fbpx

 

Besti vinur mannsins

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður LEB – Landssambands eldri borgara skrifar

Í mörg undanfarin ár hefur verið lögð mikil áhersla á að fólk á öllum aldri geti tekið virkan þátt í samfélaginu. Hvað hefur áunnist? Allavega töluvert en enn er svo víða pottur brotinn að hugsunin um aldursvænt samfélag er alveg í molum. Aldursvæn borg er á stefnu Reykjavíkurborgar og má búast við að næsti áfangi sé að fara af stað. Ef öll markmiðin nást mun margt lagast í höfuðborginni.

Þörfin  á nýrri nálgun í öllum málaflokkum sem snerta eldra fólk er mikil. Sérstaklega vegna mikillar fjölgunar eldri borgara  sem lifa lengur, margir við þokkalega heilsu. En hvernig mætum við þeim sem komnir eru með skerðingar?

Í vissum hverfum í Reykjavík er boðið upp á samþætta heimahjúkrun og heimilishjálp. Það er mikið framfaraskref. Einnig eru komnir sjúkraþjálfar og iðjuþjálfar í allmörg hverfi sem mun styrkja stöðu þeirra sem þurfa stuðning til betri heilsu, t.d. eftir sjúkrahúsvist. Þannig komast einstaklingar aftur til virkni sem er svo óendanlega mikilvæg.

Það vantar mikið upp á í aðgengismálum og virðing gagnvart þeim sem þurfa hjálp er allavega allt of lítil. Mjög margir sem búa einir og eiga erfitt með gang veigra sér við að fara í búðir og versla inn sjálfir. Einnig að njóta menningar, fara í leikhús og njóta tónleika er ekki efst á lista. Heimsóknarvinir, vinir og eða ættingjar, hjálpa oft í slíkum tilvikum, en margt má læra af öðrum þjóðum. T.d. eru heimsóknar- og félagsvinir mun algengari víða en hér, en Íslendinga skortir mikið á að verða virkir sjálfboðaliðar.

Önnur  lausn getur verið er að hafa hentug hjálpartæki til taks í anddyrinu í stórverslunum. Allt upp í rafskutlur. Þær eru til víða í USA. Nú nýlega átti ég leið í Bykó og þar sá ég 2 göngugrindur fyrir aldrað fólk. Takk er orðið yfir þetta framtak. Vonandi vakna fleiri og finna lausnir við hæfi fleira fólks.

Nú nýlega lauk starfi nefndar um hjálpartæki og er ekki enn farið að vinna eftir nýjum leiðum. Þörfin á að fjölga úrræðum er mjög mikil svo að fólk geti með reisn tekið virkan þátt í daglegu lífi. Félagsleg einangrun er margþætt og er hægt að vinna gegn henni eftir mismunandi leiðum. En til þess þarf sameiginlegt átak sem hristir upp í allri hugsun fólks. LEB mun taka virkan þátt í nýjum leiðum.

Fyrir marga getur lítið gæludýr gert mjög mikið og gerir nú þegar.

Í strætisvögnum í Finnlandi má finna merkingar sem taka tillit til eldri borgara. Þá eru sæti merkt með manni með staf. Slík merking er líka á nokkrum flugvöllum á sérmerktum sætum í biðsölum. Meira af þessu. Aukning á aðstoð á flugvöllum er gríðarleg enda stór hópur viðskiptavina í húfi.

Í auknum næli munu hótel og veitingastaðir taka upp merkingar á heimasíðum og öðru kynningarefni um hvort þeirra staður sé aldursvænn, á sama hátt og er gert víða á umhverfisvænum stöðum. Rétt væri að láta gera könnun á aðgengi miklu víðar en gert er.

Eitt sem er líka tengt ferðaþjónustu eru salerni á ferðamannastöðum en þar er alvarlega brotinn pottur víða. Salerni allt of lág, oft laus frá gólfi, úr lélegu efni og engin handföng sem er skrefið sem hjálpar t.d. þeim sem hafa farið í aðgerðir á mjöðm eða hné eða aðrar aðgerðir. Hæð salerna er líka að mörgu leyti úrelt þar sem þjóðin er sífellt hávaxnari. Þá skiptir hæð miklu mál. Sumir kaupa sér hækkanir á salerni, en það dugir skammt þegar fólk er á ferð um landið eða löndin. Ný salernistækni er líka að koma fram fyrir veikara fólk í heimahúsum, hjúkrunarheimilum eða þjónustuíbúðum.  Til að afla sér upplýsinga um ýmsa möguleika á ferðalögum og fleiru, er vefur sem heitir travable.is og er unninn til að finna fyrir fólk aðgengi við hæfi.

Allt þetta er partur af velferðartækni sem getur bætt við og hjálpað á svo margan hátt.

Málið er enn stærra og því bíður næsta pistils að fjalla um fleira sem snýr að okkur eldri borgurum.

Pistillinn birtist fyrst á vefnum Lifðu núna