fbpx

 

Ýmsar áhugaverðar og jafnframt umhugsunarverðar upplýsingar er að finna í Ársskýrslu Tryggingastofnunar 2020 sem birt hefur verið. Hana er að finna á vef TR og hér er tengill á skýrsluna: ÁRSSKÝRSLA TR 2020

Skýrslan er eingöngu gefin út á rafrænu formi.

Heimsfaraldur Covid-19 hafði nokkur áhrif á starfsemi Tryggingastofnunar árið 2020 en gripið var til margvíslegra nýjunga í þjónustunni til að bregðast við ástandinu og tryggja snuðrulausa þjónustu við viðskiptavini stofnunarinnar. Má þar m.a. nefna tilraunaverkefni í fjarheilbrigðisþjónustu sem hefur gefist afar vel og enn öflugri þjónustu á „Mínum síðum“ en aukning á notendum heldur áfram að vaxa hratt, var 25% árið 2019 og 30% árið 2020.

Árið 2020 voru greiddir um 165 milljarðar króna til um 70.000 einstaklinga í mánaðarlegum greiðslum. Greiðsla inn á erlenda reikninga jókst talsvert á árinu eða um 22%.

Uppgjör fyrir árið 2020 liggur fyrir – inneignir voru greiddar út 1. júní
Uppgjör fyrir árið lá fyrir í lok maí og voru inneignir greiddar út 1. júní sl. þann dag var töluvert álag á tölvu- og símkerfi okkar, eins og gera má ráð fyrir þegar margir vilja kanna stöðu sína. Um 70.000 einstaklingar fengu greitt á innan við sólarhring og rúmlega helmingur þeirra fékk tvær greiðslur. Keyrslum lauk uppúr hádegi þannig að allir fengu greitt fyrsta dag júnímánaðar eins og reglur segja til um.

Nýjungar í rafrænni þjónustu
Ein af þeim nýjungum sem litið hafa dagsins ljós nýlega er að viðskiptavinir geta nú fylgst með ferli umsókna, allt frá því að hún berst til TR þar til að umsóknin  er afgreidd. Í þessu ferli er auðvelt fyrir viðskiptavini að sjá hvaða gögn vantar til að geta klárað umsóknina. Allar umsóknir TR eru nú aðgengilegar á vefnum og á ensku.