fbpx

Nýárskveðja til formanna félaga eldri borgara frá Landssambandi eldri borgara

 

Heilir og sælir formenn aðildarfélaga Landssambands eldri borgara, gleðilegt og farsælt nýtt ár og þakka ykkur fyrir gott samstarf og móttökur á liðnu ári. Á árinu 2015 heimsótti ég, oftast með öðrum stjórnarmönnum LEB, 28 aðildarfélög, eða helming aðildarfélaga LEB, og sá með eigin augum hve mikilvægu og fjölbreyttu starfi félög eldri borgara um land allt sinna og hversu mikil ábyrgð og annríki er lagt á ykkar herðar, formenn góðir. Í þessari nýárskveðju er farið yfir kjaramál eldri borgara sem hafa verið og verða áfram ofarlega á baugi. Nýárskveðjan fylgir einnig í viðhengi með þessum tölvupósti fyrir þá sem finnst betra að opna og lesa kveðjuna í því formi.

 

Stefna LEB í kjaramálum

Að loknum landsfundi okkar 5-6 maí 2015, kynntum við stjórnvöldum kröfu LEB um að lífeyrir almannatrygginga taki að lágmarki sömu hækkunum og lægstu laun í kjarasamningum sem voru framundan. Lífeyrir almannatrygginga mundi þá hækka með sama hætti og á sömu dagsetningum og lægstu laun og verði 300 þúsund 2018. Þessi stefna var jafnframt kynnt alþingismönnum á fundum þingflokka, þingnefnda, í viðræðum við einstaka þingmenn og gagnvart forystumönnum 60+ félaga stjórnmálaflokka. Málin voru einnig kynnt í gegn um fjölmiðla og voru fulltrúar fjölmennasta aðildarfélags LEB, Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, duglegir á þeim vetttvangi.

 

Afstaða stjórnvalda

Frá upphafi var ljóst að lítill vilji var í fjármálaráðuneytinu á að fjárhæðir bóta og lægstu launa fylgdust að. Eftir sumarleyfi var settur á fót vinnuhópur fulltrúa LEB, með aðstoðarmönnum fjármálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra og embættismönnum ráðuneytanna beggja en ekki tókst að hnika í neinu skoðun fjármálaráðuneytisins á því hvernig hækkun bóta skyldi reiknuð. Við afgreiðslu fjárlaga samþykkti Alþingi að bætur skyldu hækka 1. janúar 2016 um 9,7% þannig að fjárhæð bóta þess sem býr einn árið 2016 verður 246.902 kr. á mánuði og 212.776 kr. á mánuði hjá þeim sem býr með öðrum. Að fjárlögum samþykktum, sagði fjármálaráðherra m.a. í fjölmiðlum að „staða þeirra sem að byggja afkomu sína meðal annars með stuðningi almannatrygginga verður þó sú besta sem hún hefur verið í sögunni í upphafi næsta árs.“

 

Útreikningar Talnakönnunar

Í viðræðum í vinnuhópnum kom fljótt í ljós að þungt var undir fæti með að hækka fjárhæð bóta afturvirkt frá 1. maí 2015. Til þess að finna nýjan flöt til samkomulags og að þoka málum áleiðis fékk LEB fyrirtækið Talnakönnun til að reikna út hverjar fjárhæðir bóta almannatrygginga þyrftu að vera til að hækkunin væri hliðstæð að heildarverðmæti fyrir eldri borgara og hækkanir kjarasamninga sem gerðir voru í maí 2015 þannig þó að hækkanir bóta almannatrygginga ættu sér stað þrisvar þ.e. 1. janúar 2016, 1. janúar 2017 og 1. janúar 2018 og hefðu þá náð 300.00 þús kr. á mánuði í stað þess að hækka fjórum sinnum, þ.e. 2015, 2016, 2017 og 2018 eins og kjarasamningarnir í vor gengu út á. Í útreikningum Talnakönnunar voru sýnd þrjú tilvik varðandi mögulegar útfærslur:

 

„Tilvik 1: Bætur hækki í 260 þúsund krónur 1. janúar 2016, 280 þúsund krónur 1. janúar 2017 og 300 þúsund 1. janúar 2018. Hér er miðað við ellilífeyrisþega sem búa einir. Prósentuhækkun yrði hliðstæð á aðra. Niðurstaða úr þessu er að þá fengju ellilífeyrisþegar 60.560 krónum meira en ef hækkanirnar hefðu verið miðaðar við 1. maí 2015, 2016, 2017 og 2018 eins og samningar gera ráð fyrir. Þetta erum 0,64% meira en þeir hefðu fengið ella.

Tilvik 2: Miðað var við að krónutalan yrði sú sama á tímabilinu. Bætur hækki þá í 257.477 krónur 1. janúar 2016, 277.477 þúsund krónur 1. janúar 2017 og 300 þúsund 1. janúar 2018. Hér er miðað við ellilífeyrisþega sem búa einir. Prósentuhækkun yrði hliðstæð á aðra.

Tilvik 3: Vegna þess að hækkun ellilífeyrisþega kemur seinna til en annarra er eðlilegt að núvirða. Hér er reiknað miðað við 3,5% raunvexti eins og gert er almennt í tryggingafræðilegum útreikningum. Til þess að ellilífeyrisþegar standi jafnfætis öðrum er niðurstaðan: Bætur hækki  í 257.867 krónur 1. janúar 2016, 277.867 þúsund krónur 1. janúar 2017 og 300 þúsund 1. janúar 2018.“

Ekki reyndist hljómgrunnur fyrir málamiðlun af þessu tagi.

 

Ákall til alþingismanna

Í aðdraganda lokaafgreiðslu fjárlaga sendi stjórn LEB sérstakt ákall til alþingismanna og ítrekaði enn og aftur „fyrri samþykktir um að ellilífeyrir almannatrygginga taki að lágmarki sömu hækkunum og lægstu laun sem samið var um í kjarasamningum síðastliðið vor. Eldri borgarar hafa skilað giftríku ævistarfi við að byggja Ísland og íslenskt samfélag upp og ákalla þingmenn um að meta það starf að verðleikum við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga á yfirstandandi þingi.  Landssamband eldri borgara skorar á alþingismenn að greiða því atkvæði sitt að kjör eldri borgara verði bætt í samræmi við hækkun lægstu launa og hækki frá 1. maí á þessu ári (þ.e. 2015) eins og laun á almennum markaði. Greiðsla afturvirkt er réttlætismál því ósanngjarnt er að eldri borgarar séu skildir útundan við að njóta kjarabóta sem þorri almennings hefur þegar notið.“

Þetta ákall breytti engu um afstöðu meirihluta þingmanna.

 

Kjaramál aldraðra vekja þjóðarathygli

Það sem var sérstakt við þetta ferli var að kjaramál aldraðra komust í brennidepil hinnar pólitísku umræðu og vöktu þjóðarathygli. Stjórnarandstaðan sameinaðist um að gera hækkun og afturvirkni bóta aldraðra annað af sínum aðalmálum við fjárlagaumræðuna (hitt var aukið fjármagn til Landspítalans), fjölmiðlar fjölluðu margoft um málið, mikil umræða var á samskiptamiðlum auk þess sem Forseti Íslands tók fátækt aldraðra til umræðu þannig að eftir var tekið. Fjármálaráðuneytinu varð hins vegar ekki haggað og birti það m.a. heilmikla greinargerð um málið á vef sínum 11. desember. Þögn aðila vinnumarkaðarins, bæði vinnuveitenda og launþega, meðan á þessari umræðu stóð var hins vegar eftirtektarverð, sem staðfesti fyrri afstöðu þessara aðila um að bætur eigi að vera lægri en laun.

 

Góð staða Íslands

Þótt við höfum ekki haft erindi sem erfiði að þessu sinni, heldur baráttan áfram fyrir bættum kjörum aldraðra enda er staða Íslands í efnahagsmálum að flestra mati góð; það sér fyrir endann á uppgjöri við erlenda aðila vegna bankahrunsins, atvinnuástand er gott og ferðamennska hefur á nokkrum misserum orðið nýr burðarás í efnahagslífinu til jafns við sjávarútveg og orkufrekan iðnað. Lífeyrissjóðirnir eflast stöðugt, Ríkissjóður styrkist sem og fjárhagur meirihluta sveitarfélaga og gengi krónunnar og verðlag er stöðugra en oftast áður.

 

Hvað næst?

Landssamband eldri borgara mun halda áfram baráttunni við að ná fram þeirri stefnu sem landsfundurinn 5.-6. maí 2015 markaði. Vinnuhópur LEB og ráðuneytanna er enn að störfum enda er mikilvægt að hafa formlegan vettvang til að eiga viðræður við stjórnvöld. Einnig þarf að leita nýrra leiða til kjarabóta og í því sambandi er mikilvægt að ljúka og koma í framkvæmd ýmsum af þeim hugmyndum sem nefndir um endurskoðun almannatrygginga, á síðasta kjörtímabili undir formennsku Árna Gunnarssonar fv. alþingismanns og á þessu kjörtímabili undir formennsku Péturs Blöndal alþingismanns og eftir andlát Péturs undir stjórn varaformanns nefndarinnar, Þorsteins Sæmundssonar alþingismanns, hafa náð samstöðu um. Samhliða þarf að varast að láta kjaraumræðuna yfirskyggja umræðu um önnur mikilvæg hagsmunamál eldri borgara sem m.a. varða ýmiskonar réttindi, þjónustu ríkis og sveitarfélaga, heilbrigðismál, húsnæðismál og aðstæður aldraðra almennt.

 

Reykjavík, 4. janúar 2016

Haukur Ingibergsson, formaður

Landssamband eldri borgara