fbpx

Í kjölfar ferðar formanns LEB á Ísafjörð um daginn til að taka þátt í 25 ára afmælishófi Ísfirðinganna í FEB, lá leiðin til baka yfir Steingrímsfjarðarheiði og þá var upplagt að spjalla við eldri borgara í Strandasýslu.

Gefum Þórunni Sveinbjörnsdóttur, formanni LEB, orðið:

„Ævintýrin enn gerast…“ segir í gömlu dægurlagi og sannarlega á það við á Hólmavík, því félag eldri Strandamanna hefur fengið inni í Flugskýlinu á Hólmavík fyrir starfsemi sína. Það er aflagt sem flugskýli, nema fyrir sjúkraflug, og er húsið í mjög góðu standi.

Formaður félagsins er Hanna Sverrisdóttir sem tók á móti okkur með súpu og brauði og á eftir máltíðina var boðið upp á ilmandi kaffi og með því.

Stjórnamenn sögðu frá starfseminni og kynntu reglulegt dreifibréf sem fer til allra félagsmanna. Andinn á milli fólks var með eindæmum góður. Á fundinn mættu 18 manns en í Félagi eldri borgara í Strandasýslu eru um 90 félagsmenn, konur og karlar, en það er óhemju langt á milli í suður og norður um strandirnar. Svo félagssvæðið er víðfeðmt.

Þau segja að sveitastjórnin standi vel við bakið á þeim í félagsstarfseminni. Venjulega mæta  20 – 25 félagar í hvert skipti sem eitthvað er um að vera s.s. félagsvist. Haldið er úti félagsstarfi alla daga nema laugardaga.

Þarna er gíðarlega dugmikill hópur sem skipuleggur félagsstarfið og finnur sér margt að gera m.a. gönguferðir, spilað á spil, farið í tækjasal, og einnig hópferðir innanlands og utan sem eru mjög vinsælar. Áhugavert var að heyra um heimsóknir til aldraðra bæjarbúa.

Greinilega gott að vera eldri borgari á Hólmavík og skella sér í gönguferð í góðum hópi.“

Formaður LEB hefur heimsótt all nokkur félög víða um land og flutt þá ávarp og tekið þátt í umræðu um hvað er efst á baugi í málefnum eldra fólks.

 

Eldi borgara í félagsmiðstöðinni sinni, gamla flugskýlinu á Hólmavik

 

Gamla flugskýlið, sem nú er félagsheimili eldri borgara á Hólmavík