Áskorun LEB til ríkisstjórnar Íslands
Landssamband eldri borgara hefur sent ríkisstjórn Íslands áskorun um að hefja endurskoðun á þeim kafla laga um almannatryggingar sem snúa að eldri borgurum.
Áskorunin er svohljóðandi:
Áskorun frá Landsambandi eldri borgara (LEB) um að hafin verði endurskoðun á lögum um almannatryggingar, sérstaklega því sem snýr að fyrirkomulagi á greiðslum ellilífeyris.
Stjórn LEB hefur á stjórnarfundi í maí sl. samþykkt að skora á ríkistjórnina að hefja sem allra fyrst endurskoðun á þeim þáttum í lögum um almannatryggingar, sem snúa að fyrirkomulagi á greiðslum til eldri borgara.
1. september nk. taka gildi breytingar er varða öryrkja sem einfalda fyrirkomulag lífeyrisgreiðslna og bæta þeirra hag, sem er fagnaðarefni
Einnig er það fagnaðarefni að grunnlífeyrir þeirra sé orðinn um 13% hærri en grunnlífeyrir TR hjá eldri borgurum og frítekjumarkið nærri þrefalt hærra.
Við teljum að á tímabilinu frá 2017 til dagsins í dag hafi orðið miklar þjóðfélagsbreytingar og eðlilegt að fara í endurskoðun á lögunum.
Landssambandið er stærsti og helsti hagsmunaaðili eldri borgara þessa lands og við teljum mjög brýnt að hefja vinnu við endurskoðun á lögunum er snúa að okkar umbjóðendum. Því var lofað í tíð fyrri ríkisstjórnar að okkar hlutur yrði endurskoðaður þegar búið væri að afgreiða öryrkjana.
Einnig erum við tilbúin að koma til fundar ef þess er óskað til að fylgja þessu máli eftir.
Með von um að okkar áskorun verði að veruleika og fyrirfram þökk
Björn Snæbjörnsson, formaður LEB