Fundaherferð LEB um landið
Fundaherferð formanns og framkvæmdastjóra LEB
Ákveðið hefur verið að formaður og framkvæmdastjóri LEB muni heimsækja öll félögin innan Landssambands eldri borgara í vetur og hófu þau fundaherferð sína um landið núna í september.
Fyrsti fundurinn var haldinn á Grenivík 15.september og síðan voru félögin heimsótt hvert af öðru, á norð-austur horni landsins. Frá Grenivík lá leiðin í Þingeyjarsveit og svo áfram til Mývatnssveitar. Þann 16.september voru haldnir fundir á Húsavík og á Kópaskeri. Áfram var svo haldið þann 17. september til Raufarhafnar, Þórshafnar og Vopnafjarðar. Við enduðum svo þessa yfirreið okkar á Seyðisfirði og Egilsstöðum. Til viðbótar heimsóttu formaður og verkefnastjóri Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum 24. september.
Það er skemmst frá því að segja að okkur var tekið með kostum og kynjum á öllum þessum 11 stöðum sem við heimsóttum. Mæting félagsmanna var framar vonum og á minnstu stöðunum fór mæting yfir 50% félagsmanna, sem við erum afar ánægð með.
Á öllum þessum fundum spunnust upp miklar og líflegar umræður og fram komu margar góðar hugmyndir og ábendingar. Það var okkur sönn ánægja að hitta þessi félög og það er alveg ljóst að við fórum heim með mikið og gott vegnesti inn í starfið okkar í vetur.
Við hlökkum til að halda áfram með fundaröðina okkar og næst á dagskrá hjá okkur eru Eyjafjörður, Vestfirðir og norð-vesturland í nóvember.
Hér fyrir neðan eru myndir frá ýmsum af þeim stöðum sem við heimsóttum í september: