Baráttuglaðir og einbeittir fulltrúar aðildarfélaga LEB á Landsfuni 2020

Landsfundur LEB 2020 fagnar því að ákvæði almannatryggingarlaga um tekjutengingu lífeyrisgreiðslna frá hinu opinbera skuli nú vera komin til kasta dómstóla. Fyrir tilstilli Málsóknarsjóðs Gráa hersins hafa verið höfðuð þrjú prófmál, og mun málflutningur fyrir héraðsdómi fara fram á haustmánuðum.

Lengi hefur kraumað mikil óánægja hjá eldri borgurum landsins vegna brattra tekjutenginga og ofur-jaðarskatta sem þeir þurfa að búa við og eru einsdæmi á Norðurlöndum. Jafnlengi hefur því verið haldið fram að þetta regluverk jafngildi eignaupptöku og stangist á við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.

Þegar álitamál af þessu tagi eru uppi, er það rétta leiðin, – jafnvel sú eina, – til að útkljá þau og komast að niðurstöðu að leggja þau fyrir dómstóla. Landsfundurinn fagnar því þessvegna að málið skuli loks vera komið í þann farveg, og að það liggur fyrir að aflað hefur verið nægilegs fjármagns frá einstaklingum og samtökum til þess að unnt verður að reka málið allt til enda.