fbpx
Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona skrifaði eftirfarandi pistil á vefnum Lifdu núna sem okkur finnst eigi erindi.

 

 

Erna Indriðadóttir

Gleðilegt ár kæru lesendur Lifðu núna. Staða eftirlaunafólks í landinu í upphafi ársins 2021 er nokkuð góð, en enn á ný sýna stjórnvöld lítinn skilning á  því að það þurfi að hækka eftirlaunin til jafns við önnur laun í landinu.

Baráttan fyrir betri kjörum eftirlaunafólks, sem gjarnan er kallað aldraðir eða eldri borgarar,  gengur hægt. Við höfum hvorki samningsrétt né verkfallsrétt þegar kemur að kjarabaráttunni og erum algerlega uppá náð og miskunn Alþingis komin, þegar kemur að launahækkunum um hver áramót. Þar á bæ, finnst mörgum sjálfsagt að sniðganga almannatryggingalögin þar sem segir að laun eldra fólks í almannatryggingakerfinu, svokallaður ellilífeyrir,  skuli hækka í samræmi við launaþróun í landinu. Það var enn og aftur gert um þessi áramót.

Það myndu fæstir í þessu þjóðfélagi láta bjóða sér að lifa af um  266.000 krónum á mánuði, fyrir skatt, eins og mörgu eldra fólki er ætlað að gera, þó vissulega séu til þeir sem komnir eru á eftirlaun sem hafa það alveg þokkalegt og sumir mjög gott. Félög eldri borgara í landinu hafa reynt að standa vörð um það fólk sem ber minnst úr býtum, en árangurinn lætur á sér standa.

Það er til eldra fólk sem skammast mikið út í félögin og Landssamband eldri borgara, vegna þess hversu illa kjarabaráttan gengur. Þegar þessu fólki er  bent á að bjóða sig endilega fram til að taka þátt í baráttunni, sljákkar verulega í því.  Þetta er fólkið sem situr á hliðarlínunni og skammar þá sem þó eru að reyna að gera eitthvað, en virðist ekki hafa áhuga á að taka til hendinni sjálft.

Formæður okkar og forfeður stofnuðu Félög eldri borgara um land allt, fyrir 30 – 40 árum.  Félögin vildu efla félagsstarf eldra fólks, sem þá var ekki jafn fjölbreytt og nú er og einnig berjast fyrir hagsmunum eldri borgara.  Nú eru starfandi 54 félög eldri borgara í landinu og þau koma síðan öll saman í Landssambandi eldri borgara, sem er „talsmaður“ þeirra gagnvart stjórnvöldum.  Grái herinn er síðan  baráttuhópur innan Félags eldri borgara í Reykjavík. Allir sem starfa í þessum félögum vinna frábært og óeigingjarnt starf í þágu eftirlaunafólks. Það er ástæða til að þakka það.

Aðstæður eldra fólks hafa vissulega breyst undanfarna áratugi og það hafa félögin einnig gert, þó það sé tímabært að ganga enn lengra í þeim efnum en gert hefur verið.  Samfélagið hefur breyst og mörgum finnst tími til kominn að  stokka upp í hreyfingu eftirlaunafólks.  Stofnun Gráa hersins var tilraun til þess. Það kom til tals að hann yrði sjálfstæð hreyfing, en reynslan sýnir að það er ekki vænlegt til árangurs að stofna stöðugt ný og ný félög um sömu baráttumálin. „Sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér“, á sannarlega við um eldri borgara, rétt eins og vinstri menn og hægri í pólitíkinni.

Það berst enginn fyrir hagsmunum eldra fólks ef það gerir það ekki sjálft. Þetta gildir um alla baráttu „minnihlutahópa“ bæði fyrr og síðar. Blökumenn urðu að berjast fyrir sínum rétti, konur, samkynhneigðir og þannig mætti lengi áfram telja. Það er ekkert öðruvísi með eftirlaunafólk.  Á næstu tíu árum mun fjölga í  þeirra hópi um ca. 20.000. Það er mikilvægt fyrir okkur að reyna að hafa áhrif á það líf sem okkur verður búið í ellinni. Hvernig á að tryggja öllu þessu fólki mannsæmandi líf? Hvernig lífi viljum við lifa á efri árum, hverig þjónustu þurfum við og  verður pláss fyrir okkur á hjúkrunarheimilunum? Og hvernig eigum við að tryggja að komið sé fram við okkur af þeirri virðingu sem við eigum skilið, þegar við eldumst?

Ég hvet eftirlaunafólk til að ganga í Félög eldri borgara hvert á sínu svæði á nýju ári, en þau eru opin öllum sem eru 60 ára og eldri.  Gangið í félögin og hafið áhrif á þá starfsemi sem þar er í gangi. Þar er sannarlega verk að vinna. Komið með nýjar hugmyndir og hugsið út fyrir boxið. Látið í ykkur heyra á opinberum vettvangi. Hlúum að Félögum eldri borgara, byggjum á þeim grunni sem formæður okkar og feður lögðu og þróum félögin áfram í takt við nýja tíma.

 

 

 

Fjöldi fólks kemur árlega saman á landsfundum LEB til að fara yfir stöðu eldri borgara. Fremst á myndinni eru Ásdís Skúladóttir til vinstri og Bryndís Hagan Torfadóttir til hægri. – Mynd: Lifðu núna/Erna Indriðadóttir