fbpx

 

Glæsilegur landsfundur LEB var haldinn á Hótel Selfossi miðvikudaginn 26. maí sl. og nutu landsfundarfulltrúar gestrisni Selfyssinga ríkulega með fráfarandi formann Félags eldri borgara á Selfossi, Guðfinnu Ólafsdóttur, fremsta í stafni.

Landsfundinn sóttu 129 fulltrúar frá 38 félögum víðs vegar að á landinu. Dagskrá fundarins var viðamikil og ræddi fólk um hin ýmsu álitamál er varðar hag eldra fólks, bæði í málefnahópum sem og á sameiginlegum fundi.

Nokkrar ályktanir voru samþykktar, jafnt um velferðrmál sem kjaramál. Viðamest var endanleg útfærsla á Áhersluatriðum eldra fólks fyrir komandi alþingiskosningar. Sú ályktun hafði áður verið samþykkt á fjölsóttum formannafundi snemma í vor, en á landsfundinum var smiðshöggið slegið og hún endanlega samþykkt af æðsta valdi LEB: Landsfundi.

Ályktanir og tillögur sem samþykktar voru á landsfundinum má lesa neðst hér á síðunni.

 

 

Helstu áhersluatriði eldra fólks

Einfalda þarf flókið og sundurleitt lagaumhverfi í málefnum eldri borgara og gera það skilvirkara. Lágmarkslífeyrir skal aldrei vera lægri en umsamin lágmarkslaun á vinnumarkaði. Endurskoða ber reglur um starfslok. Þetta er meðal þess sem fram kemur í áhersluatriðum eldra fólks fyrir komandi Alþingiskosningar.

Fimm áhersluatriði fyrir þingkosningarnar í haust voru samþykkt á landsfundi Landssambands eldri borgara, LEB, 26. maí. Áhersluatriðin hafa þegar verið kynnt stjórnmálaflokkum og forystufólki launþegahreyfingarinnar og atvinnurekenda, auk sveitarstjórnarmanna.

Sérstaklega er tiltekið að skilja þurfi að lög um eldra fólk og öryrkja og að tryggja þurfi aðkomu eldra fólks að endurskoðun laga. Rættlætismál sé að starfslok verði miðuð við áhuga, færni og getu en ekki verði horft eingöngu til aldurs að því er fram kemur í ályktun landsfundar LEB.

Fella beri allar þær aldurstengdu viðmiðanir úr lögum sem fari gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár og horfa frekar til þekkingar, reynslu, hæfni og menntunar.

Almennt frítekjumark verði 100 þúsund krónur og fólk á eftirlaunum geti unnið án skerðinga í almannatryggingakerfinu. „Hvers vegna er ekki hægt að nota skattkerfið eins og gert er annars staðar?“, spurði Helgi Pétursson, tónlistarmaður og nýkjörinn formaður Landssambandsins í ávarpi á fundinum.

„Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf,“ sagði Helgi.  Brýnt væri að byggja upp búsetuform sem væri millistig milli þess að búa á eigin heimili og dvalar á hjúkrunarheimili.

Fjármunum í Framkvæmdasjóði aldraðra verði eingöngu varið til uppbyggingar, endurbóta og viðhalds stofnana fyrir eldra fólk. Jafnframt þurfi að tryggja að heilsugæsla verði vagga öldrunarþjónustu með stóraukinni samvinnu ríkis og sveitarfélaga og að fjárframlög taki mið af því.

Forgangsmál sé að stofna öldrunargeðdeild og að framlag aðstandenda til umönnunar eldra fólks verði metið til launa með umönnunarálagi. Nýkjörinn formaður kveðst vilja efla sambandið enn frekar og boðar aðgerðir þar sem minnt verður á stöðu eldra fólks.

Ný stjórn LEB

Helgi Pétursson var sjálfkjörinn formaður til tveggja ára og tekur við af Þórunni Sveinbjörnsdóttur sem var þakkað fyrir framúrskarandi starf í þágu LEB síðustu fjögur ár.

Stjórnina skipa auk Helga þau Valgerður Sigurðardóttir, Ingibjörg H. Sverrisdóttir, Drífa Jóna Sigfúsdóttir og Þorbjörn Guðmundsson. Ásgerður Pálsdóttir, Ingólfur H. Hrólfsson og Ragnar Jónasson sitja í varastjórn.

 

Samþykktar ályktanir og tillögur:

Áhersluatriði. Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf

Ályktun um kjaramál 2021

Ályktun um velferðarmál

Ályktun Landsfundar LEB um stöðu hjúkrunarheimila

Tillaga samþykkt á landsfundi LEB 2021

Tillaga Halldórs Gunnarssonar til stjórnar LEB