fbpx

Fundargerð 283. fundar stjórnar LEB

haldinn 13. október 2015 kl. 10:00 – 16:00 að Sigtúni 42

Mættir: Haukur Ingibergsson (HI), Sigríður J. Guðmundsdóttir (SJG), Ástbjörn Egilsson (ÁE), Elísabet Valgeirsdóttir (EV), Guðrún María Harðardóttir (GMH), Sigurður Jónsson (SJ), Anna Sigrún Mikaelsdóttir (ASM), Baldur Þór Baldvinsson (BÞB)

HI setti fund kl 10:00 og bauð stjórnarmenn velkomna.

  1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 282

Fundargerð 282. stjórnarfundar, sem haldinn var 27. ágúst 2015, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.

  1. Umsögn um frumvarp til laga um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, 145. löggjafarþing 2015–2016, þingskjal 3, 3. mál.

HI lagði fram svohljóðandi umsögn LEB um frumvarp til laga um framangreint mál sem sent var milli stjórnarmanna LEB í tölvupósti til samþykktar áður en það var sent Alþingi:

„Þegar landsfundur Landssambands eldri borgara var haldinn 5.-6. maí 2015, var komin fram krafa í kjarasamningum á vinnumarkaði um hækkun lægstu launa í 300 þúsund króna á mánuði. Nokkrum vikum síðan náðist samkomulag um kjarasamninga sem fólu í sér að 300 þúsund króna markmiðinu væri náð árið 2018.  Landsfundurinn tók undir þá kröfu sem fram var komin og krafðist þess að lífeyrir almannatrygginga tæki að lágmarki sömu hækkunum og lægstu laun sem samið væri um í kjarasamningum.

Í frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar er lagt til að ellilífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna í samræmi við kjarasamninga og verði 300 þús. kr. árið 2018. Greiðslurnar fari stighækkandi til 2018 með hliðstæðum hætti og lægstu laun samkvæmt kjarasamningum.

Landssamband eldri borgara tekur undir það sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins að „í nýgerðum kjarasamningum hefur verið lagt til grundvallar að 300 þús. kr. séu hæfileg lágmarkslaun af því að það sé sú fjárhæð sem sé launafólki nauðsynleg til mannsæmandi framfærslu. Hið sama hlýtur að gilda um aldraða og öryrkja sem reiða sig á lífeyri almannatrygginga til að sjá sér farborða. Markmið þessa frumvarps er að þeim hópi verði jafnframt tryggðar lágmarkstekjur til mannsæmandi framfærslu.“

Landssamband eldri borgara væntir þess eindregið að Alþingi samþykki frumvarp þetta.“

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin samþykkti umsögnina.

  1. Umsögn Landssambands eldri borgara um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og lögum um málefni aldraðra. 145. löggjafarþing 2015–2016, þingskjal 35, 35. mál.

HI lagði fram svohljóðandi umsögn LEB um frumvarp til laga um framangreint mál sem sent var milli stjórnarmanna LEB í tölvupósti til samþykktar áður en það var sent Alþingi:

Markmið með frumvarpi þessu er að tryggja betur en nú er húsnæðisöryggi þeirra sem búa í einhverskonar búseturéttarsambandi og eru hvorki eigendur né leigjendur húsnæðis. Nokkur mál hafa komið upp á síðustu árum sem benda eindregið til að form og framkvæmd búseturéttarfyrirkomulags hér á landi sé ekki með ásættanlegum hætti hvað snertir m.a. löggjöf, eftirlit og rekstrarfyrirkomulag þannig að húsnæðisöryggi búseturéttarhafa sé tryggt.

Töluverður fjöldi aldraðra býr í þjónustuíbúðum sem reistar hafa verið af fasteignafélögum sem eru að stórum hluta í eigu sjóða sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og vel þekkt eru dæmi um að sparnaður einstaklinga hafi farið forgörðum þar sem eigur í formi íbúðarréttar, voru notaðar sem veðandlag við fjármögnun á ótengdri starfsemi þeirri sem búseturétturinn átti að ná til. Auk hins fjárhagslega taps hafa þær uppákomur sem orðið hafa skapað íbúðarréttarhöfum og fjölskyldum þeirra óöryggi og vanlíðan og valdið álitshnekki fyrir forsvarsmenn slík fyrirkomulags.
Landssamband eldri borgara telur að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu vel til þess fallnar að draga úr þeim ágöllum búseturéttarfyrirkomulagsins sem dæmin sanna að hafa verið til staðar og væntir þess eindregið að Alþingi samþykki frumvarp þetta.“

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin samþykkti umsögnina.

  1. Heimsóknir til aðildarfélaga

HI gerði grein fyrir að hann hafi 31. ágúst sótt fundi í félögum eldri borgara í Húnaþingi vestra og í Austur-Húnaþingi, sótt fundi 1. september í félögum eldri borgara í Skagafirði, á Siglufirði og á Ólafsfirði, sótt fundi 2. september hjá félögum eldri borgara á Akureyri og í Dalvíkurbyggð og 7. september sótt fundi hjá félögum eldri borgara á Djúpavogi og á Höfn. Anna Sigrún Mikaelsdóttur stjórnarmaður, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir fv. formaður og fulltrúi LEB í nefnd um endurskoðun almannatrygginga og Birna Bjarnadóttir alþjóðafulltrúi LEB sóttu einnig suma af þessum fundum.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

  1. Svar umboðsmanns Alþingis

HI rifjaði upp svohljóðandi bréf sem Landssamband eldri borgara sendi 3. mars 2015 til embættis umboðsmanns Alþingis með beiðni um skoðun á framkvæmd ýmissa laga sem varða málefni aldraðra.

„Stjórn Landssambands eldri borgara (LEB) þakkar fyrir þann fund sem stjórnin átti með Umboðsmanni Alþingis og starfsfólki hans þ. 24. feb. s.l. Í framhaldi af umræðum á fundinum  fer stjórnin  þess á leit við Embætti Umboðsmanns Alþingis að skoðaðir verði eftirfarandi þættir um framkvæmd laga:

  1. Er farið með greiðslur úr  Framkvæmdasjóði  aldraðra  samkvæmt lögum sem um hann gilda?  Stjórn LEB telur að samkvæmt lögum um Framkvæmdasjóðinn eigi  meginhluti hans að fara til byggingar og viðhalds á hjúkrunarheimilum. En með bráðabirgðaákvæði  sem sett er árlega í tengslum við fjárlög er því breytt og hluti tekinn til greiðslu reksturs hjúkrunarheimila.  Engar skýrar reglur virðast gilda um þá úthlutun. 
  2.    Í lögum um Almannatryggingar segir  í 69 gr. hvernig  farið skuli með verðlagshækkanir á bótum almannatrygginga. Þessu ákvæði er ekki framfylgt samkvæmt lögunum. Við óskum eftir því að skoðað  verði hvort þarna sé farið að lögum.
  3. Hjúkrunarheimilin í landinu eru flest rekin  með daggjöldum sem  ríkið greiðir samkvæmt fjárlögum. Eru til samningar milli ríkisins og heimilanna um skilgreiningu þeirrar  þjónustu sem láta skal í té á hjúkrunarheimilum.?“  

Hinn 5. október óskað LEB eftir upplýsingum frá embættinu um hvort sú skoðun sem um er fjallað í framangreindu bréfi væri hafin eða fyrirhuguð og hvenær niðurstaðna er að vænta. Embætti umboðsmanns svaraði bréfinu 8. október svohljóðandi:

„Á fundi með fulltrúum úr stjórn Landssambands eldri borgara (LEB)  24. febrúar sl. gerðum við m.a.  grein fyrir því að hugur minn hefði staðið til þess um nokkurn tíma að taka til athugunar í formi frumkvæðisathugunar ákveðin atriði vegna málefna eldri borgara. Bæði væri þarna um að ræða viss atriði sem áður hefðu komið til skoðunar hjá umboðsmanni t.d. í máli sem lokið var 10. júní 2008  þar sem teknar voru saman athuganir vegna  mála nr. 4552/2005 o. fl. og ný atriði sem komið hefðu upp í kvörtunum til umboðsmanns og almennri umfjöllun fjölmiðla um þessi mál. Staðan hjá umboðsmanni hefði hins vegar verið sú frá og með árinu 2011 að aðeins hefði verið unnt að sinna frumkvæðisathugunum í mjög litlu mæli og svo væri komið að við treystum okkur varla til að hefja slík mál meðan við eygðum ekki möguleika á því að ljúka þeim innan eðlilegst tíma. Ekki hefði verið orðið við ítrekuðum beiðnum um fjárveitingu til geta sinnt þessu verkefni. Meðan svo væri legðum við áherslu á að afgreiða þær kvartanir sem bærust. Því væri mikilvægt að Landssamband eldri borgara og félagsmenn þess legðu þau mál sem þeir óskuðu eftir að umboðsmaður skoðaði í farveg kvartana og við fórum líka yfir helstu skilyrði sem þá þurfa að vera uppfyllt.

Þegar mér barst bréf LEB frá 3. mars sl. kom mér á óvart að þar voru einmitt nefnd mál sem við höfðum rætt á fundinum og ég hafði bæði útskýrt að viss atriði þeirra gætum við ekki skoðað þar sem um væri að ræða efni lagareglna sem Alþingi hefði samþykkt.  Ef LEB væri ósátt við lögin þyrfti að beina  slíkum erindum til ráðherra og þingmanna. Og að ef einstakir félagsmenn teldu að brotið hefði verið á þeim vegna þessara mála væri mikilvægt að koma fram með slík mál sem kvartanir annað hvort frá LEB fyrir hönd félagsmanns eða frá einstaklingi.  Í slíkri kvörtun þyrfti þá að lýsa þeim ákvörðunum sem stjórnvöld hefðu tekið í máli viðkomandi einstaklings og láta fylgja gögn þar um. Við minntum líka á að áður en umboðsmaður getur tekið kvörtun til meðferðar þarf að vera búið að tæma kæruleiðir innan stjórnsýslunnar.

Ég ítreka að það kom mér á óvart að fá þetta erindi frá LEB í þessum búningi. Þegar það barst mér hafði ég enn einu sinni ítrekað við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2016 beiðni mína um að fá fjárveitingu til að sinna frumkvæðismálunum. Ég taldi því rétt að bíða aðeins og sjá hvort hagur embættisins vænkaðist eitthvað að þessu leyti á næstunni og við gætum þá m.a. skoðað þá þætti í málefnum aldraðra sem ég hafði staðnæmst við.  Þar sem ég hafði áður útskýrt fyrir fulltrúum LEB afstöðu mína til þess í hvaða mæli umboðsmaður gæti tekið þau mál sem um var fjallað í bréfinu til skoðunar ákvað ég að bíða um sinn  með svar og sjá hver yrðu afdrif beiðni um fjárveitingu til frumkvæðisathugana á næstu fjárlögum. Ef fjárveitingin færi inn þá gæti ég að minnsta kosti gert LEB grein fyrir áformum mínum um frumkvæðisathugun sem tengdist málefnum félagsmanna þess þótt það yrði ekki  nema að hluta til um atriði sem tengdust þeim málum sem um er fjallað í bréfi frá 3. mars sl. Nú liggur það hins vegar fyrir að þessi tillaga fór ekki inn í fjárlagafrumvarpið. Ég hef enn ítrekað að það sé ákvörðun Alþingis hvort það veitir sérstöku fé til þess að sinna þessu verkefni, sbr. þann fund sem ég átti með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis 22. september sl., sjá http://www.althingi.is/altext/upptokur/nefndafundur/?faerslunr=37.

Staðan er því sú að ég bíð enn til sjá hvaða möguleika umboðsmaður hefur til að sinna frumkvæðismálum á næsta ári og meðan svo er hef ég beðið með að svara erindum áþekkum þeim og ég fékk frá LEB 3. mars sl. Vissulega hefði verið heppilegra að senda LEB formlegt svar við bréfinu og það mun ég gera á næstunni óháð því hver niðurstaðan verður við afgreiðslu fjárlaga. Satt best að segja hafa verið miklar annir hjá embætti umboðsmanns að undanförnu og því hafa svör við erindum sem ekki eru formlegar kvartanir þurft að bíða.

Vona að þetta skýri málið og bendi LEB enn á þann möguleika að leggja þau mál sem það óskar eftir að umboðsmaður tali til skoðunar í farveg kvartana og þess verði gætt að formskilyrði til þess að umboðsmaður geti fjallað um málið séu uppfyllt. Við höfðum líka haft orð um að embættið eða starfsmaður þess léti ykkur í té grein eða upplýsingar um möguleika á því að leita til umboðsmanns sem þið gætuð þá birt. Við höfum ekki heyrt frekar frá ykkur um þetta. Er enn áhugi á að fá slíkt efni til birtingar, í hvaða formi og hvað mætti það vera langt? Láttu endilega heyra frá þér ef það eitthvað sem ég get skýrt betur eða aðstoðað með. 

Bestu kveðjur,

Tryggvi Gunnarsson,

umboðsmaður Alþingis“

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin íhugar næstu skref LEB í þessum efnum.

  1. Fjárhæð greiðslna Almannatrygginga til eldri borgara

Almennar umræður urðu um stöðuna í kjaramálum aldraðra hvað fjárhæð greiðslna til eldri borgara frá almannatryggingum varðar. Krafa LEB er að fjárhæðir séu hliðstæðar lægstu launum eins og um samdist í kjarasamningum í maí sl. og næðu 300 þús. kr. á mánuði árið 2018. HI greindi frá óformlegum viðræðum við aðstoðarmenn félags- og húsnæðismálaráðherra og fjármálaráðherra. Þær viðræður hafi einkum verið fólgnar í því að fara yfir útreikninga og viðmiðanir varðandi hækkun greiðslna. Frá LEB taka þrír menn þátt í þessum viðræðum og auk HI eru í viðræðunefndinni, Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri FEB Reykjavík og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir fv. formaður LEB. Ástbjörn Egilsson gjaldkeri LEB og formaður FEB Garðabæ er varamaður Jónu Valgerðar þar sem hún á ekki alltaf heimangengt af búi sínu á Vestfjörðum.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin ítrekar mikilvægi þess að fjárhæðir greiðslna Almannatrygginga verði samstiga hækkunum sem samið hefur verið um í kjarasamningum

  1. Ályktanir landsfundar og framkvæmd þeirra

Farið var yfir ályktanir landsfundar LEB 5-6 maí. Alls er um að ræða 35 verkefni sem unnið er að. Farið var yfir stöðu hvers verkefnis og lagt á um ráðin með næstu skref,

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin.

  1. Formlegt samstarf eldri borgara og sveitarfélaga – Öldungaráð

HI opnaði umræðu og greindi frá að víða væri töluverður áhugi væri á að koma á formlegu samstarfi sveitarfélaga og félaga eldri borgara með stofnun Öldungaráða og t.d. hefðu all margir forustumenn sveitarfélaga sótt fundi í aðildarfélögunum sbr. 4 dagskrárlið fundarins. Mikilvægt væri að virkja þennan áhuga.

 

Afgreiðsla stjórnar: Formanni var falið að ræða málið við formann Sambands íslenskra sveitarfélaga um næstu skref. Einnig var fomanni heimilað að fá lögmann til að kanna löggjöf á norðurlöndum um þessi efni.  

  1. Heimasíða LEB

ÁE, formaður heimasíðunefndar, kynnti tillögu nefndarinnar að nýrri heimasíðu LEB og sýndi uppsetningu hennar og virkni.

Afgreiðsla stjórnar: Framkomum hugmyndum er fagnað og mikilvægt að koma hinni nýju heimasíðu í notkun.

  1. Listin að lifa

SJ gerði grein fyrir að haustblað „Listin að lifa“ væri í undirbúningi, nóg væri af áhugaverðu og fjölbreyttu efni og áætlað væri að blaðið færi í dreifingu í byrjun nóvember. Jafnframt kom fram að Landsbókasfnið væri tilbúið að koma öllum tölublöðum frá upphafi í rafrænt form og setja á vefinn timarit.is, þar sem flest íslensk tímarit er að finna.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar. Jafnframt telur stjórnin að kanna þurfi hvort mögulegt sé að skapa fjárhagslegan grundvöll fyrir útgáfu fleiri tölublaða á ári og að mikilvægt sé að öll tölublöð Listin að lifa frá upphafi séu aðgengileg á timarit.is.

  1. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra

HI sagði frá starfi nefndarinnar og að nefndin teldi mikilvægt að auka fræðslu og þekkingu á öldrun og öldrunarmálum m.a. með því að til væri vefur með margvíslegu efni um öldrun. Í Noregi ræki landssamband eldri borgara slíka síðu með fjárhagslegum stuðningi stjórnvalda.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin hvetur til að slíkri vefsíðu sé komið á fót og að eðlilegt sé að LEB komi að rekstri hennar með ýmsum hætti.

  1. Nefnd um félagsþjónustu sveitarfélaga

HI sagði frá starfi nefndar sem er að endurskoða löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga og að starfi nefndarinnar miðaði í rétta átt.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar

  1. Endurskoðun laga um almannatryggingar

Hi sagði að enn væri eftir að reka endahnútinn á starf nefndar um endurskoðun á ögum um almannatryggingar.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin telur mikilvægt að nefndin skili af sér þannig að vinna að lagabreytingum geti hafist.

  1. Ráðstefnur um öldrunarmál

Í samstarfi við Öldrunarráð Íslands eru á þessu ári í undirbúningi ráðstefna um ofbeldi gegn öldruðum haldin á höfuðborgarsvæðinu og ráðstefna um farsæla öldrun haldin á Selfossi.

 

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin fagnar þessu framtaki og samþykkir að LEB taki taki þátt í kostnaði á sambærilegan hátt og í fyrri ráðstefnum Öldrunarráðs..

  1. Tillaga sem landsfundur vísaði til stjórnar

Landsfundur LEB 5-6 maí 2015 vísaði eftirgreindri tillögu Halldórs Gunnarssonar til stjórnar LEB.

„Landsfundurinn krefst þess:

  1. a) að lífeyrissjóðskerfi landsmanna verði endurskoðað til einföldunar og jafnræðis, sem jafnframt geti tryggt eignarétt handhafa þeirra, sem greitt hafa.
  2. b) að lokið verði endurskoðun laga um almannatryggingar á þessu ári, sem tryggi lífsrétt og sjálfstæði einstaklinga.
  3. c) að keyptur búseturéttur eldri borgara sé virtur skilyrðislaust og hann njóti jafnræðis í húsnæðisbótakerfi landsmanna.
  4. d) að hækkaður verði persónuafsláttur, þannig að lágmarkstekjur til framfærslu verði ekki skattlagðar.
  5. e) að hækkanir undanfarinna tveggja ára á þjónustugjöldum aldraðra og sjúkragjöldum verði endurskoðaðar og að niðurgreiðslur vegna hjálpartækja og tannviðgerða verði hækkaðar til samræmis við það sem áður var.

 

Afgreiðsla stjórnar:  Áþekk atriði þeim sem nefnd eru í tillögu Halldórs Gunnarssonar koma fram í öðrum tillögum landsfundarins. Má þar á meðal benda á eftirfarandi:

Varðandi staflið a):  Í ályktun landsfundarins um kjaramál segir:  “…dregið sé úr óhóflegum tekjutengingum milli almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóða.“

Varðandi staflið b): Í ályktun landsfundarins um kjaramál segir:  “Landsfundur Landssambands eldri borgara haldinn 5.-6. maí 2015 skorar á stjórnvöld að ljúka endurskoðun laga um almannatryggingar.“

Varðandi staflið c):  Í ályktun landsfundarins um félags- og velferðarmál segir: “fjárhagsleg staða leigjenda, búseturéttarhafa og eigenda íbúða sé jöfnuð“

Varðandi staflið d):  Í ályktun landsfundarins um kjaramál segir: “Enn og aftur skal bent á að hækkun persónuafsláttar væri besta kjarabót láglaunafólks og þar með eftirlaunafólks.“

Varðandi staflið e):  Í ályktun landsfundarins um heilbrigðismál segir:  “Lækka þarf komugjöld til lækna sem hafa hækkað verulega undanfarin ár.“ Og einnig  “Landsfundurinn leggur til að eftirtalin hjálpartæki og heilbrigðisþjónusta verði niðurgreidd í forvarnarskyni, svo sem: Heyrnartæki, neyðarhnappur, gleraugu, ýmis konar farartæki og tannlækningar.“

 

Með vísan í ofangreint telur stjórn LEB að megin efnisatriði tillögu Halldórs Gunnarssonar sé að finna í samþykktum landsfundarins um kjaramál, heilbrigðismál og félags- og velferðarmál sem unnið er að framkvæmd á.

  1. Önnur mál

Engin önnur mál komu fram.

Næsti fundur verður haldinn að Sigtúni 42 þriðjudaginn 8. desember kl. 10:00