fbpx
Málefni aldraðra - mynd
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að verja um 75 milljónum króna í átaksverkefni til að efla félagsstarf fullorðinna í sumar. Aðgerðirnar eru hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19, sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í samfélaginu.
Ráðherra hefur sent bréf á öll sveitarfélög landsins þar sem hann hvetur þau til að efla enn frekar félagsstarf fullorðinna í sumar. Í bréfinu er sveitarfélögum kynntur sá möguleiki á að sækja um styrk til að auka starfsemi og þjónustu í félagsstarfi fullorðinna sumarið 2020, umfram hefðbundið sumarstarf, vegna COVID-19.
Sveitarfélögin munu geta sótt um styrk inn á island.is en hvert og eitt sveitarfélag mun geta sótt um 1.600 kr. fyrir hvern íbúa í sveitarfélaginu sem er 67 ára og eldri, en lágmarksframlag verður ekki undir 100.000 kr.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er staðreynd að viðkvæmir hópar verða fyrir hvað mestum áhrifum af Covid-19 faraldrinum og margir hafa upplifað mikla félagslega einangrun í faraldrinum. Það er mikilvægt að sporna gegn því með því að bjóða upp á frístundaiðkun, geðrækt og hreyfingu meðal annars og ég hvet sveitarfélögin til að efla félagsstarf fullorðinna enn frekar í sumar.”