Ályktun landsfundar í húsnæðismálum
LEB vill stórfellt átak í húsnæðismálum eldra fólks
Húsnæðisnefnd Landssambands eldri borgara gerir þá kröfu til stjórnvalda að gert verði stórfellt átak í að byggja ódýrar og hagkvæmar íbúðir, þar með taldar þjónustuíbúðir, fyrir eldra fólk. Margir eldri borgarar hafa lágar tekjur og og eiga ekki annan kost en að vera á leigumarkaði. Leiga á almennum markaði er svo há að lífeyririnn dugar varla fyrir húsaleigu.
Mikilvægt er að húsnæðiskostnaður verði aldrei hærri en 25% af ráðstöfunarfé fólks sbr.lög nr.52/2016 um almennar íbúðir, en ljóst er að þessi kostnaður er oftar nær 50% og í mörgum tilfellum hærri. Leggja ber því áherslu á óhagnaðardrifin félög við uppbyggingu leiguíbúða.
Lífsgæði fólks eru misjöfn en eitt er víst að grunndvallar atriði er að allir hafi þak yfir höfuðið. Því er það okkar krafa í LEB að komið verði til móts við þann stóra hóp fólks sem á í erfiðleikum með að ná endum saman vegna mikils kostnaðar við húsnæði.
Lífsgæði eldra fólks eiga ekki að vera bundin við það hvort þau hafi efni á húsnæði heldur er það skylda okkar, að allir hafi þak yfir höfuðið og geti þannig átt ánægjuríkt ævikvöld.