fbpx

Aðgerðahópur Gráa hersins undirbýr málsókn gegn íslenska ríkinu og hefur stofnað sérstakan málssóknarsjóð til að vera fjárhagslegan bakhjarl sinn. VR hefur lagt baráttunni til eina milljón króna, fleiri stéttarfélög lofa stuðningi og Félag eldri borgara í Reykjavík samþykkti að gerast stofnaðili málssóknarsjóðsins með hálfrar milljónar króna framlagi.

Þetta kom fram í ávarpi Finns Birgissonar og Ingibjargar Sverrisdóttur á landsfundi Landssambands eldri borgara í Reykjavík. Þau hafa ásamt Wilhelm Wessman unnið að undirbúningi málssóknar vegna „óréttlátra og yfirgengilegra tekjutenginga í lífeyriskerfi almannatrygginga,“ eins og það var orðað í ávarpinu.

Orðrétt sögðu þremenningarnir úr Gráa hernum síðan erindinu sínu sem birt var landsfundi LEB:

Þessar miklu tekjutengingar hjá okkur eru einsdæmi og hvergi í nálægum löndum getur það gerst að regluverkið þurrki alveg út grunnlífeyri fólks frá hinu opinbera. Hér gera brattar tekjutengingar eða skerðingar það að verkum, að löngu áður en aðrar tekjur einstaklings ná því að slaga upp í miðlungstekjur í landinu, þá hafa tekjutengingar almannatryggingakerfisins þurrkað út allar lífeyrisgreiðslur frá því opinbera. Af þessu leiðir líka að hvergi í nálægum löndum er hlutur hins opinbera í eftirlaunum aldraðra minni en hér. Hér var hann 2,6% af vergri landsframleiðslu á árinu 2017 en á sama tíma var hann frá 5,4 til 11% af VLF á hinum Norðurlöndunum og meðaltal OECD landa var 8,2%.

Innan Gráa hersins, sem upphaflega var komið á laggirnar sem aðgerðarhópi innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, hefur það lengi verið ríkjandi skoðun, að nauðsynlegt sé að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort þessar miklu skerðingar í almannatryggingakerfinu standist stjórnarskrá og almenn mannréttindaákvæði, t.d. um eignarrétt, jafnræði, meðalhóf og aflahæfi einstaklinganna. Í slíku máli myndu það vera einstaklingur eða einstaklingar, sem hefðu orðið fyrir barðinu á skerðingunum, sem væru kærendur, en þeir myndu þurfa að hafa öflugan fjárhagslegan bakhjarl og virkan stuðning frá öðrum þeim sem ættu þarna hagsmuni undir. Helsti þröskuldur í veginum fyrir því að hrinda þessu í framkvæmd hefur verið fjárhagslega hliðin, en ljóst er að slíkur málarekstur myndi kosta mikið fé, ekki síst ef málið þyrfti að fara upp eftir öllum dómsstigum og jafnvel enda fyrir Mannréttindadómstólnum úti í Strassborg.

En málið fékk nýlega góðan byr í seglin og tók mikinn kipp, þegar stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur ákvað að styrkja Gráa herinn um eina milljón króna til að ráðast í slík málaferli. Síðan hafa einnig borist loforð frá fleiri stéttarfélögum um stuðning uppá minni upphæðir. Í framhaldinu ákvað aðgerðarhópurinn að hafa það fyrirkomulag á fjármálum verkefnisins að stofna sjóð, Málsóknarsjóð Gráa hersins, með sérstaka stjórn og staðfesta skipulagsskrá sem uppfylli formkröfur laga nr. 19/1988 um sjóði og sjálfseignarstofnanir. Með þessu móti teljum við að fullkomið gagnsæi og öryggi verði best tryggt og sjóðurinn geti þannig notið óskoraðs trausts bæði þeirra sem styðja hann með framlögum og þeirra sem munu eiga hagsmuni sína undir honum.

Sjóðformið hefur einnig þann kost að hægt er að safna til hans sem stofnaðilum félögum aldraðra víðs vegar á landinu. Þau eru samtals yfir 50 talsins og ef álitlegur fjöldi þeirra skráir sig sem stofnaðila myndi það gefa sjóðnum aukið vægi sem beinum eða óbeinum aðila að væntanlegum málarekstri og sýna fram á alvöruþungann á bak við málshöfðunina af hálfu eldri borgara.

Við höfum undanfarið unnið að því að semja skipulagsskrá sjóðsins í samráði við lögfræðinga á Málflutningsstofu Reykjavíkur, sem eru reynslumiklir í því að reka réttindamál gagnvart almannatryggingum.

Fyrsti stofnaðilinn liggur þegar fyrir, þ.e. Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, sem samþykkti á aðalfundi nýlega að gerast stofnaðili með 500 þús. króna framlagi.

Næsta skref hjá okkur verður því að senda öllum félögum eldri borgara póst, með boði um að gerast stofnaðilar. Stofnaðild verður ekki háð skilyrði um fjárframlag, heldur er aðildarfélögunum það í sjálfsvald sett hvort þau leggja sjóðnum til fé í upphafi og hversu mikið. Málareksturinn verður ekki kostaður af sjálfu stofnfénu, heldur verður ráðstöfunarfjár aflað með framlögum og söfnunum eftir að sjóðurinn hefur tekið til starfa.