fyrirlestrarröð Sálfræðingafélagsins
3. október kl: 12:00 - 12:30
Dr. Anna Birna Almarsdóttir, lyfjafræðingur, ÞÍH/Københavns Universitet
Sjá nánar um dagskránna og viðburðina hér:
Fimm leiðir að stuðla að vellíðan
Myndaðu tengsl
Myndaðu tengsl við fólkið í kringum þig, fjölskyldu þína, vini, samstarfsfólk og nágranna. Ræktaðu tengslin heima hjá þér, í vinnunni, skólanum og nánasta umhverfi þínu. Líttu á þessi tengsl sem hornsteina lífs þíns og gefðu þér tíma til að hlúa að þeim. Að byggja upp þessi tengsl styrkir þig og auðgar líf þitt á hverjum degi.
Leiðir til að efla tengslin eru fjölmargar og í raun bara hugmyndaflugið sem heftir í því. Tilvalið er að gera eitthvað saman og skapa með því góðar minningar. Það eflir líka tengslin að hjálpast að við þau verkefni sem fyrir liggja.
Hreyfðu þig
Farðu út að ganga eða í sund. Njóttu útivistar. Hjólaðu. Farðu í leiki. Ræktaðu garðinn. Dansaðu. Hreyfing færir þér vellíðan. Það er mikilvægasta er að finna hreyfingu sem þú hefur gaman af og hentar líkamlegu ástandi þínu og getu.
Það eykur líkurnar á að þetta takist ef þú færð vin eða fjölskyldumeðlim til að vera með þér í hreyfingunni. Flestum finnst bæði skemmtilegra og auðveldara að hreyfa sig með öðrum. Það eflir líka tengslin og þannig má segja að tvær flugur séu slegnar í sama högginu.
Taktu eftir
Haltu í forvitnina. Taktu eftir hinu óvenjulega. Veittu árstíðabreytingum athygli. Njóttu augnabliksins, hvort sem þú ert úti að ganga, að borða hádegismat eða að tala við vini þína.
Vertu vakandi fyrir veröldinni í kringum þig og hvernig þér líður. Að leiða hugann að því sem þú upplifir hjálpar þér að meta það sem skiptir þig máli.
Haltu áfram að læra
Prófaðu eitthvað nýtt. Rifjaðu upp gamalt áhugamál. Skráðu þig á námskeið. Taktu að þér ný verkefni. Lærðu að spila á hljóðfæri eða elda uppáhaldsmatinn þinn.
Settu þér markmið sem þú munt hafa gaman af að ná. Það er skemmtilegt að læra nýja hluti og eykur sjálfstraustið.
Gefðu af þér
Gerðu eitthvað fallegt fyrir vin þinn eða ókunnuga manneskju. Sýndu þakklæti. Brostu. Gefðu af tíma þínum. Taktu þátt í félags- eða sjálfboðaliðastarfi.
Fjölmörg góðgerðafélög eru rekin af sjálfboðaliðum og innan íþróttafélaganna er alltaf þörf fyrir vel meinandi sjálfboðaliða. Hikaðu ekki við að taka að þér verkefni fyrir félagsskap sem þú tengist eða hefur áhuga á.
Horfðu út á við og líka inn á við. Að líta á sig og hamingju sína sem hluta af stærra samhengi getur verið einstaklega gefandi og eflir tengslin við fólkið í kringum þig.
Frá Heilsuveru