fbpx

Við erum með hátt í  90 skráða félaga á Dalvík, Árskógsströnd og í Svarfaðardal. Starfsemin er fjölbreytt og lífleg en ég lýsi eftir fleirum af yngri kanti eldri borgara í byggðarlaginu. Endurnýjunin mætti vera meiri. Ég vil sjá gráa herinn á svæðinu ganga til liðs við okkur!Kolbrún Pálsdóttir er formaður Félags eldri borgara í Dalvíkurbyggð. Kemur reyndar fáum á óvart sem þekkja á annað borð til á Dalvík að einmitt Kolla Páls skuli vera í forsvari þessa félagsskapar. Hún hefur áratugum verið saman verið drifkraftur í félagsmálastarfi af ýmsum toga og komið víða við, nema þá helst í hestamannafélaginu og í harðlæstum karlaklúbbum. Þannig starfaði hún í deildum Rauða krossins og Slysavarnafélags Íslands á Dalvík, tók þátt í að stofna garðyrkjufélag, var lengi í sóknarnefnd og í nefndum á vegum sveitarfélagsins.

Hún starfaði lengi á Dalbæ, heimili aldraðra, og beitti sér fyrir því árið 1990, ásamt Halldóri Guðmundssyni, þáverandi framkvæmdastjóra Dalbæjar, að stofnað yrði félag aldraðra í plássinu. Kolla gekk samt sjálf ekki í félagið fyrr en löngu síðar, enda vann hún til 74 ára aldurs og hafði líka öðrum félagsmálahnöppum að hneppa. En um leið og hún steig inn fyrir þröskuld félags eldri borgara var hún fljótlega valin í stjórn og kjörin formaður stjórnar 2017.

Nú um stundir situr Kolla við tölvuskjá heima hjá sér og æfir sig í ritvinnsluforritinu Word. Hún er á tölvunámskeiði eldri borgara hjá Guðnýju Ólafsdóttur og segir að nemendur í skóla eigi að vera duglegir að læra heima!

Við höfum fasta liði í félagsstarfinu. Til dæmis svarfdælska spilið brús og leiðsögn fyrir þá sem vilja læra brús. Í hverri viku er félagsvist og opið hús, Mímiskór eldri borgara æfir reglulega og við erum með leshring, matreiðslunámskeið og margt fleira, meðal annars í samstarfi við Dalvíkurkirkju.

Undanfarin ár höfum við farið í Dalvíkurskóla og hlustað á krakkana lesa og þeir koma svo til okkar í febrúar ár hvert til að spila við okkur. Við kennum þeim og þeir okkur.

Félagið var á hrakhólum fyrstu árin en eftir miklar umræður og bréfaskriftir afhenti bæjarstjórn því Mímisbrunn, hús sem áður var félagsheimili skáta en hefur frá 1999 verið félagsheimili eldri borgara í Dalvíkurbyggð. Séra Magnús Gunnarsson sóknarprestur vígði Mímisbrunn við athöfn 11. mars 2000, á tíu ára afmæli húseigandans, félags eldri borgara. Fjárstuðningur til þriggja ára fylgdi gjöfinni og var nýttur til endurbóta og viðbyggingar.

Rögnvaldur Skíði Friðbjörnsson, þáverandi bæjarstjóri, beitti sér fyrir því að bærinn afhenti eldri borgurum gamla skátaheimilið og á miklar þakkir skildar fyrir það. Bærinn hefur alltaf  stutt okkur og styrkt á ýmsa vegu. Fólk skammast stundum út í bæjaryfirvöld fyrir að standa sig ekki í hinu og þessu en það geri ég aldeilis ekki. Við erum á grænni grein með félagsheimilið okkar. Ég vona hins vegar að sú ósk rætist að enn fleiri komi til starfa með okkur!

Mímisbrunnur í vetrarskrúða á þorra 2019, félagsheimili Félags eldri borgara í Dalvíkurbyggð.