fbpx

haldinn 7. október 2014 kl. 13:00 – 16:30  að Sigtúni 42

Mættir: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (JVK), Haukur Ingibergsson (HI), Eyjólfur Eysteinsson (EE), Anna Lúthersdóttir (AL) auk Jóns Kr. Óskarssonar (JKO) 1. varamanns í veikindaforföllum Ragnheiðar Stephensen.

JVK bauð fundarmenn velkomna og setti fund.

 

1. Fundargerð stjórnarfundar nr. 274

Fundargerð 274. stjórnarfundar, sem haldinn var 12. ágúst 2014, hefur verið samþykkt í samræmi við reglur um ritun, samþykkt og birtingu fundargerða funda stjórnar Landssambands eldri borgara.

 

2. Vinna formanns og stjórnar

JVK lagði fram yfirlit um vinnu formanns og stjórnar 12. ágúst til 7. október 2014:

12.ágúst           Stjórnarfundur LEB í Reykhólasveit.

18.okt.             Fundur í starfshópi um velferðartækni í félagsþjónustu.  JVK  með á símafundi.

20.ágúst           Undirhópur í alm.tr, JVK með á símafundi.

22.ágúst          Undirhópur alm.tr.  JVK mætir.

Fundur í Framkvæmdasjóði aldraðra. JVK mætir í veikindaforföllum EE.

26.ágúst          Fundur í endurskoðunarnefnd um félagsþjónustu. HI mætir.

Fundur í undirnefnd alm.tr.,  hópur 1.  JVK mætir.

Undirnefnd almtr, hópur 3, JVK boðar þann fund.

25.ágúst          Undirbúningur fundar með heilbrigðisráðherra. JVK, HI.

27.ágúst          Fundur boðaður með heilbrigðisráðherra, en var frestað.

Málþing Samb.ísl.sveitarfélaga á Grand hóteli um Söfnun og úrvinnsla gagna um þjónustu við fatlaða. JVK og JVK mæta.

28.ágúst          Undirnefnd almtr. hópur 1. JVK mætir.

Undirnefnd almtr. Hópur 3, JVK boðar þann fund.

Fundur JVK og HI með Pétri Valdimarssyni um lífeyrismál þeirra sem hafa búið erlendis.

1.sept.             Undirnefnd alm.tr. hópur 1. HI mætir í fjarveru JVK.

4.sept.             Fundur með  Kristjáni Þór heilbrigðisráðherra um hjúkrunarheimili o.fl.  Sjá greinargerð.  JVK, HI, AL, ÞSv. mæta.

JVK mætir um kvöldið á Sagnakvöld hjá FEB- Reykjanesbæ.

6.sept.             Undirbúningur fundar með Eygló Harðard.  JVK og HI.

9.sept.             Fundur með Eygló Harðard. félags-og húsnæðismálaráðherra.  Farið yfir fjárlagafrumvarp og áherslur LEB.  Sjá greinargerð.

10.sept.           Fundur í ritnefnd Listarinnar að lifa.  JVK, HI, BS, GSH, ÞK, og fulltrúar Sökkólfs sem gefa blaðið út.  Blaðið komi út í lok okt.

JVK í viðtali við Lifdununa.is um fjárlagafrumvarpið.

JVK í viðtali við MBL.is um sama mál.

11.sept.           JVK í viðtali á Bylgjunni, í morgunþátturinn Í bítið ásamt Ellen Calmon formanni ÖBÍ um fjárlagafrumvarpið.

12.sept.           Alm.tr.nefnd (stóra nefndin)  JVK mætir.  Undirhópar skila greinargerðum.  JVK með undirhóp 3 um sveigjanleg starfslok.

15.sept.           Stjórnarfundur hjá FEBDOR í Búðardal. JVK mætir

16.sept.           JVK vinnur við skýrslu til NSK á dönsku,  og spurningalista  um lífeyrismál til NSK vegna fundar 13.okt.  BB þýðir svör við  spurningalista  yfir á sænsku  og dönsku.

18.sept.           JVK sendir grein í Fréttablaðið um fjárlagafrumvarpið.

Fundur velferðarráðuneytis um norrænan styrk til nýsköpunarverkefna sem nota mætti  til verkefna í velferðartækni.  Birna Bjarnadóttir mætir fyrir LEB og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

19.sept.           Fundur með Sambandi sveitarfélaga og LEB.  JVK, HI, EE, AL mæta.  Farið yfir sameiginleg mál,  heimaþjónustu, öldungaráð,  aðstöðu FEB-félaga til félagsstarfa  o.fl.

Ráðstefna um viðunandi framfærslu. EMIN-verkefnið í Evrópu. Til eru samtök á Íslandi, Vilborg Oddsdótir var fundarstjóri.  Fram kom  afar misunandi upphæðir á framfærslustyrk sveitarfélaga. JVK mætir.

21.sept.           Málstofa á alzheimerdeginum hjá FAAS samtökunum.  BB mætir, en minnistap er eitt  aðalefni á málstofu á NSK- fundi 13. okt. sem JVK og BB munu sækja í Finnlandi.

23-24.sept.     Stefnumótunarfundur Öldrunarráðs Íslands haldinn í Hraunsnefi, Borgarfirði.  JVK mætir. Umræður um: Mönnun í þjónustustofnunum, ofbeldi  við starfsfólk og heimilisfólk, fjölgun aldraðra alkóhólista, sveigjanleg starfslok, uppsögn eldri starfsmanna, upplýsingamiðstöð um allt sem tengist aðstöðu og réttindum aldraðra, umboðsmann aldraðra. Ákveðið að stefna að ráðstefnu um atvinnumál eldra fólks og starfslok seinni hluta nóvember.  Fá VEL með og aðila vinnumarkaðarins. Veita viðurkenningar úr Ransóknarsjóði og skoða að veita viðurkenningu fyrirtækjum sem  vinna vel að starfslokamálum. Framtíðarþing um farsæla öldrun á Akureyri eftir áramót.

25.sept.           Fundur í Kjaranefnd LEB.  ÞSv. og nefndarmenn mæta.  Ályktun gerð sem send er fjölmiðlum og formönnum félaga eldri borgara.

26.sept.           Fundur starfshóps um endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og málefni fatlaðra HI mætir.

29-30.sept.     Vinnufundur í tvo daga um lífeyrismál.  Stóra nefnd um alm.tr.  JVK mætir.

29.sept.           Fundur hjá FEB Garðabæ  um áherslumál LEB.  JVK og HI mæta.

30.sept.           Fundur í Velferðarnefnd LEB.  Anna Lúthers og nefndarmenn mæta.

1.okt.              Viðtal á Bylgjunni við JVK um öldrunarmál, kjaramál, heilbrigðisþjónustu.

3.okt               Ráðstefna VEL um nýja hugsun og þróun í heimaþjónustu. JVK, HI og AL mæta.

Vinnufundur starfshóps um endurskoðun laga um félagsþjónustu ofl. HI mætir.

7.okt               Fundur í Velferðarnefnd LEB. AL, JVK og nefndarmenn mæta.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

3. Ályktun kjaramálanefndar LEB

JVK gerði grein fyrir eftirfaramdi ályktun sem kjaramálanefnd LEB samþykkti á fundi sínum 25. september og send var fjölmiðlum og formönnum aðildarfélaga LEB:

 

Ályktun Kjaramálanefndar Landssambands eldri borgara 25. september 2014

Kjaramálanefnd LEB hefur fjallað um frumvarp til fjárlaga 2015 og áhrif þeirra á stöðu eldri borgara.

Fyrst ber að nefna aðför að matarverði sem þar er lögð til. Það er algjör bjartsýni að mótvægisaðgerðir muni skila sér. Fyrir því er margra áratuga reynsla sem gleymist ekki. Því hafnar kjaranefnd LEB allri umræðu um að hækka matarskattinn úr 7% í 12% og síðar 14% eins og einn ráðherrann tilkynnti í eldhúsdagsumræðum.

Aðrar hækkanir sem boðaðar hafa verið eru hækkanir á lyfjum og því greiðsluþaki sem þar er. Því er alfarið hafnað ekki síst þar sem við berum hæsta virðisaukaskatt á lyf sem finnst í samanburðarlöndum. Víða er enginn virðisaukaskattur á lyf eða þá mjög lágur.

Í frumvarpinu er ekki að finna neinar úrbætur fyrir fólk sem er eingöngu á bótum almannatrygginga en þar hefur orðið gliðnun árum saman og nú á þessu ári um nokkur prósent. Áformuð hækkun bóta um næstu áramót nær ekki að vinna á þessari þróun þannig að fólk sem er á lægstu bótunum er almennt illa statt fjárhagslega.

Langvarandi umræða um Landspítalann og hvort eigi að byggja eða fresta er orðin gatslitin. Umræðan um að aldraðir teppi svo og svo mörg rúm eða fylli ganga er ómakleg þar sem hvert þjóðfélag er upplýst um að öldruðum fjölgar og lífaldur lengist og því fylgja innlagnir á sjúkrahús. Umræðan sem líka fjallar um sífellt neyðarástand hefur slæm heilsufarsleg áhrif á eldri borgara og er mál að linni. Kostnaður við að gera út hverja nefndina á fætur annarri og breytingar á teikningum og deiliskipulagi kostar orðið tugi milljóna. Þeim peningum hefði verið betur varið í alvöru þarfagreiningu í upphafi. Því skorum við á stjórnvöld að vinna hratt að uppbyggingu nýs sjúkrahúss.

Eldra fólk vill búa við öryggi. Í okkar velferðarsamfélagi hefur öryggi fólks verið skert.

 

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

4. Fundur LEB með heilbrigðisráðherra 4. september 2014

JVK sagði frá fundi sínum, HI og ÞSv. með Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra 4. september og lagði fram eftirfarandi minnispunkta um það sem fram fór á fundinum.

 

Minnispunktar frá fundi fulltrúa Landssambands eldri borgara 4. september 2014 með heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni

Fundinn sátu frá Velferðarráðuneytinu: Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Bryndís Þorvaldsdóttir skrifstofu heilbrigðisþjónustu og Margrét Björk Svavarsdóttir skrifstofu hagmála og fjárlaga. Frá Landssambandi eldri borgara: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Haukur Ingibergsson, Anna Lúthersdóttir og Þórunn Sveinbjörnsdóttir.

 

Hjúkrunarheimili

Í máli ráðherra kom m.a. fram að hjúkrunarrými á landinu eru 2.300-2.500 og til málaflokksins fara 23 milljarðar. Ráðuneytið hefur breytt reglum um stærðir herbergja á hjúkrunarheimilum í það að vera 28 fermetrar en var áður 35 fermetrar og er gert ráð fyrir að sú kostnaðarlækkun sem breytingin leiðir af sér verði notuð til að hraða fjölgun hjúkrunarrýma. Síðasta fjölgað hjúkrunarrýmum á Egilsstöðum, í Garðabæ, og Mosfellsbæ. Verst settu staðir nú eru Húsavík, Selfoss og Reykjavík. Fram kom að sum sveitarfélög hafi ekki tekið afstöðu til uppbyggingar hjúkrunarrýma svo sem Hafnarfjörður og Kópavogur og að kannski hafi sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu treyst um of á frumkvæði Grundar og Hrafnistu. Hafin er vinna í ráðuneytinu við að gera áætlun um uppbyggingu öldrunarþjónustu til lengri tíma sem taki til allra aðila sem þessari þjónustu sinna og er Ríkisendurskoðun að vinna að gerð skýrslu um stöðu hjúkrunarheimila og fara yfir rekstrarforsendur. Er það í samræmi við þingsályktun sem Unnur Brá ætlar að leggja fram  á haustþingi.

Fram kom áhugi ráðherra á að breyta fyrirkomulagi sem er á greiðslufyrirkomulagi heimilismanna á hjúkurnar- og dvalarheimilum, þar sem fólk er í raun svipt fjárræði og drap hann á nokkra valkosti í því samhengi og það flækjustig sem við væri að etja m.a. vegna hugmynda um flutning málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga sem ekki mætti leiða til þess að þjónustu við aldraða minnkaði og drægi úr fagmennsku. Hann sagði að unnið væri að þeim breytingum,  þó hægt hefði á vinnu við flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga.

Heimaþjónusta

Fram kom vilji ráðherra til að efla notkun velferðartækni og fagnaði hann áhuga og þátttöku LEB í þróun þeirrar hugmyndar varðandi aukna notkun velferðartækni í samræmi við áherslur sem koma fram í lokaskýrslu nefndar Velferðarráðuneytisins um það mál.  En LEB hefur átt aðild að þeirri vinnu.. Fjárveitingar og gjaldskrár takmörkuðu hins vegar framkvæmdir á þessu sviði. Ráðherra nefndi sem dæmi sparnað eldri borgara er komugjöld til sérfræðilækna voru felld niður með samningi þeirra við stjórnvöld og væri það e.t.v. dæmi um þegar heilbrigðiskerfið væri virkjað til félagslegra aðgerða sem ekki ætti endilega að fjármagna með fjármunum heilbrigðiskerfisins.  Fram kom að ráðherra taldi að tannlæknaþjónusta og kostnaður við hana væri einn þeirra þátta heilbrigðisþjónustunnar sem þyrfti að endurbæta og e.t.v. væri auðveldara að breyta þeim þætti en mörgu öðru í heilbrigðismálunum. Upphæð endurgreiðslu vegna tannlæknaþjónustu hefur ekki breyst frá 2006 og svipaða sögu má segja um bæði heyrnartæki og gleraugu.

Lyfjamál

Ráðherra var ekki vongóður um að takast mundi að fella virðisaukaskatt niður af lyfjum þótt í því fælist mikil hagsbót fyrir kaupendur lyfja og ekki síst sjúkrahúsin. JVK afhenti ráðherra afrit af blaðagrein eftir Jakob Fal Garðarsson um það mál,  þar sem fram kemur að víða erlendis er ýmist lægri eða enginn vsk á lyfjum.  Fulltrúar LEB minntu á að nú stæði yfir endurskoðun á vsk-kerfinu í fjármálaráðuneytinu og þetta þyrfti að endurskoða.

 

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

5. Fundur LEB með félags- og húsnæðismálaráðherra 9. september 2014

JVK sagði frá fundi sínum, HI, EE og ÞSv. með Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra 9 september og lagði fram eftirfarandi minnisblað um það sem fram fór á fundinum.

 

Minnispunktar frá fundi fulltrúa Landssambands eldri borgara með félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, 9. september 2014

Fundinn sátu frá Velferðarráðuneytinu: Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Matthías Imsland aðstoðarmaður ráðherra, Bolli Þór Bollason skrifstofustjóri skrifstofu félagsþjónustu, Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir skrifstofustjóri skrifstofu lífskjara og vinnumarkaðar, Ingibjörg Broddadóttir skrifstofu félagsþjónustu og Sturlaugur Tómasson skrifstofu hagmála og fjárlaga. Frá Landssambandi eldri borgara: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður, Haukur Ingibergsson varaformaður, Eyjólfur Eysteinsson gjaldkeri og Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður kjaranefndar. Á fundinum lagði formaður landssambandsins fram blað með nokkrum umræðuefnum.

Í upphafi fundarins þakkaði formaður landssambandsins ráðherra fyrir að tvöfalda á árunum 2014 og 2015 fjárframlag ráðuneytisins til framkvæmdar samnings ráðuneytisins og landssambandsins og að vonast væri til að sú aukning héldist árin þar á eftir. Fór formaður því næst yfir neðangreind atriði sem mikilvæg væru fyrir eldri borgara.

 

Heimaþjónusta

Landssamband eldri borgara vill stuðla að því að fólk geti búið á eigin heimili sem lengst og það er opinber stefna stjórnvalda. Til þess þarf að auka heimaþjónustu og heimahjúkrun, samþætta þjónustuna og að eldri borgarar eigi kost á notendastýrðri persónulegri aðstoð. Vinna þurfi sem fyrst samkvæmt tillögum skýrslu sem nefnd um það mál er að ganga frá og tók ráðherra undir það.

 

Húsnæðismál

Landssambandið leggur áherslu á að við endurskoðun stefnu í húsnæðismálum verði skotið sterkari stoðum undir félagslegar lausnir í húsnæðismálum og að réttarstaða og húsnæðisbætur eigenda, leigjenda og búseturéttarhafa verði treyst og samræmd. Ráðherra greindi frá að unnið væri að gerð frumvarpa um endurskoðun húsnæðisstefnunnar þar á meðal um að allar greiðslur til húsnæðisbóta, sem nú næmu 18 – 20 milljörðum, yrðu í einu húsnæðisbótakerfi, þar á meðal húsnæðisstuðningur sem nú er í almannatryggingakerfinu.

Kjaramál

Landssambandið minnir á  að lífeyrir  almannatrygginga á yfirstandandi ári hefur ekki hækkað til  samræmis við kjarasamninga sem gerðir hafa verið og óskar eftir leiðréttingu fjárhæða almannatrygginga sem sé í samræmi við meðaltalshækkun launa. Þá vill landssambandið benda á að niðurgreiðsla vegna tannviðgerða aldraðra, gleraugna, heyrnartækja og ýmisra hjálpartækja hefur ekki hækkað í krónutölu árum saman auk þess sem það væri mikil kjarabót fyrir eldri borgara að fá virðisaukaskatt á lyf lækkaðan eða felldan niður.

 

Almannatryggingar

Vegna starfs nefndar um endurskoðun almannatrygginga leggur landssambandið áherslu á viðleitni sína við að ná sameiginlegri niðurstöðu um breytingar til að einfalda kerfið en tekur skýrt fram að eldri borgarar eru ekki tilbúnir til að afsala sér neinum þeim réttindum sem þeir hafa fengið til baka vegna skerðinga fyrri ára. Allar breytingar á almannatryggingum þurfa því að taka mið af stöðunni eins og hún er. Ráðherra bindur vonir við að nefndin ljúki störfum á þessu ári.

 

Atvinnumál

Landssambandið minnti á umræðu um að fólk sem komið er yfir 50 ára eigi erfitt með að fá og að þegar fækka þurfi fólki í fyrirtækjum þá sé byrjað á að segja upp eldra starfsfólkinu, sérstaklega konum. Nú sé talað um lengingu starfsaldurs vegna fjölgunar eldri borgara og vekja þurfi athygli á því hve verðmætir starfskraftar hverfa með eldra fólkinu. Landssambandið óskar eftir aðkomu Velferðarráðuneytis að málþingi um það mál  til að vekja  athygli á og reyna að sporna við slíku. Ráðherra sagði þetta mikilvægt viðfangsefni fyrir ráðuneyti sitt og áformað væri að skipa starfshóp um atvinnuþáttöku fólks yfir fimmtugt.

 

Frumvarp til fjárlaga 2015

Ráðherra gerði grein fyrir því að hann vildi kynna kynna fulltrúum landssambandsins helstu atriði sem fram kæmu í frumvarpi til fjárlaga 2015 og óskaði eftir að trúnaður ríkti um þær upplýsingar til kl. 16:00 er frumvarpið yrði gert opinbert. Ráðherra sagði að gerð væri krafa um að ráðuneytin hagræði í rekstri sínum um 1.3%. Þrátt fyrir að 93% útgjalda ráðuneytisins færu til greiðslu bóta og tilfærslna þá sé ekki skerðing á bótum almannatrygginga auk þess sem gert sé ráð fyrir fyrirsjánlegri fjölgun bótaþega. Einnig sé gert ráð fyrir að þriðji áfangi í samkomulagi lífeyrsisjóða og ríkisins komi til framkvæmda 1. janúar. Áformuð hækkun bóta almannatrygginga frá 1. janúar 2015 sé 3,5%. Um þróun almannatrygginga og ýmsar upplýsingar þeim tengdar benti ráðherra á svör ráðuneytisins við tvennum fyrirspurnum alþingismannanna Helga Hrafns Gunnarssonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um málefni almannatrygginga.

 

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

 

6. Fundur með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga 19. September 2014

JVK sagði frá fundi sínum, HI, EE og AL með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga 19. september og lagði fram eftirfarandi minnisblað um það sem fram fór á fundinum.

 

Minnispunktar frá fundi fulltrúa Landssambands eldri borgara með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga 19. september 2014

Fundur fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssamtaka eldri borgara var haldinn í Borgartúni 30 föstudaginn 19. september 2014 kl. 9. Af hálfu sambandsins sátu fundinn Karl Björnsson framkvæmdastjóri, Tryggvi Þórhallsson lögfræðingur og Guðjón Bragason sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs, sem ritaði fundargerð. Af hálfu LEB sátu fundinn Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður, Haukur Ingibergsson, varaformaður og framkvæmdastjóri samtakanna. Eyjólfur Eysteinsson gjaldkeri og Anna Lúthersdóttir ritari. Fulltrúar LEB lögðu fram lista um fimm mál sem þeir óskuðu eftir að ræða á fundinum, auk þess sem rætt var almennt um þróun í málefnum aldraðs fólks og ýmis sameiginleg hagsmunamál samtakanna tveggja.

 

1.     Stofnaður verði formlegur samráðsvettvangur Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara

Landssamband eldri borgara fer fram á að stofnaður verði formlegur samstarfsvettvangur Sambands íslenskra sveitarfélaga og landssambandsins t.d. með því að hvor aðili um sig skipi 2-3 fulltrúa í fasta samráðsnefnd. Samráðsnefndin fjalli um málefni sem sveitarstjórnarstigið annast í öldrunarmálum, þróun málaflokksins, þjónustu við aldraða og önnur hagsmunamál aðila á þessu sviði. Stofnun samráðsnefndar er sambærileg við ákvæði í samningi Velferðarráðuneytis og Landssambands eldri borgara frá 26. febrúar 2013 um að styrkja landssambandið til að sinna hlutverki sínu sem heildarsamtök aldraðra á Íslandi, vinna að hagsmunamálum aldraðra og koma fram fyrir hönd aðildarfélaganna gagnvart stjórnvöldum.

Almennt lýstu fulltrúar sambandsins áhuga á að auka samstarf við LEB en ákvörðun um form þess samstarfs þurfi að koma til umfjöllunar í stjórn sambandsins áður en ákvörðun verður tekin um hvort tilefni sé til þess að gera samkomulag um formlegt samráð eða finna aðrar leiðir til aukinnar samvinnu og samráðs.

 

2.     Formlegt samstarf sveitarfélags og félags eldri borgara

Landssamband eldri borgara leggur áherslu á að komið verði á formlegu samstarfi hvers sveitarfélags og félags eða félaga eldri borgara innan sveitarfélagsins með starfrækslu Öldungaráðs að norrænni fyrirmynd. Í Öldungaráði séu rædd málefni sem varða hagsmuni eldri borgara í sveitarfélaginu. Að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum kjósi sveitarstjórn fulltrúa úr sínum hópi til setu í Öldungaráði og stjórn(ir) félags eldri borgara tilnefni jafn marga stjórnarmenn af sinni hálfu til setu í ráðinu.

Rætt var um fyrirhugað öldrunarráð á Suðurnesjum og kynntu fulltrúar LEB drög að samþykktum fyrir ráðið. Einnig kom fram að í Danmörku er löng hefð fyrir slíkum samstarfsvettvangi stjórnvalda og eldri borgara.

Fulltrúar sambandsins greindu frá því að drög að stefnumörkun sambandsins fyrir þetta kjörtímabil verða til umræðu á landsþingi sambandsins 24.-26. september. Tækifæri ætti að gefast til þess að ræða þessa hugmynd þar en einnig er gert ráð fyrir því að þau gögn sem LEB lagði fram á fundinum verði kynnt á næsta fundi félagsþjónustunefndar sambandsins. Fram kom sú ábending af hálfu sambandsins að skynsamlegast væri að horfa til stærri svæða við frekari útfærslu á hugmyndinni, líkt og stefnt er að á Suðurnesjum.

 

3.     Heimaþjónusta og heimahjúkrun

Landssamband eldri borgara vill stuðla að því að fólk geti búið á eigin heimili sem lengst og það er opinber stefna stjórnvalda. Til þess þurfa sveitarfélögin að reka öfluga heimaþjónustu, samhæfða við heilsugæsluna um heimahjúkrun aldraðra. Með því að samþætta þjónustuna og að eldri borgarar eigi kost á notendastýrðri persónulegri aðstoð má gera betur. Mikilvægt er að vinna markvisst að innleiðingu velferðartækni í félagsþjónustu, m.a. í samræmi við tillögur í skýrslu nefndar velferðarráðherra um það efni.

Afstaða LEB um að samþætta heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu er í fullu samræmi við stefnu sambandsins. Rætt var hvort hægt væri að vinna sérstaklega að því markmiði, óháð því hvort verði af mögulegri tilfærslu málefna aldraðs fólks til sveitarfélaganna, en vinna við það verkefni hefur gengið fremur hægt undanfarið og er ljóst að sveitarfélögin vilja nálgast þær viðræður af varfærni.

Fulltrúar LEB lýstu áhuga á því að skoða nánar útfærslu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og vísuðu til þess að í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá nóvember 2010 kæmi fram að það þjónustuform þyrfti ekki að vera dýrara en hefðbundin þjónusta sveitarfélaga. Fulltrúar sambandsins greindu frá því að það væri afstaða sambandsins að afla þurfi meiri reynslu af notendastýrðri persónulegri aðstoð fyrir fatlað fólk áður en hægt væri að skoða að útfæra það fyrirkomulag á þjónustu yfir á þjónustu við aldrað fólk. Lítil reynsla er enn komin á málið hér á landi en sambandið telur þetta þjónustuform vera umtalsvert dýrara en hefðbundna þjónustu.

 

4.     Húsnæðismál

Sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki í húsnæðismálum landsmanna. Landssambandið leggur áherslu á að við endurskoðun stefnu í húsnæðismálum verði skotið sterkari stoðum undir félagslegar lausnir í húsnæðismálum og að réttarstaða og húsnæðisbætur eigenda, leigjenda og búseturéttarhafa verði treyst og samræmd. Sveitarfélög kappkosti að jafnan sé nægilegt framboð af lóðum og húsnæði sem hentar fyrir aldraða.

Stefna sambandsins og LEB er í raun að miklu leyti hin sama í þessum málaflokki. Fundarmenn voru sammála um að samráð um útfærslu lagafrumvarps um nánari útfærslu þeirra tillagna sem liggja fyrir um umbætur í húsnæðismálum þurfi að vera miklu meira. Rætt var um möguleika á samstarfi þessara aðila við nánari rýni á lagafrumvörp þegar þau koma fram.

 

5.     Aðstaða aldraðra

Hinn félagslegi þáttur sem félög eldri borgara sinna í sínu nánasta umhverfi er mjög mikilvægur til að stuðla að heilbrigðu félagslífi og draga úr einsemd aldraðra sem oft getur flýtt fyrir hrörnun og stuðlað að ótímabærum veikindum. Landssamband eldri borgara leggur áherslu á að góð aðstaða sé í hverju sveitarfélagi fyrir aldraða til að sinna hugðarefnum sínum og að sveitarfélög kappkosti að félög eldri borgara hafi til umráða starfsaðstöðu svo sem skrifstofuaðstöðu og aðstöðu fyrir félags- og tómstundastarf ásamt endurgjaldslausu aðgengi að ýmiskonar þjónustu til þjálfunar og viðhalds færni svo sem sundlaug og íþróttahúsi.

Fram kom að víða búa sveitarfélögin mjög vel að félagsstarfi aldraðra. Rætt var að ástæða gæti verið til þess að kynna fyrir sveitarstjórnarmönnum þá öru þróun sem orðið hefur í málaflokknum á síðustu árum og er ljóst að auknar lífslíkur eldra fólks kalla á markvissa stefnu sveitarfélaga í málaflokknum. Ljóst er að samtök eldri borgara hafa mikilvægu hlutverki að gegna og er eðlilegt að sveitarfélögin reyni að hlúa að starfsemi þeirra eins og hægt þykir á hverjum stað.

 

Önnur mál

Rætt var um stöðu vinnu við endurskoðun laga um almannatryggingar, þar sem lögð er áhersla á að útkoman verði heildstætt bótakerfi. Einnig var rætt stuttlega um fyrirhugaða endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og er það sýn beggja aðila að aðeins sé þörf fyrir ein félagsþjónustulög. Jafnframt kom fram að LEB gæti við slíka lagabreytingu ekki sætt sig við að að réttindi og aðstaða aldraðra samkvæmt núgildandi lögum skerðist í nokkru. Ef af lagasameiningu verður telja báðir aðilar að skoða eigi hvort ekki sé heppilegt að sett verði sérstök lög um Framkvæmdasjóð aldraðra.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar

 

7. Endurskoðun laga um almannatryggingar

JVK sagði frá starfi nefndar um endurskoðun almannatrygginga sem haldið hefur reglubundna fundi auk tveggja daga vinnulotu 29. og 30. september. Einnig hafa nefndarmenn skipt sér í undirnefndir til að fjalla um einstök álitamál. Þokast hefur í samkomulagsátt um tillögur til breytinga á lögum um almannatryggingar og er stefnt að starfslokum nefndarinnar fyrir árslok. Farið var yfir meginatriði í þeim hugmyndum sem nú eru helst til umræðu.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin er fylgjandi þeim tillögum sem til umræðu eru og treysta formanni til að leiða þessi mál til lykta með hagsmuni eldri borgara að leiðarljósi.

 

8. Stefnumótunarfundur Öldrunarráðs

JVK greindi frá stefnumótunarfundi Öldrunarráðs sem fram fór að Hraunsnefni í Norðurárdal 23. og 24. september. M.a. ætlar Öldrunarráð að halda ráðstefnu um sveigjanleg starfslok og atvinnumál aldraðra í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og er undirbúningur ráðstefnunnar hafinn auk þess að veita styrki til rannsókna í öldrunarmálum.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin ákveður að standa að ráðstefnunni og mun Jón Kr. Óskarsson sækja undirbúningsfund um ráðstefnuna 15. október.

 

9. Endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga

JVK og HI greindu frá vinnu nefndar um endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. HI, sem er varamaður JVK í nefndinni, hefur tekið þátt í störfum nefndarinnar. Haldnir hafa verið allmargir nefndarfundir og vinnudagur var í nefndinni 3. október. Hlutverk nefndarinnar er að semja nýja heildarlöggjöf um félagsþjónustuna m.a. vegna flutnings málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Endurskoðunin getur valdið breytingum á löggjöf um málefni aldraðra.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin leggur áherslu á að hagsmuna aldraðra sé gætt í hvívetna í fyrirhuguðum lagabreytingum og að lagaákvæði sem nú eru að finna í löggjöf um málefni aldraðra verði ekki flutt í hina nýju löggjöf nema að vel athuguðu máli, enda mikilvægt fyrir aldraða að um málefni þeirra gildi heildstæð löggjöf.

 

10. Starfsemi Almannaheilla

HI gerði grein fyrir starfi Almannaheilla en hann var kjörinn í stjórn samtakanna á síðasta aðalfundi þeirra. Auk stjórnarfunda hefur verið haldinn vinnufundur um stefnumótun og starfshætti samtakanna, sem eiga að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignastofnanir sem starfa í almannaþágu. Verið er að vinna að gerð frumvarps um þetta efni.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

11. Umsagnir um þingmál

JVK lagði fram drög að umsögnum um 2. og 3. þingmál

Umsögn Landssambands eldri borgara um þingmál nr 2/2014, frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt  o.fl.

Stjórn Landssambands eldri borgara, er sammála þeirri  aðgerð  að fella niður vörugjöld en lýsir yfir mikilli andstöðu við þá hækkkun neðra þreps virðisaukaskatts að fara úr 7% í 12%.  Það kemur afar illa við lágtekjuhópa og þá eldri borgara sem eru á lægstu bótum almannatrygginga, en það er afar fjölmennur hópur eldri borgara. Þær mótvægisaðgerðir í formi barnabóta  sem talað er um,  gagnast á engan hátt eldri borgurum. Þeir munu taka  þessar hækkanir á sig að fullu.

Þessar breytingar munu hækka matarinnkaup og hækka kostnað við hita og rafmagn. Auk þess er  fyrirséð að hækkun verður á flutningskostnaði vegna  breyttra öryggiskrafna á hjólbörðum bifreiða. Það mun einnig leiða til hækkunar vöruverðs. Hækkanirnar bitna því með enn meiri þunga á eldri borgurum sem búa á landsbyggðinni, þar sem bæði hiti,  rafmagn og vöruverð er almennt hærra en á höfuðborgarsvæðinu og virðisaukaskatturinn leggst ofan á verðið.

Ef ætlunin er að koma með mótvægisaðgerðir sem  koma  til góða þeim sem lægstar tekjur hafa  þá er æskilegast og áhrifaríkast að hækka persónuafsláttinn. Það myndi ekki hvað síst bæta afkomu allra lágtekjuhópa.

Reynslan sýnir að þegar hækkanir eiga sér stað kemur það fram að fullu í vöruverði, en erfitt er að tryggja að lækkanir skili sér í vöruverði.

Umsögn Landssambands eldri borgara um mál nr. 3/2014, frumvarp til laga um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015  Breyting ýmissa laga.

 

Breyting á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008:

Breyting á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008 felur í sér að S-merkt lyf og önnur leyfisskyld lyf eru tekin inn í  hið almenna lyfjagreiðslukerfi. Það mun hækka greiðslubyrði sjúklinga sem þurfa nauðsynlega á þeim lyfjum að halda.  Að auka þannig álögur á sjúklinga til að laga fjárhagsstöðu ríkissjóðs er óafsakanlegt á  sama tíma og   skýrsla sem Krabbameinsfélag Íslands lét gera á s.l. ári sýndi að Íslendingar eru með hæstu hlutdeild almennings í lyfjakaupum af öllum Norðurlöndunum. Þá er virðisaukaskatur á lyf einnig í hæsta þrepi hér á landi, en eðlilegra væri að hann væri í lægra þrepinu, eins og víðast hvar annars staðar  í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Landssamband eldri borgara hefur ítrekað bent á að það þurfi að endurskoða. Landssambandið leggst alfarið gegn þessari breytingu.

 

Breyting á lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999:

Hér er enn verið að framlengja bráðabirgðaákvæði um Framkvæmdasjóð aldraðra  og gefa heimild til að ráðstafa tekjum sjóðsins til reksturs hjúkrunarheimila. Landssamband eldri borgara mótmælir því harðlega  að fjármagn sjóðsins sé notað á þann hátt þar sem mikil þörf er á byggingu fleiri hjúkrunarheimila sem er  eitt aðalmarkmið sjóðsins.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin samþykkti framangreindar umsagnir

 

12. Heimsóknir til aðildarfélaga

JVK ræddi um mikilvægi þess að forystumenn LEB heimsæki aðildarfélögin til að kynnast starfsemi félaganna og að ræða baráttumál landssambandsins.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin hvetur til heimsókna í sem flest aðildarfélög sem ekki hafa nú þegar verið heimsótt á yfirstandandi starfstímabili stjórnar.

 

13. Ársskýrslur aðildarfélaga

HI minnti á umræður á síðasta formannafundi um að heppilegt væri að gera árlega samræmt yfirlit, ársskýrslu, um lykilþætti í starfsemi aðildarfélaga LEB til að geta sýnt svart á hvítu um hve mikilvæg landssamtök hér er um að ræða. Drög að formi slíkrar samræmdrar ársskýrslu hafa verið send á formenn sex félaga eldri borgara með beiðni um að fylla formið út og koma með ábendingar um breytingar og hvort eitthvað er of eða van í forminu. Formið er word skjal með 10 efnisþáttum sem spurt er um. Gert er ráð fyrir að formenn hlaði skjalinu niður á eigin tölvu, visti og útfylla skjalið og endursendi á leb@leb.is.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin samþykkir að form að ársskýrslu fyrir árið 2014 sé sent í rafrænu formi til allra aðildarfélaga í árslok með skilafresti til 15. janúar 2015.

 

14. Listin að lifa

JVG kynnti að tímarit landssambandsins, Listin að lifa, muni koma út í byrjun nóvember og verði sent til allra félagsmanna í aðildarfélögum.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

15. Heimasíða LEB

HI hélt áfram umræðum frá síðasta stjórnarfundi um heimasíðu LEB og að meginhlutverk heimasíðunnar sé að vera upplýsingabrunnur fyrir formenn og stjórnarmenn aðildarfélaga um starfsemi og baráttumál landssambandsins og efnisval miðist við það hlutverk.

Afgreiðsla stjórnar: Stjórnin samþykkir tillöguna.

 

16. Ráðstefna um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu

JVK gerði grein fyrir ráðstefnu Velferðarráðuneytisins um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu sem haldin var 3. október.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar

 

17. Skipun í lýðheilsunefnd

JVK greindi frá því að ráðherra hefði skipað Birnu G. Bjarnadóttur, gjaldkera félags eldri borgara í Reykjavík í lýðheilsunefnd.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

18. Hugmyndir Félags aldraðra í Mosfellsbæ um skattamál aldraðra

HI kynnti hugmyndir Félags aldraðra í Mosfellsbæ um skattamál aldraðra o.fl. sem fulltrúar félagsins hafa kynnt stjórn LEB.

Afgeiðsla stjórnar: HI var falið að svara erindi félagsins í samræmi við umræður á fundinum.

 

19. Evrópsk könnun á viðhorfum til aldraðra

HI gerði grein fyrir að NSK, samvinnunefnd samtaka eldri borgara á norðurlöndum í samvinnu við evrópusamtök á þessum vettvangi, hafi óskað eftir að landssamtök aldraðra í evrópulöndum kanni viðhorf almennings til eldri borgara. LEB óskaði eftir skoðun formanna aðildarfélaga á nokkrum spurningum þessu viðkomandi og mun byggja svar sitt á því.

Afgreiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

20. Landsfundur 2015

JVK vakti máls á að hefja þurfi undirbúning landsfundar LEB 2015.

Afgeiðsla stjórnar: JVK og HI falið að undirbúa málið fyrir næsta fund stjórnar.

 

21. Stofnun öldungaráða

HI greindi frá áhuga á ýmsum svæðum á stofnun öldungaráða.

Afgeiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

22. Framkvæmdasjóður aldraðra

EE gerði grein fyrir starfi Framkvæmdasjóðs aldraðra en sjóðstjórn hefur haldið þrjá fundi síðan í maí en stjórnin var skipuð í þeim mánuði.

Afgeiðsla stjórnar: Lagt fram til kynningar.

 

23. Verkfall lækna

AL greindi frá umræðum og áhyggjum sem fram komu á fundi velferðarnefndar LEB, sem haldinn var 7. október um boðaðar verkfallsaðgerðir lækna.

Afgeiðsla stjórnar: Stjórn LEB treystir á að aðilar nái að leysa málið áður en til verkfalls kemur.

 

Næsti fundur stjórnar var ákveðinn 25. nóvember kl. 10:00.

Fundargerð ritaði Haukur Ingibergsson.