Ályktun formannafundar LEB

Formannfundur Landssambands eldri borgara (LEB) haldinn á Varmalandi í Borgarfirði dagana 23. og 24. september 2025 samþykkti eftirfarandi ályktun:

Formannafundur LEB skorar á ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að standa við loforðin sem eru gefin í stjórnarsáttmála er varða eldri borgara.

Í stjórnarsáttmála stendur:

„Stöðva strax kjaragliðnun launa og lífeyris og stíga stór skref til að uppræta fátækt.

Ríkisstjórnin mun hækka örorku- og ellilífeyri á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu en þó aldrei minna en verðlag.

 Almennt frítekjumark ellilífeyris hækki í skrefum upp í 60 þúsund krónur á mánuði, tekið verður upp frítekjumark ellilífeyris vegna vaxtatekna og dregið úr skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna.

Sérstökum hagsmunafulltrúa eldra fólks verður falið að standa vörð um réttindi þess. Bundið verður í lög að aldursviðbót á lífeyri öryrkja haldist ævilangt.

Þá verður gripið til frekari aðgerða til að bæta grunnframfærslu tekjulágra lífeyrisþega umfram vísitöluþróun. „

Það er ljóst að stórir hópar eldri borgara eru undir fátækramörkum og ekki ásættanlegt að ekkert sé í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026 sem gerir ráð fyrir sérstakri hækkun til þeirra verst settu umfram aðra.

Fundurinn fagnar því að hækka eigi grunnlífeyri m.v. launavísitölu en þrátt fyrir það verður munurinn á lægsta taxta SGS og grunnlífeyris rúmlega 100.000 kr. eftir áramót.

Frítekjumarkið hækkar um 5.000 kr. sem er lítið skref til réttlætis og mun skila fólki rúmlega 1.500 kr. eftir skatta og skerðingar.

Formannafundur LEB fagnar auknum áherslum ríkistjórnarinnar á uppbyggingu hjúkrunarheimila um allt land.

Ekkert bólar á frítekjumarki vegna fjármagstekna sem minnst er á í stjórnarsáttmálanum.

Það er ljóst að grunnlífeyrir frá TR er varðar eldri borgara er að dragast stórlega aftur úr t.d. miðað við öryrkja.

Formannafundur LEB krefst þess að farið verði í endurskoðun á Almannatryggingar lögunum er snúa að eldri borgurum og að við fáum að koma að þeirri endurskoðun.

Að okkar mati er það ekki boðlegt að um það bil 10.000 eldri borgarar séu með heildartekjur undir lágmarkstaxta á almennum vinnumarkaði.

Next
Next

Formannafundur LEB í Varmalandi