Af landsfundi LEB
Landsfundur LEB 2025 var haldinn í Reykjanesbæ 29. apríl sl. Góð mæting var á fundinn og met þátttaka. Um 170 fulltrúar frá miklum meirihluta félaga eldri borgara, vítt og breytt um landið og samtals um 90 manns fylgdust með fundinum í streymi. Margir góðir gestir höfðu boðað komu sína. Fyrst ber að nefna að settur bæjarstjóri Reykjnesbæjar, Halldóra F. Þorvaldsdóttir, bauð landsfundagesti velkomna í bæinn og fagnaði því að fundurinn skyldi haldinn á Suðunesjum.
Forseti Íslands heiðraði okkur síðan með nærveru sinni. Halla Tómasdóttir og Helgi Pétursson, fráfarandi Formaður LEB áttu saman skemmtilegt spjall um málefni eldri borgara og þau verkefni sem framundan eru við að bæta hag og líðan okkar sístækkandi aldurshóps.
Edda Björgvinsdóttir skemmti okkur svo með afar fróðlegu erindi um leiðir til að halda í hamingjuna og húmorinn. Eins og henni einni er lagið kryddaði hún fyrirlestur sinn með skemmtisögum af sér og sínum, sem fengu fundargesti til að veltast um af hlátri.
Eftir “Eddu gleðina” tók alvaran við með hefðbundnum aðalfundarstörfum. Málefna nefndir voru settar á laggirnar sem fjölluðu um; Kjaramál, húsnæðismál og Lagabreytingar. Útkoma úr starfi kjaranefndar og húsnæðisnefndar eru ályktanir sem verða birtar hér á síðunni í sérstakri umfjöllun. Laganefnd og stjórn fóru yfir tillögur að lagabreytingum sem voru síðan allar samþykktar þegar kom að kosningum. Ein lagabreytingin snýr að fjölda í stjórn og var samþykkt að fjölga aðalmönnum úr 5 í 7 og fækka varamönnum úr 3 í 2.
Úrslit kosninga til stjórnar voru:
Formaður
Björn Snæbjörnsson, Akureyri
Meðstjórnandi
Ásgerður Pálsdóttir, Húnabyggð
Meðstjórnandi
Guðrún Benediktsdóttir, Fljótsdalshéraði
Meðstjórnandi
Magnús J. Magnússon, Selfossi
Meðstjórnandi
Sigurður Ág. Sigurðsson, Reykjavík
Varamaður
Birgir Hinriksson, Vík
Varamaður
Margrét Halldórsdóttir, Kópavogi
Tveir aðalmenn sitja áfram
Gjaldkeri
Sigrún C. Halldórsdóttir, Ísafirði
Ritari
Þóra Hjaltadóttir, Akureyri
Að loknum aðalfundarstörfum hélt Félags- og húsnæðismálaráðherra, Inga Sæland erindi þar sem hún minnti okkur m.a. á að það væri í okkar valdi að sporna við fótum þegar við sjáum að einhver er að einangrast. Hennar málflutningur tónaði vel inn í okkar helstu málefni þar sem hún boðar m.a. átak í uppbyggingu húsnæðis fyrir eldri borgara og bætt kjör. Hún lauk síðan erindi sínu á að syngja og fékk allan salinn til að taka undir og gerði þetta stormandi lukku.
Undir lok fundar fengum við að hlýða á fróðlegan fyrirlestur Svavars Knúts og Líneyjar um vitundarvakningu um félagslega einangrun.
Helgi Pétursson, fráfarandi formaður kom síðan í pontu og flutti kveðjuávarp og að lokum steig nýr formaður á stokk til að slíta fundi og blása okkur baráttuanda í brjóst eins og hans er von og vísa.
Hér má sjá nokkrar myndir frá fundinum. Fleiri myndir munu birtast á næstunni