fbpx

LANDSSAMBAND ELDRI BORGARA

 

Fundargerð formannafundar

haldinn í Hlégarði, Mosfellsbæ, 26. apríl 2016, kl. 13:00-17:00

Dagskrá fundarins:

13:00   Setning formannafundar                                                        Haukur Ingibergsson

13:05   Ávarp bæjarstjóra Mosfellsbæjar                                          Haraldur Sverrisson

13:15   Skýrsla formanns                                                                  Haukur Ingibergsson

13:30   Niðurstöður ársreiknings 2015 kynntar                                 Ástbjörn Egilsson

13:40   Umræður um skýrslu formanns og ársreikning 2015

14:00   Kjaramál

  • Tillögur nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir fv. formaður LEB og fulltrúi LEB í nefndinni

  • Kaupmáttur lífeyris undanfarna áratugi

Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri Talnakönnunar og ritstjóri Vísbendingar

  • Fyrir hvað stendur Grái herinn?

(Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður FEB í Reykjavík og nágrenni)

  • Fyrirspurnir og umræður

15:00   Kaffi

15:15   Hópstarf: Umræðuefni í öllum hópum:

  1. Með hvaða aðferðum er líklegast að eldri borgarar geti bætt kjör sín?
  2. Hver er reynslan af starfi Öldungaráða og á hvað eiga félög eldri borgara að leggja áherslu í starfi Öldungaráða?
  3. Er ávinningur, og þá hver, af meiri samvinnu félaga eldri borgara eftir landssvæðum?

Í hverjum hóp er hópstjóri og ritari sem ganga frá niðurstöðum hópsins og verða niðurstöður sendar formönnum aðildarfélaga LEB.

16:00   Heilbrigðismál

  • Hvert stefnir? – Fjölgun aldraðra framundan

Ragnar Guðgeirsson, verkefnisstjóri

  • Rekstrarvandi hjúkrunar- og dvalarheimila

Pétur Magnússon, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

  • Fyrirspurnir og umræður

16:50   Önnur mál

17:00   Fundarslit                                                                                          Haukur Ingibergsson

Setning formannafundar, þriðjudaginn 26. apríl 2016, kl. 13:00

Formaður Landssambands eldri borgara (LEB), Haukur Ingibergsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann þakkaði formönnunum fyrir síðast og greindi frá því að hann hafi nú þegar heimsótt 34 af 56 félögum eldri borgara, til að skoða aðstæður og hvernig að öldruðum er búið vítt um landið, heyra hljóðið í fólki og kynna starfsemi og baráttumál Landssambandsins. Formaðurinn þakkaði Félagi aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni (FaMos) fyrir samstarfið og fundaraðstöðuna í þessu fornfræga húsi, Hlégarði.

Því næst vísaði formaður LEB til 8. gr. laga LEB, um formannaráð og fundi, og lagði til að Grétar Snær Hjartarson yrði fundarstjóri og samþykktu fundarmenn það með lófaklappi. Engar aðrar tillögur komu fram.

Þá gerði formaður LEB tillögu um að Elísabet Valgeirsdóttir, ritari stjórnar LEB, annaðist fundarritun, með aðstoð Margrétar Jónsdóttur, og samþykktu fundarmenn það með lófaklappi. Engar aðrar tillögur komu fram og tók fundarritari til starfa.

Fundarstjóri tók til máls og greindi frá því að fundur hefði verið auglýstur og kynntur eins og lög sambandsins mæla fyrir um og lýsti fund þar með lögmætan. Að svo búnu bauð hann bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Harald Sverrisson, velkominn og gaf honum orðið.

Ávarp Haraldar Sverrissonar, bæjarstjóra Mosfellsbæjar

Bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Haraldur Sverrisson, sagði það sanna ánægju að fá að bjóða fundarmenn velkomna til Mosfellsbæjar á þessum fallega vordegi, í þessu fornfræga húsi, Hlégarði. Hann vonaðist til þess að dagurinn yrði fundarmönnum og málstað þeirra góður og óskaði þeim velgengni í hagsmunagæslu fyrir eldri borgara.

Í ávarpi sínu greindi bæjarstjórinn frá því sem Mosfellsbær hefur verið að gera fyrir þennan málaflokk. Hann nefndi til dæmis uppbyggingu aðstöðu fyrir eldri borgara að Hlaðhömrum og er starfrækt af hjúkrunarheimilinu Eir. Þá byggði sveitarfélagið 40 þjónustu- og öryggisíbúðir. Í tengslum við það hefur bærinn endurnýjað og tekið í notkun þjónustumiðstöð sem hýsir félagsstarf aldraðra og mötuneyti. Þetta hefur í för með sér töluvert öflugra samstarf milli starfsemi FaMos og félagsstarfsins sem rekið er af sveitarfélaginu, ásamt fjölgun fólks innan starfsins. Hann sagði bæjarstjórnina hafa verið meðvitaða um að bærinn hefði ekki verið að standa sig nógu vel á árum áður og þrátt fyrir að Mosfellsbær sé ungt sveitarfélag þá fari hópur eldri borgara ört stækkandi. Árið 2009 fékk bærinn heimild frá ríkinu til að byggja hjúkrunarheimili en fyrir því hafði verið barist í 30 ár. Farin var svokölluð leiguleið, þar sem bærinn leigir ríkinu húsnæðið til 40 ára en samdi við hjúkrunarheimilið Eir um reksturinn. Í þessu sambandi vísaði bæjarstjórinn til erindis Péturs Magnússonar, forstjóra Hrafnistu, síðar á þessum fundi um rekstrarvanda hjúkrunarheimila. Þrátt fyrir að rekstur hjúkrunarheimila væri fyrst og fremst verkefni á vegum ríkisins þá fylgdu ekki tekjustofnar til að sinna því verkefni. Rekstur hjúkrunarheimila væri því erfiður og reksturinn í Mosfellsbæ væri þar engin undantekning. Rekstur hjúkrunarheimila væri þó augljóslega bráðnauðsynlegur.

Að lokum nefndi bæjarstjórinn stofnun Öldungaráðs í Mosfellsbæ, fyrir rúmu ári. Þar með hafi sveitarfélagið og FaMos sett á laggirnar öflugan og formlegan vettvang sín á milli. Hlutverk ráðsins er meðal annars að vera formlegur og milliliðalaus vettvangur um hagsmuni aldraðra – um stefnu og framkvæmd málefna. Markmiðið er að gefa eldri borgurum kost á að hafa aukin og virk áhrif á mótun stefnu og framkvæmd sveitarfélagsins á þeim sviðum sem lúta að aðstæðum og þjónustu við fólk á efri árum. Þetta kvað bæjarstjórinn vera í samræmi við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar og ber hann miklar vonir til þess að öll ákvörðunartaka og þjónusta fyrir eldri borgara verið betri í sveitarfélaginu til allrar framtíðar. Hann er bjartsýnn á að gott verði að búa í Mosfellsbæ á öllum æviskeiðum og líkur ávarpi sínu með óskum um gott gengi fundarmönnum til handa, með þökkum fyrir að hafa valið Mosfellsbæ fyrir fundarhaldið. Málstaðurinn sé mikilvægur og bærinn sé stoltur af því að hafa orðið fyir valinu.

Að þessu búnu bauð fundarstjóri formann LEB, Hauk Ingibergsson, í pontu.

Skýrsla formanns

Formaður LEB, Haukur Ingibergsson, flutti eftirfarandi skýrslu stjórnar um starfið á undanförnum 12 mánuðum:

Inngangur

Góðir félagar.

Í þessari skýrslu minni mun ég fara yfir nokkur hagsmunamál sem Landssamband eldri borgara hefur unnið að á undanförnum 12 mánuðum. Um sum þeirra hefur verið fjallað í mánaðarlegu fréttabréfi mínu til ykkar og í nýútkomnu tölublaði af Listinni að lifa. Flest tengjast málin því kjarnaverkefni Landssambands eldri borgara að stuðla að því að löggjöf sé okkur eldri borgurum hagstæð og að hún sé rétt framkvæmd.

Munum að eldri borgarar hafa engin réttindi og njóta engrar þjónustu umfram aðra landsmenn nema kveðið sé á um það í löggjöfinni enda er það í þingsal Alþingis sem réttindi okkar ráðast. Framkvæmd réttindanna getur síðan verið með ýmsu móti, hjá ríki, sveitarfélögum eða einkaaðilum, og þar þurfum við að vera á vaktinni, aðildarfélögin í sveitarfélögunum og Landssambandið á landsvísu.

Öldungaráð

Það verkefni sem best hefur gengið er stofnun Öldungaráða eða réttara sagt að koma á formlegu samstarfi sveitarstjórnarstigsins og eldri borgara. Hvert sveitarfélag er sjálfstætt stjórnvald og hefur margskonar skyldum að gegna gagnvart eldri borgurum. Þess vegna er mikilvægt að hafa formlegan samráðsvettvang þessara aðila. Hann höfum við nefnt Öldungaráð að norrænni fyrirmynd og þau eru nú starfandi í um 20 sveitarfélögum. Það er aðeins hálfur áratugur síðan Jóna Valgerður fór að tala fyrir hugmyndinni um stofnun öldungaráða. Þetta hefur því gengið rösklega fyrir sig enda kom fljótt í ljós jákvæðni sveitarstjórnarmanna gagnvart þessu fyrirkomulagi.

En þó sveitarfélög séu velviljuð, þarf tilvist öldungaráða að vera mörkuð í löggjöf. Landssambandið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa rætt málið og náð samstöðu í nefnd sem endurskoðar lög um félagsþjónustu sveitarfélaga um tillögu að nýrri grein í lögin til að marka lögmæti Öldungaráða og er tillagan svohljóðandi:

„Í hverju sveitarfélagi, eða í fleira en einu sveitarfélagi sem eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð, þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Í öldungaráði skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af félagi eldri borgara. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um öldrunarþjónustu skulu viðkomandi sveitarfélög og félög eldri borgara á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu öldungaráðs.“

Gerð frumvarpsins er á lokametrunum, á að fara í umsagnarferli hagsmunaaðila og kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins í sumar og lagt fram með haustinu. Lögfesting slíks ákvæðis tryggir lögformlega aðkomu félaga eldri borgara og ykkar, ágætu formenn, að málefnum aldraðra á sveitarstjórnarstiginu. Einnig skapar það sterkari stöðu ef og þegar umræða um frekari flutning málefna aldraðra frá ríki til sveitarfélaga hefst á ný.

Í hópstarfi hér í dag verður leitað eftir skoðunum ykkar á því hver reynslan af starfi Öldungaráða sé og hvað þið teljið að félög eldri borgara eigi að leggja áherslu á í starfi þeirra. Í hópstarfinu er einnig leitað eftir skoðunum ykkar á þeim ávinningi sem kynni að vera af meiri samvinnu félaga eldri borgara eftir landssvæðum því ýmis þjónusta spannar stór svæði svo sem starfsemi heilbrigðisstofnana, öldrunarstofnana og byggðasamlaga.

Almannatryggingar

Annað verkefni þar sem árangur hefur náðst, er endurskoðun laga um almannatryggingar. Eftir nær 20 ára starf nefndar eftir nefndar sem aldrei náðu niðurstöðu, tókst nefnd sem kennd er við Pétur heitinn Blöndal að ná þeim árangri að skila skýrslu með tillögum sem fela í sér verulegar endurbætur á lífeyriskerfinu sem munu bæta kjör okkar. Þar á meðal er tillaga um einföldun kerfisins með því að sameina grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærsluuppbót í einn ellilífeyri og fjölga valkostum varðandi lífeyristöku og hlutastörf.

Staðhæfingar sem sést hafa um að tillögurnar skili eldri borgurum ekki kjarabótum eru staðlausir stafir.

Í fyrsta lagi mundi Landssamband eldri borgara aldrei standa að slíkum tillögum nema að þær hefðu kjarabætur í för með sér.

Í öðru lagi er augljóst að tillagan um að einstaklingur haldi alltaf eftir 55% af tekjum sínum hlýtur að gefa meira en núverandi fyrirkomulag þegar skerðing lífeyris almannatrygginga getur verið 100% eða króna á móti krónu.

Í þriðja lagi kemur fram í skýrslu nefndarinnar að árlegur útgjaldaauki ríkissjóðs sé áætlaður hátt í 10 milljarða króna og hvert á það fé að fara nema til aukinna lífeyrisgreiðslna?

Lögleiðing tillagnanna er mikilvægasta baráttumál okkar sem framundan er.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir hefur borið hitann og þungann af okkar starfi í þessum málaflokki og mun fara nánar yfir það síðar á fundinum. Verið er að vinna að gerð frumvarps sem byggir á tillögum og taka fulltrúar Landssambandsins þátt í því starfi. Okkar krafa er að frumvarpið verði lögleitt fyrir næstu áramót. Það flækir hins vegar málið að Öryrkjabandalagið hefur haft forgöngu um að öryrkjar taki ekki þátt í gerð frumvarpsins. Hið sama gerðist raunar í lok síðasta kjörtímabils þegar Öryrkjabandalagið hætti að starfa í nefnd um almannatryggingar undir formennsku Árna Gunnarssonar og frumvarp um úrbætur náðu ekki fram í tæka tíð.

Í lífeyrismálunum megum við ekki gleyma okkar sterka lífeyrissjóðakerfi þaðan sem um 70% lífeyris eldri borgara kemur nú. Spáð er að þetta hlutfall hækki næsta áratuginn í 85%. Og lífeyrissjóðunum vegnar vel þessi árin. Raunávöxtun þeirra var að jafnaði 8,1% á síðasta ári og 6,2% árin 2011-2015. Með fyrirhugaðri losun gjaldeyrishafta gefst sjóðunum meiri tækifæri til að fjárfesta erlendis en það dreifir áhættu og dregur úr hættu á innlendri verðbólgu.

Í tengslum við SALEK samkomulagið er einnig í undirbúningi að styrkja almennu lífeyrissjóðina þannig að þeir gefi hliðstæð réttindi og lífeyrissjóðir starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Fyrsta kynslóðin sem hefur greitt í lífeyrissjóð allan sinn starfsaldur er nú að nálgast starfslok og mun þurfa minna að reiða sig á lífeyri almannatrygginga en fyrri árgangar. Höfum það þó hugfast að lífeyrir almannatrygginga þarf alltaf að vera til staðar fyrir þá sem hafa minnstu réttindin í lífeyrissjóðum.

Hjúkrunarheimilin

2.500 félagar okkar dvelja nú á hjúkrunarheimilum og þörfin á því sviði er mikil. Í stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra hefur fulltrúi okkar, Eyjólfur Eysteinsson, talað fyrir fjölgun hjúkrunarrýma og meira fjármagni enda er uppbygging og rekstur hjúkrunarheimila eitt af mikilvægustu hagsmunamálum aldraðra sem Landssamband eldri borgara berst fyrir.

Við leggjum áherslu á að þjónusta hjúkrunarheimila sé framkvæmd samkvæmt viðurkenndum stöðlum, að fjármögnun sé trygg og að hjúkrunarheimili starfi samkvæmt þjónustusamningi. Slíkt auðveldar heimilismönnum og aðstandendum þeirra að gera sér grein fyrir hvers konar þjónustu megi vænta. En þarna er langt í land. Þjónustusamningar eru sjaldséðir og heimilin eru mörg hver skuldum vafin. Viðræður á milli ríkisvaldsins og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu standa yfir og nýlegt fjármálasamkomulag ríkis og sveitarfélaga glæðir vonir um að einhver framfaraskref verði stigin.

Landssamband eldri borgara og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa sammælst um að auka samstarf sitt til að vinna að umbótum í þessum málaflokki meðal annars með því að halda samráðsfundi forsvarsmanna. Og formaður samtakanna, Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistu, mun ræða málefni hjúkrunarheimila síðar á þessum fundi.

Eitt baráttumál þessu tengt er þó að þokast áfram. Landssamband eldri borgara hefur lengi gagnrýnt það „vasapeningakerfi“ sem tíðkast á öldrunarstofnunum. Nú hefur Velferðarráðuneytið ákveðið að endurskoða þetta kerfi og undirbýr Félags- og húsnæðismálaráðherra nú skipun starfshóps um „breytt fyrirkomulag á greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum“ þar sem stefnt er að auknu sjálfræði aldraðra með afnámi vasapeningakerfisins og því að teknar verði upp sértækar greiðslur fyrir húsleigu og annan kostnað er fylgir heimilishaldi. Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum ráðuneytisins, Landssambands eldri borgara, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Lífeyrismál

Við eldri borgarar höfum ekki samningsrétt um kjör okkar. Fjárhæð lífeyris almannatrygginga er ákveðinn árlega við afgreiðslu fjárlaga. Um það er mælt fyrir í 69. gr. laga um almannatryggingar sem hljóðar svo: „Bætur almannatrygginga skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“ Þrátt fyrir þessa lagagrein náði hækkun fjárhæða lífeyris á hrunárunum ekki þessari viðmiðun, var ákveðin í bandormi með fjárlögum og var iðulega ekki nema um helmingur þeirrar hækkunar sem hefði átt að vera ef farið hefði verið eftir ákvæðum 69. greinar um launaþróun.

Á síðasta ári tókum við mikinn slag við stjórnvöld um fjárhæð lífeyrisins fyrir árið 2016. Átakapunkturinn var að fjármálaráðuneytið vildi miða hækkun lífeyris við þróun allra launa en við sóttum fast að miða hækkunina við þróun lægstu launa sem var samþykkt landsfundar okkar í maí og að lífeyrir almannatrygginga tæki að lágmarki sömu hækkunum og lægstu laun í kjarasamningum og næði 300 þúsund kr. árið 2018.

Eftir landsfundinn kynntum við þessa samþykkt fyrir stjórnvöldum, á fundum þingflokka og fundum þingnefnda, þar á meðal á sérstökum fundi í fjárlaganefnd sem var opinn fjölmiðlum. Við ræddum við einstaka þingmenn og við forystumenn 60+ félaga stjórnmálaflokkanna. Málin voru einnig kynnt í gegnum fjölmiðla og voru fulltrúar fjölmennasta aðildarfélags LEB, Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, ötulir á þeim vettvangi.

Lítill vilji reyndist í fjármálaráðuneytinu til að fjárhæðir lífeyris almannatrygginga og lægstu launa fylgdust að og þeir héldu sig við ákvæði 69. greinarinnar um að taka mið af almennri launaþróun. Settur var á fót vinnuhópur fulltrúa LEB, með aðstoðarmönnum fjármálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra en ekki tókst að hnika í neinu skoðun fjármálaráðuneytisins á því hvernig hækkunin skyldi reiknuð. Jafnframt kröfðumst við afturvirkni á sama hátt og launahækkanir frá 1. maí 2015.

Við reyndum að finna nýja fleti á málinu sem stuðlað gætu að samkomulagi. Til dæmis fengum við Talnakönnun til að reikna út hver fjárhæð lífeyris almannatrygginga þyrfti að vera til að hækkunin væri hliðstæð að heildarverðmæti fyrir eldri borgara og hækkanir kjarasamninga sem gerðir voru í maí 2015 þannig þó að hækkanir lífeyris almannatrygginga ættu sér stað þrisvar, það er í janúar 2016, 2017 og 2018 og hefði þá náð 300.00 þús kr. á mánuði í stað þess að hækka fjórum sinnum, það er 2015, 2016, 2017 og 2018 eins og kjarasamningarnir gengu út á.

Í aðdraganda lokaafgreiðslu fjárlaga sendi stjórn LEB sérstakt ákall til alþingismanna og ítrekaði enn og aftur „fyrri samþykktir um að ellilífeyrir almannatrygginga taki að lágmarki sömu hækkunum og lægstu laun sem samið var um í kjarasamningum síðastliðið vor. Einnig sögðum við „Eldri borgarar hafi skilað gifturíku ævistarfi við að byggja Ísland og íslenskt samfélag upp og áköllum við þingmenn um að meta það starf að verðleikum við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga á yfirstandandi þingi. Landssamband eldri borgara skorar á alþingismenn að greiða því atkvæði sitt að kjör eldri borgara verði bætt í samræmi við hækkun lægstu launa og hækki frá 1. maí 2015 eins og laun á almennum markaði. Greiðsla afturvirkt er réttlætismál því ósanngjarnt er að eldri borgarar séu skildir útundan við að njóta kjarabóta sem þorri almennings hefur þegar notið“.

Allt kom fyrir ekki og við afgreiðslu fjárlaga samþykkti Alþingi að lífeyrir almannatrygginga skyldu hækka 1. janúar 2016 um 9,7%. Það sem gerðist hins vegar var að kjaramál aldraðra komust í brennidepil umræðunnar og vöktu þjóðarathygli. Stjórnarandstaðan sameinaðist um að gera hækkun og afturvirkni lífeyrisins annað af sínum aðalmálum við fjárlagaumræðuna, fjölmiðlar fjölluðu margoft um málið, mikil umræða var á samskiptamiðlum auk þess sem forseti Íslands tók fátækt aldraðra til umræðu svo að eftir var tekið.

Í ljósi þessarar baráttu og erindis Þórunnar Sveinbjörnsdóttur nú síðar á fundinum um fyrir hvað Grái herinn stendur, er eitt af umræðuefnunum í hópstarfinu hér á eftir spurningin. „Með hvaða aðferðum er líklegast að eldri borgarar geti bætt kjör sín?”

Rekstrarmál

Eins og kemur fram hjá gjaldkera Landssambandsins hér á eftir er fjárhagur samtakanna í góðu jafnvægi. Því jafnvægi hefur verið náð og viðhaldið með því að sníða stakk eftir vexti, eyða ekki um efni fram og eiga varasjóð til að mæta áföllum eins og þeim ef ríkið hætti að styrkja samtökin eða að einhver aðildarfélög gangi úr sambandinu. Við förum mjög gætilega í fjármálum en raunverulega þyrfti Landssambandið að hafa margfalt það fjármagn sem það hefur til að geta haft þá sérfræðiþekkingu og slagkraft sem stærð og mikilvægi sambandsins gefur tilefni til.

Ef við berum rekstur Landssambandsins okkar og Öryrkjabandalags Íslands árið 2014 saman, kemur mikill mismunur í ljós. Í LEB voru 54 aðildarfélög en 41 í ÖBÍ, eldri borgarar voru 40.000 og öryrkjar meira en helmingi færri. Rekstrarkostnaður LEB var 21 mkr en ÖBÍ 464 mkr eða 20 sinnum meiri. Eignir LEB námu 11 mkr en eignir ÖBÍ 733 mkr. eða 70 sinnum hærri fjárhæð. Það er engin furða að hagsmunabarátta Öryrkjabandalagsins hafi yfir sér annan blæ en barátta okkar.

Kynslóðabilið

Eitt af því sem við þurfum að vera meðvituð um, hvort sem við erum í sókn eða vörn, eru viðhorf annarra til okkar eldri borgara. Frá aldamótum hefur orðið aðskilnaður kynslóðanna, því hvort sem litið er til heildartekna, atvinnutekna, vaxta- og barnabóta, eigna eða eigin fjár, hafa kjör yngra fólks versnað og kjör eldra fólks batnað.

Í nýrri skýrslu Landsbankans segir Ari Skúlason hagfræðingur að síðastliðinn aldarfjórðung hafi fólk undir fertugu dregist aftur úr í tekjum, niðurstöðurnar séu skuggalegar og um geti verið að ræða árekstur milli kynslóða.

Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir segir í Morgunblaðinu að svo sannarlega séu öldrunarfordómar til staðar í samfélaginu svo sem að Landsspítalinn sé fullur af gömlu fólki og því sé ekki hægt að sinna aðgerðum á yngra fólki. Einnig sé stöðugur áróður í samfélaginu um að kostnaður við öldrunarþjónustu sé að aukast og að eldra fólk sé byrði fyrir sveitarfélögin.

Við þetta má bæta að í ýmsum ummælum á samfélagsmiðlum síðustu dagana um framboð núverandi forseta Íslands í eitt kjörtímabili til viðbótar, gætir mikillar andúðar í garð aldraðra.

Lokaorð

Góðir félagar.

Mörg dæmi eru um að órói í stjórnmálum og togstreyta valdi því að jafnvel hin bestu mál nái ekki fram að ganga á Alþingi. Slíkt gæti gerst nú.

Breytingar í ríkisstjórn, sundurlyndi á Alþingi, mótmæli á Austurvelli og við heimili ráðherra, umrót á Bessastöðum, stytting kjörtímabilsins og kosningar í haust geta hæglega leitt til þess að þær lagabætur sem eru í farvatninu svo sem um breytingar á lögum um almannatryggingar og um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga verði ekki lögfestar og að eldri borgarar fá ekki þær umbætur sem tillögurnar fela í sér.

Meginmálið fram að landsfundi okkar næsta vor verður því að halda kúrs, halda þessum góðu málum á lofti og leita lags til að þau nái fram að ganga.

Fundarstjóri tók nú til máls og þakkaði formanni LEB fyrir góða og yfirgripsmikla skýrslu og kynnti Ástbjörn Egilsson, gjaldkera LEB, næstan í pontu.

Niðurstöður ársreiknings 2015 kynntar

Gjaldkeri LEB, Ástbjörn Egilsson, hóf yfirferð ársreiknings 2015 á lestri áritunar endurskoðanda og skoðunarmanna. Því næst gerði hann grein fyrir rekstarreikningi sem sýnir kr. 3.738.032,- í rekstrarafgang. Niðurstaða efnahagsreiknings var veltufjármunir kr. 15.483.303,-. Gjaldkeri vísaði síðan til meðfylgjandi skýringa og sundurliðana án þess að lesa þær sérstaklega fyrir fundarmenn þar sem ársreikningurinn væri í fundargögnum fundarmanna. Hann lauk yfirferð sinni á lestri rekstrar- og efnahagsreiknings Styrktarsjóðs aldraðra og lagði ársreikning 2015 fram til að því loknu.

Fundarstjóri þakkaði gjaldkera fyrir ágæta framlagningu reikninga, sem að hans viti sýni mjög góðan rekstur, en benti á að ársreikningurinn verði ekki lagður fram til afgreiðslu fyrr en á næsta landsfundi LEB – hann yrði einungis til umræðu á þessum fundi.

Umræður um skýrslu formanns og ársreikning 2015

Fundarstjóri opnaði mælendaskrá um skýrslur formanns og gjaldkera. Þessir tóku til máls:

Jóhannes Finnur Halldórsson, formaður FEBAN – Félags eldri borgara á Akranesi og nágrenni, vildi þakka fyrir greinargóða skýrslu formanns LEB. Hann sagðist hafa hoggið eftir því að eina raunverulega tækifærið til að tjá sig við hópinn væri nú og hann langi því að nefna Öldungaráðið. Stuttu eftir að ný stjórn FEBAN tók við hafi komið tillögur frá bæjarfélaginu á Akranesi um stofnun Öldungaráðs, sem honum hafi strax ekkert litist á. Jóhannes sagði mikið ójafnvægi í samsetningu ráðsins og vísaði í lagabreytingatillögu um fjölda fulltrúa, sem formaður LEB las upp fyrr á fundinum. Eldri borgarar eru einungis frjáls félagasamtök sem eru aðilar að stofnun ráðsins en geta ekki verið eini mótaðilinn gagnvart sveitarfélaginu – þetta þyki honum ekki eðlilegt. Jafnt hlutfall fulltrúa muni ekki styrkja félög eldri borgara í að vera það sterka ráðgefandi afl sem það þarf að vera. Jóhannes sagðist hafa starfað mikið hjá sveitarfélögum og meðal annars verið bæjarritari. Hann hafi því kynnt sér hvernig þeir í vinabæ Akraness í Danmörku haga þessum málum og kom í ljós að það er töluvert öðruvísi en hér á landi. Hér séum við aðeins á rangri leið en ekki þurfi miklu að breyta. Þá kveði lög í Danmörku á um að minnsta kosti eitt öldungaráð og um beina kosningu manna, samhliða sveitarstjórnarkosningum, þar sem 60 ára og eldri kjósi í öldungaráð. Jóhanns lauk máli sínu með þeim orðum að það væri óþolandi að eldri borgarar væru „þiggjendur” í umræðunni.

Fundarstjóri þakkaði Jóhannesi fyrir og lagði jafnframt áherslu á að nú væru aðeins til umræðu skýrsla formanns og ársreikningur 2015. Nægur tími gæfist til að ræða önnur mál síðar á fundinum. Ekki skuli taka til máls um atriði sem eru bindandi fyrir LEB.

Eyjólfur Eysteinsson, formaður FEB á Suðurnesjum, sagði margt gott hafa verið tekið fram í skýrslu formanns LEB en markverðast væri stofnun Öldungaráða. Ráðin geta verið með ýmsum hætti og fer það eftir aðstæðum á sérhverjum stað. Aðalatriðið er að öðlast nánara samband við sveitarstjórnirnar. Þá þakkaði Eyjólfur stjórninni fyrir störf sín og sagði fundarmenn geta verið ánægða með hvernig málin standa.

Fundarstjóri ítrekaði við fundarmenn að taka ekki þetta eina mál til umræðu á þessum tímapunkti.

Guðrún Aradóttir, formaður FEB í Rangárvallasýslu, þakkaði ágætar skýrslur beggja aðila og sagði LEB vera að standa sig vel. Hún taldi ávinning af frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar, ef af þeim verður, en sagðist hafa hnotið um eitt atriði sem kom fram í grein Jónu Valgerðar í „Listin að lifa“, sumar 2016. Þar er rætt um þá kerfisbreytingu sem um er að ræða og að hún geti leitt til þess að tekjur þeirra sem hafa lágar atvinnutekjur minnki og sé bent á nánari útfærslu til að leiðrétta þetta. Henni finnst undarlegt að lægsti launaflokkurinn skuli oftast sitja eftir. Guðrún minntist þá á aðdraganda þess að FEB í Rangárvallasýslu hefði þann 7. apríl 2016 stofnað kjararáð og las upp tillögu þá sem þar var samþykkt. Þeim þætti stjórn LEB oft virðast máttlaus í þessu sambandi. Það myndi standa til bóta ef félög eldri borgara hefðu samband við nágrannafélögin og sameinuðust um kjararáð eða stofnuðu jafnvel landshlutakjararáð. Í því sambandi benti Guðrún á að stjórn FEB í Rangárvallasýslu hafi beðið um að tillaga Halldórs Gunnarssonar, formanns kjararáðs FEB í Rangárvallasýslu, um stofnun allsherjarkjararáðs yrði dregin tilbaka.

Fundarstjóri ítrekaði við fundarmenn að ræða ekki undir þessum fundarlið það sem mun verða rætt síðar í dagskránni.

Sigmundur Agnarsson, formaður FEB á Ólafsfirði, sagðist hafa 50 ára reynslu á sjó og væri ekki vanur að standa í púlti en hann hefði haldið að þessi fundur væri boðaður fyrir formenn félaga og þeir mættu því tjá sig. Fundarboðið sjálft hafi vakið athygli hans og sagðist hann ekki alveg sáttur við Hauk Ingibergsson, fyrir að halda því fram að stjórnarandstaða geti stoppað öll frumvörp, enda staðreyndin sú að verið sé að bíða eftir frumvarpalista. Sigmundur vék sér þá að frumvarpi félagsmálaráðherra og sagðist eiga erfitt með að sjá að verið sé að bæta kjör aldraðra, fremur skerða þau. Hann telur sig hafa fylgst vel með gangi mála og kallar eftir viðbrögðum frá fundarmönnum um frumvarpið og lýsti vilja sínum til að fundarmenn komi sér saman um sameiginlega yfirlýsingu til fjölmiðla þar um og allir geti farið sáttir heim. Með þeim orðum þakkaði hann fyrir sig.

Fundarstjóri áréttar enn á ný að fundarmenn verði að halda sig við skýrslu formanns og ársreikning 2015. Annað muni verða rætt undir liðnum ”önnur mál”.

Þá tók Helga Fríða Tómasdóttir, formaður FEB í Grundarfjarðarbæ, til máls og vildi benda á að það eina sem hún saknaði úr skýrslu stjórnar væru nánari upplýsingar um liðinn ”erlent samstarf” upp á rúmar 400 þúsund krónur.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður FEB í Reykjavík og nágrenni, spurði hverju það sætti að ekki væri tilgreindur prentkostnaður fyrir ”Listin að lifa”, í ársreikningi 2015. Einnig gerði hún athugasemd við meira en tvöföldun á kostnaði vegna fundaferða innanlands en hún taldi sig ekki vita betur en að Jóna Valgerður hafi einnig ferðast um landið endilangt.

Næstur í pontu var formaður LEB, Haukur Ingibergsson, og útskýrði hann hvers vegna enginn prentkostnaður væri nefndur í ársreikningi 2015. LEB gerði samning sem felur í sér að að tekjur útgáfufyrirtækis sem sér um útgáfu blaðsins af auglýsingum borgi prentkostnaðinn. Hins vegar hafi þurft að greiða prentkostnað vegna stórs og mikils afmælisblaðs í fyrra. Kostnaður vegna erlends samstarfs stafar af aðild að Samtökum eldri borgara á Norðurlöndunum, þar sem LEB fær hugmyndir og upplýsingar um stöðu mála á Norðurlöndunum.

Þá tók til máls Sveinn Hallgrímsson, formaður FEB í Borgarfjarðardölum. Hann rifjaði upp vísu í tengslum við byggingu Hlégarðs, fundarmönnum til ánægju. Hann bar því næst upp spurningar varðandi ársreikning 2015, um hvort halda ætti áfram með svonefnda Fjölmiðlavakt og hvað fælist í liðnum ”Endurgr. sáttagr. við Sagaz ehf.” Hann vildi auk þess upplýsingar um hvaða 10 milljarðar spöruðust samkvæmt skýrslu formanns LEB. Sveinn lauk máli sínu með þökkum fyrir góða kjötsúpu.

Fundarstjóri þakkar Sveini fyrir vísuna en sagði hana réttilega samda um Brúarland. Að svo búnu lokaði hann fyrir frekaðir umræður um skýrslu formanns og ársreikning 2015, þar sem aðrir höfðu ekki kvatt sér til hljóðs.

Haukur Ingibergsson, formaður LEB, svaraði fyrirspurn Sveins Hallgrímssonar og sagði Fjölmiðlavaktina efnisgreina fréttir og senda LEB. Creditinfo veiti þessa þjónustu og hafi LEB gerst aðili að þessu til prufu fyrir um það bil hálfu ári. Sáttagreiðsla til Sagaz ehf. eru leifar af gömlu deilumáli og þarna hafi náðst viðunandi sátt án þess að fara með málið fyrir dómstóla.

Fundarstjóri áréttaði að ársreikningur 2015 yrði ekki lagður fram til atkvæðagreiðslu en lagði fyrir fundinn að ársreikningnum verði vísað til landsfundar 2017, eins og hann liggur fyrir núna. Var það samþykkt með öllum atkvæðum í handauppréttingu. Fundarstjóri kynnti næsta lið á dagskrá og gaf Jónu Valgerði Kristjánsdóttur orðið.

Kjaramál

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fyrrverandi formaður LEB, flutti eftirfarandi erindi um tillögur nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar, en hún var fulltrúi LEB í nefndinni:

Í upphafi vil ég gjarnan taka fram að endurskoðun almannatrygginga hefur staðið yfir frá árinu 2005. Á þeim tíma hafa starfað fimm nefndir. Þær hafa starfað undir stjórn ýmissa formanna og verið nefndar eftir þeim. Kallaðar Bollanefnd, Ásmundarnefnd, Árnanefnd sem starfaði frá 2011-2013, Pétursnefnd frá 2013-2015 sem endaði svo undir stjórn Þorsteins Sæmundssonar eftir að Pétur Blöndal lést.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á þessu tímabili samkvæmt tillögum þessara nefnda, svo sem sett á framfærslubót, tenging við tekjur maka verið afnumin o.fl. Ég hef setið í síðustu tveimur nefndum eða frá árinu 2011. Fyrri nefndin hélt um 40 fundi og þessi síðari hélt 41 fund ásamt fleiri undirnefndarfundum. Hún skilaði síðan af sér nú í febrúar. Ég hef öðru hvoru verið með kynningu á starfi nefndarinnar hjá okkar félögum eldri borgara síðstliðin tvö ár, en nú liggur sem sagt niðurstaðan fyrir endanlega. Þó er rétt að taka fram að það eru ennþá lausir endar í útfærslu ýmissa atriða, en verið er að vinna að því í samráðsnefnd ráðuneytisins sem vinnur að frumvarpsgerðinni og við Haukur eigum sæti í þeirri nefnd.

Því næst gerði Jóna Valgerður grein fyrir helstu atriðum og breytingartillögum í skýrslu nefndarinnar, er varða heildarendurskoðun laga um almannatryggingar, sveigjanleg starfslok og hækkun lífeyrisaldurs. Hún fjallaði einnig um bókun Landssambandsins um tillögur nefndarinnar, þar sem lýst var stuðningi við tillögurnar í aðalatriðum. Í bókuninni kemur einnig fram stuðningur Landssambandsins við það að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats, þrátt fyrir að sambandið sé ekki sammála endanlegri útfærslu þess, og er lagt til að frítekjumark gildi um atvinnutekjur og fór Jóna stuttlega yfir ástæður þess. Breytingarnar á almannalögum eru taldar leiða til hækkunar fyrir allflesta en minnst hækkun er fyrir þá sem hafa atvinnutekjur.

Jóna Valgerður útskýrði að ekki sé verið að leggja til grunnlífeyrishækkun sem gerð er með fjárlögum hvers árs, enda er það ekki í verkahring þessarar nefndar en nefndin leggur til að bætur almannatrygginga fylgi alltaf launaþróun líkt og segir í lögunum. Ekki náðist að fá hækkanir afturvirkt eða hækkun upp í 300 þúsund krónur. Landssambandið vildi þó sjá lægri skerðingarprósentu en 45% – á Norðurlöndunum er hún allt niður í 30%. Jóna sýndi nokkur dæmi um ávinning hins nýja lífeyriskerfis, í formi hækkunar lífeyris miðað við tekjur einstæðinga og sambýlisfólks, og lofaði útreikninga og hálfpartinn óskiljanlega snilligáfu Sigurðar Grétarssonar hjá Tryggingastofnun. Þá lagði hún áherslu á að menn megi ekki tapa á að fara í vinnu og með sveigjanlegum starfslokum og hækkun lífeyristökualdurs er hvatt til atvinnuþátttöku. Frítekjumark skyldi einnig ná til öryrkja.

Heilt á litið þá er lífeyriskerfið mjög flókið í dag en með breytingunum sagði Jóna Valgerður að kerfið verði einfaldað, meðal annars með afnámi mismunandi skerðingarmarka, og framfærsluuppbótin muni færast í flokk ellilífeyris og þar með skerðast um 45% í stað 100%. Næstu skref eru vinnsla frumvarpsins í ráðuneytinu og hefur verið skipaður samráðshópur til að fylgjast með frumvarpsgerðinni. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki í maí og frumvarpið verði lagt fram í vor. Óvíst er um breytingar varðandi öryrkja og telur Jóna allra hluta vegna slæmt að Öryrkjabandalagið dró sig úr þessari vinnu.

Jóna Valgerður fór síðan með eftirfarandi lokaorð:

Það má öllum vera ljóst að í svo fjölmennri nefnd sem þessari, 20 manns, þar sem stjórnmálaflokkarnir og hagsmunaaðilar áttu allir sína fulltrúa, sem nú er að ljúka störfum er aldrei hægt að ná fram öllum kröfum hvers og eins. Ég hef lagt fram bókun um þau helstu atriði sem mér finnst standa út af og ég hefði viljað koma fram, meðal annars í  lægri skerðingarprósentu vegna annarra tekna og hafa frítekjumark vegna atvinnutekna. Hér er um að ræða einar mestu breytingar á almannatryggingum í áratugi, náist þetta fram í lögum sem lagt er til. Breytingarnar eru til mikilla bóta fyrir ellilífeyrisþega og sérstaklega þá sem eru með lágar lífeyrissjóðstekjur og hafa jafnframt þurft að treysta á framfærsluuppbótina. Það fólk hefur verið fast í fátæktargildru. Þarna er því verið að lagfæra kjör verulega stórs hóps eldri borgara. Þá eru sveigjanleg starfslok og möguleikar á töku á hálfum lífeyri og að vinna hálfa vinnu einnig nýmæli. Það hef ég lagt ríka áherslu á að yrði í tillögunum og var ég jafnframt formaður undirnefndar sem um það fjallaði. Hækkun á lífeyristökualdri er löngu tímabært að margra áliti. Þegar 67 ára aldursmarkið var sett í lög var meðalaldur á Íslandi 68 ár. Ef farið er að tillögum nefndarinnar um að hækkun lífeyristökualdurs verði á 24 árum má vel við það una. Nefndin leggur til að þessar breytingar verði að lögum 1. janúar 2017.

Fundarstjóri þakkaði Jónu Valgerði fyrir gott, yfirgripsmikið og fróðlegt erindi. Hann nefndi til gamans að skiljanlegt væri að Jóna næði ekki öllu því sem Sigurður Grétarsson segði því hann sjálfur hefði alltaf átt erfitt með að skilja Sigurð þrátt fyrir að hann væri hans eigin sonur. Benedikt Jóhannesson er næstur á mælendaskrá og bauð fundarstjóri hann velkominn.

Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Talnakönnunar og ritstjóri Vísbendingar, flutti erindið: Kaupmáttur lífeyris undanfarna áratugi.

Í máli Benedikts kom meðal annars fram að hann hefur unnið með LEB að kröfugerð varðandi lágmarkslaun og með síðustu nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar, sem og fyrirrennara þeirrar nefndar. Hann dáðist að því hversu vel menn unnu saman og hversu vel LEB kom að þessari vinnu án þess að mótmæla eingöngu. Breytingarnar telur hann til mikilla bóta, reglur séu sanngjarnari þó ekki nýtist þær alveg öllum. Þá benti Benedikt á að afkoma á ellilífeyrisárum byggi á nokkrum þáttum: Lífeyrir, greiðslur frá Tryggingastofnun, séreignarsparnaður, fjármunatekjur, eigin vinna, eigin sparnaður og annað.

Benedikt vék einnig máli sínu að 69. gr. laga um almannatryggingar en samkvæmt ákvæðum hennar hækkar lífeyrir um hver áramót. Orðalag umrædds ákvæðis er þó óljóst og umdeilt er hvað felst í hugtakinu ”launaþróun”. Benedikt benti á að launahækkanir séu sjaldnast á sama tíma og hækkanir á lífeyri frá almannatryggingum og mun það vera ein af ástæðunum fyrir almennri óánægju. Auk þessa tekur 69. greinin ekki á því hvort taka eigi mið af meðallaunum eða lágmarkslaunum – eða einhverjum öðrum launum. Þetta gagnrýndi Benedikt og telur löggjafann hafa allt of mikið svigrúm til túlkunar.

Í nánari umfjöllun sinni um þróun kaupmáttar lífeyris á Íslandi talaði Benedikt um óstöðugt verðlag á Íslandi og að allt hafi verið mikið lægra fyrir 10 árum, jafnvel þó að hægt hafi á verðbólgunni frá því er verst lét. Í því sambandi minntist hann máltækisins heimur versnandi fer, sem hann segir vera grískt að uppruna. Þá kom hann með sýnidæmi um útreikning kaupmáttar og samanburð á þróun kaupmáttar lífeyris frá Tryggingastofnun og annarri kaupmáttarþróun, á tímabilinu 1990-2016. Samanburðurinn sýnir að kaupmáttur hefur batnað, þrátt fyrir að hann hafi verið of lágur og sé enn. Benedikt sagðist sannarlega vona að fyrirliggjandi breytingar verði að lögum því þá verði erfiðara að krukka í þetta.

Samanburðurinn sýnir einnig að kaupmáttur lágmarkslauna hefur aukist töluvert hraðar en lífeyrir frá Tryggingastofnun og munu lífeyrisþegar alltaf reka lestina þegar svona mikil hækkun verður. Eftir fyrirliggjandi breytingar ætti ellilífeyrir að hafa náð lágmarkslaunum árið 2019-2020. Í hruninu varð mikil kaupmáttarskerðing meðallauna og samtímis jókst kaupmáttur lífeyris frá Tryggingastofnun en þetta bil er farið að minnka aftur. Kaupmáttur launa ríkisstarfsmanna hefur aukist þar sem laun hækkuðu mjög mikið um aldamótin og hafa lágmarkslaun hækkað mest frá hruni og þá meira en lífeyrir frá Tryggingastofnun. Það segir okkur að kaupmáttur ellilífeyris hefur ekki haldið í við lágmarkslaun.

Varðandi lífeyrissjóðakerfið nefndi Benedikt raunverulegt dæmi um meðalstóran íslenskan lífeyrissjóð, sem hækkaði greiðslur til félaga sinna á árunum 2006-2007 en lækkaði þær aftur árið 2009, þegar ljóst var að dæmið var byggt á sandi. Benedikt telur ekki alveg víst að almannatryggingakerfið hafa batnað ef miðað er við lífeyrissjóðakerfið og kom með nokkur sýnidæmi þar um. Lífeyrissjóðakerfið var slakt á árunum 1970-1980 því þá brann allt upp í verðbólgunni. Einungis var greitt af föstum launum en ekki öllum launum og reyndu allir að svindla en voru auðvitað að svindla á sjálfum sér. Benedikt tekur heilshugar undir með Jónu Valgerði að samþykkja verði fyrirliggjandi frumvarp. Að hans mati bætir frumvarpið kjör nánast allra nema þeirra sem eru með mikil laun, eða 400-700 þúsund krónur, sem fá minna en áður. Hann metur það einnig svo að núverandi ríkisstjórn hafi gert mistök er hún hætti skerðingu tekna vegna maka. Það hefði verið betra að láta allar breytingarnar koma á sama tíma – betra fyrir ríkissjóð og auðveldara hefði verið að samþykkja breytingar. Í lokaorðum sínum velti Benedikt þeim möguleika upp að búa til kerfi sem miði við mánaðarlegar breytingar á lífeyri. Vel sé virði sé ræða aðrar hugmyndir og vísar í því sambandi til hugmynda um að miða við launavísitölu eða neysluvísitölu með einhverju álagi, til dæmis 0,5% umfram neysluverð á ári. Ekkert kerfi tryggir ”bestu mögulega afkomu” en kerfið hefur komið þokkalega út að meðaltali. Með þessum orðum þakkaði Benedikt fyrir sig.

Fundarstjóri þakkaði ágætt erindi og bauð Þórunni Sveinbjörnsdóttur, formann FEB í Reykjavík og nágrenni, velkomna.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður FEB í Reykjavík og nágrenni, flutti erindið: Fyrir hvað stendur Grái herinn?

Þórunn hóf mál sitt á að greina frá aðdraganum. Hún sagði óvenju mikið af fólki hafa leitað til félagsins í Reykjavík í haust með ýmis vandamál, á sama tíma og ekkert gekk að ná hækkun á almannatryggingum um áramótin í gegnum þingið. Á fundum var kurr í fólki enda mikil vinna að baki. Þá tók hópur fólks að hittast utan FEB í Reykjavík og nágrenni sem var með hugmyndir um baráttu fyrir mannréttindum fólks – var þetta ’68 kynslóðin sem gjarnan hefur talist svolítið öðruvísi. Félag eldri borgara bauð hópinn velkominn og veitti honum húsaskjól til að ræða málin sem gæti leitt til samstarfs. Eftir aðeins tvo fundi var stofnaður fimm manna öflugur faghópur og var honum boðið að koma til liðs við félag eldri borgara. Þórunn taldi meðlimi hópsins upp með nafni. Þetta fólk hafði meira og minna ekki leitt hugann að sínum efri árum og áttaði sig nú á að eldri borgarar eru að jafnaði illa fjármálalæsir á efri árum og er það mikið áhyggjuefni. Þórunn sagði gráupplagt að vinna saman að því að uppfræða fólk – mikið feimnismál sé að tala opinberlega um fjármál sín.

Í tengslum við framangreinda umfjöllun nefndi Þórunn að samtals um 700 Íslendingar og nýbúar hafi í fyrra búið við skertan eftirlaunarétt vegna búsetu erlendis. Þetta fólk fái ekki full eftirlaunaréttindi en til að fá full réttindi þurfa menn að hafa búið á Íslandi í 40 ár, eða frá 16-67 ára. Þannig skerðast réttindin í hlutfalli við þann tíma sem menn hafa verið erlendis. Jafnframt má segja að 10 ár vanti upp á – árin 1970-1980 – en fólk eftir þann tíma á að vera mun betur sett. Annað málefni sem brennur á hópnum er að þau telja virðingu fyrir eldri borgurum ekki næga en eldri borgarar vilja lifa með reisn. Þau vilja ekki notkun orða og setninga á borð við lífeyris”þegar”, lífeyris”bætur” og ”stofnanavistun”. Ekki sé rétt að segja að fólk teppi Landspítalann heldur ríkir þar plássleysi og er ársbið í dvöl á öldrunarstofnun sem er besta úrræðið á leiðinni heim. Þá beindi Þórunn því til fundarmanna að eldri borgarar verði að passa heilsuna, til dæmis standa reglulega upp og gera æfingar. Með atvinnulýðræði fái eldri borgarar að vinna lengur þrátt fyrir að stefna fyrirtækja sé gjarnan sú að láta fólk hætta gegn vilja sínum. Breyta þurfi þessu viðhorfi því fólk kýs jafnvel að vinna til áttræðs í dag. Síðast en ekki síst greindi Þórunn frá stofnfundi Gráa hersins sem hafi verið stór fundur, allir stólar voru notaðir, fólk stóð, fólk varð frá að víkja og nú eru komin um 5000 ”like” á fésbókarsíðu hersins. Fólk þarf augljóslega útrás fyrir allt mögulegt. Stefnuyfirlýsing Gráa hersins liggur frammi ef fundarmenn vilja kynna sér hana. Mikill drifkraftur og vilji er í mönnum og brátt fer af stað hrina blaðagreina. Stjórn félags eldri borgara er líka öflug en þrír meðlimir hennar eru í stofnhóp Gráa hersins, sem telst einungis undirbúningshópur. Halda skal baráttunni áfram, og með þeim orðum þakkaði Þórunn fyrir sig.

Fundarstjóri þakkaði Þórunni sömuleiðis fyrir og tilkynnti að svo búnu að komið væri að kaffihléi, en formaður kaffinefndar FaMOS sér um allt meðlætið.

Hópstarf

Að loknu kaffihléi boðaði fundarstjóri formann LEB í pontu til að kynna hópstarfið nánar og markmið þess. Formaður LEB kynnti hvernig hópstarfið skuli fara fram; fundarmenn við hvert borð mynda hóp og ræða allir hópar sömu spurningarnar. Hópstarfið er hugsað sem  hugmyndabanki og skulu ritarar hvers hóps fyrir sig skila niðurstöðum hópsins til fundarritara formannafundarins, sem sameinar þær í eitt skjal.

Umræðuefni í öllum hópum:

  1. Með hvaða aðferðum er líklegast að eldri borgarar geti bætt kjör sín?
  2. Hver er reynslan af starfi Öldungaráða og á hvað eiga félög eldri borgara að leggja áherslu í starfi Öldungaráða?
  3. Er ávinningur, og þá hver, af meiri samvinnu félaga eldri borgara eftir landssvæðum?

Neðangreindar skoðanir komu fram í hópunum:

Með hvaða aðferðum er líklegast að eldri borgarar geti bætt kjör sín?

  • Koma skoðunum sínum á framfæri við kjörna fulltrúa í sveitarstjórn og á Alþingi.
  • Koma skoðunum sínum á framfæri á hnitmiðaðan hátt.
  • Kjaramál verði almennt í höndum stjórnar LEB.
  • Halda vöku sinni varðandi nánasta umhverfi.
  • Beita samtakamætti.
  • Blaðaskrif.
  • Vera í góðu sambandi til að koma skilaboðum okkar í embættismannakerfið.
  • Nauðsynlegt er að breyta hugsun samfélagsins varðandi lífeyrisþega sem þyggjendur.
  • Þrýsta á stjórnvöld með fundum og einkasamtölum.
  • Misjafnar áherslur – kjaranefndir innan félaga – almennt ekki til bóta. Stjórnir félaga kjaranefndir gagnvart sínum sveitarfélögum. Stjórn LEB kjaranefnd gagnvart stjórnvöldum.
  • Skapa þarf tengsl við fjölmiðlafólk og nýta betur fjölmiðlafólk innan félaga.
  • Virkja persónuleg tengsl við stjórnmálamenn.
  • Öflug samstaða. Kjararáð í höndum LEB.
  • Öldungaráð.
  • Í gegnum þá sem valdið hafa.

Hver er reynslan af starfi Öldungaráða og á hvað eiga félög eldri borgara að leggja áherslu í starfi Öldungaráða?

  • Öldungaráð verði vettvangur samstarfs félaga aldraðra og sveitarstjórna.
  • Öldungaráð verði vettvangur hnitmiðaðra samskipta eldri borgara og yfirvalda.
  • Ekki er vitað annað en að reynslan af Öldungaráðum þeim sem komið hefur verið á, sé góð.
  • Áhersla skyldi lögð á heilsueflingu.
  • Koma áherslumálum til skila inn í sveitarstjórn og efla þá tengingu.
  • Félagsmálafulltrúi viðkomandi sveitarfélags sé virkur og fundi með Öldungaráði.
  • Reynslan er góð af Öldungaráðum á Seltjarnarnesi og í Rangárvallasýslu.
  • Verið er að stofna Öldungaráð í Kópavogi. Vilja kjörna fulltrúa á móti eldri borgurum.
  • Í Garðabæ hefur verið nefnd um málefni eldri borgara í 15 ár. Mjög góð niðurstaða.
  • Þau á Akranesi ætla í heimsókn til Danmerkur til að kynna sér starf ráða eldri borgara.
  • Samræma skal tilgang og skipanir í Öldungaráðið.
  • Lækka fasteignagjöld og skatta á lífeyrisþega.

Er ávinningur, og þá hver, af meiri samvinnu félaga eldri borgara eftir landssvæðum?

  • Ávinningur yrði t.d. við byggingu og rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila.
  • Félög eldri borgara á viðkomandi svæðum mæti þörf og vilja til samvinnu.
  • Í svæðisbundnum miðlum og maður á  mann.
  • Það er ávinningur, enda er krafturinn alltaf meiri af fjöldanum.
  • Við fáum vitneskju um hvað hinir eru að gera. Góður hugmyndabanki. Formenn og jafnframt aðrir stjórnarmenn í FEB í „kraganum“ hafa hist reglulega, m.a. til að þrýsta á LEB. Þeir fundir hafa verið mjög góðir. Öðrum í hópnum leist vel á og ætla að skoða slíkt í sínum heimahögum.
  • Samráð og samskipti eru í gangi milli margra félaga og alltaf má gera gott betra.
  • Framkvæmdasjóður á að vera nýttur til aldraðra og gegna sínu hlutverki. Hvernig væri að leggja þetta fyrir mannréttindadómstól?

Heilbrigðismál

Að hópstarfi loknu var fjallað um heilbrigðismál. Framsögumenn voru Ragnar Guðgeirsson, verkefnisstjóri sem starfar m.a. fyrir heilbrigðisráðherra, og Pétur Magnússon, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og forstjóri Hrafnistu.

Fundarstjóri bauð Ragnar Guðgeirsson, verkefnisstjóra, frá ráðgjafafyrirtækinu Expectus, velkominn.

Ragnar Guðgeirsson, verkefnisstjóri, flutti erindið: Hvert stefnir? – Fjölgun aldraðra framundan.

Ragnar kynnti útdrátt úr greiningu vegna stefnumótunar í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða og fór yfir reiknaða þörf fyrir hjúkrunarrými, að biðlistum meðtöldum. Þar kom fram að þörf er fyrir um 2800 rými í dag en gert er ráð fyrir að þörfin muni tvöfaldast á 20 árum, miðað við óbreytt ástand í breyttri aldurssamsetningu, eða í ríflega 5400 rými. Ríkissjóður einn gæti ekki borið allan þann kostnað á næstu 20 árum en ef hægt væri að hafa áhrif á þörfina með öðrum aðgerðum þá myndu tölurnar verða lægri. Ragnar benti á að samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar 2015 gæfist 5 ára rammi til að vinna að undirbúningi stærstu fjöldauppsveiflunnar. Í þessu sambandi fjallaði Ragnar um heimilisfólk og tengsl nánasta aðstandanda við aldraða í hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum og kemur í ljós að afkomandi var nánasti aðstandandi í um 72% tilvika árið 2014. Ef litið er til þessa stuðningsnets þá stefnir í að fjöldi barna fari úr 1,9 barni niður í um 1 á móti öldruðum, á tímabilinu 2013-2035. Þá hafa aðrar breytur áhrif á þessa þróun, og nefndi Ragnar að sumir afkomendur flytji til útlanda og í einhverjum tilvikum er um það að ræða að afkomandi vill ekki kannast við annað foreldri sitt eða báða, oft í tengslum við skilnað. Ragnar sagði að það vanti þjónustu sem taki mið af þessu breytta landslagi.

 

Þá vék Ragnar máli sínu jafnframt að fjöldi íbúða fyrir 50+ ára og 67+ ára. Í dag eru um 4000 íbúðir til á landsvísu ætlaðar fyrir 50 ára og eldri. Þróunin á tímabilinu 1980-2014 hefur verið sú að það hefur átt sér stað gríðarleg fjölgun (áttföldun) í fjölda þessara íbúða, á kostnað fjölda dvalarrýma. Þetta úrræði hefur að einhverju leyti komið nýtt inn á síðustu árum. Á sama tíma hefur fjöldi aldraðra tvöfaldast. Vert er að skoða betur hvaða hlutverki þetta úrræði getur gegnt í framtíðinni innan þjónustunnar, sem dæmi með tilliti til þjónustu hjúkrunarfræðings. Ef litið er til annarra landa þá telja Norðmenn og Danir sig standa vel að vígi, enda hefur þar ekki orðið nein fjölgun í hópi aldraðra í næstum 20 ár (1990-2010) en þau eru þó farin að sjá þess merki í dag. Í Kanada teljast 14,9% af heildaríbúafjölda til 65 ára og eldri og um 50% af kostnaði í heilbrigðis- og félagsþjónustu fer í þennan aldursflokk. Þegar litið er til tölfræðilegra upplýsinga um spítalavist og legudaga þá kemur í ljós að það er margt líkt með Íslandi og Kanada.

Ragnar kynnti tilraunverkefni velferðarráðuneytisins, sem tók til yfir þúsund manns á öllu landinu, þar sem reikniritið MAPLe var notað á fimm heimaþjónustusvæðum á Íslandi. Tilgangurinn var að skoða hvort MAPLe henti fyrir íslenskar aðstæður til að nota við forgangsröðun á heimaþjónustu eða heimahjúkrun. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að veitt þjónusta og þörf þátttakenda fór ekki alltaf saman, það er, hátt hlutfall fólks naut þjónustu þrátt fyrir að vera líkamlega vel á sig komið og með góða vitræna getu. Þetta sýnir að ekki er verið að nota kerfið á réttan hátt og mögulega er hægt að fara betur með fjármunina sem varið er í þjónustuna. Í þessu samhengi verður þó að muna að þjónustustigin eru tvö – ríki og sveitarfélög.

Ragnar kynnti annað tilraunaverkefni til sögunnar á vegum Reykjavíkurborgar, unnið að danskri fyrirmynd. Verið er að þróa leiðir til að meta þörf fyrir þjónustu og hvort endurhæfing geti komið í veg fyrir að fólk kalli eftir þjónustu. Þátttakendur voru teknir í ítarlegt viðtal áður en umbeðin þjónusta var veitt og nefndi Ragnar nokkrar reynslusögur þessu tengt. Má þar nefna dæmi um einstakling sem gat ekki sett í þvottavél og uppþvottavél og í stað þess að veita honum þjónustuna var viðkomandi settur á þriggja vikna námskeið. Þá er til dæmi um einstakling sem missti reglulega jafnvægið og datt og kallaði þar af leiðandi oft á sjúkrabíl. Í ljós kom að þetta stafaði fyrst og fremst af blóðþrýstingi og súrefnismettun og var einstaklingnum kennt að mæla sig sjálfur og þar með jókst sjálfstraust hans og hann þorði að fara meira út úr húsi. Endurhæfing skilar raunverulega miklum lífsgæðum. Helstu niðurstöður úr þessu tilraunaverkefni voru þær að í innan við fjórðung tilvika fékk umsækjandi þjónustu sem hann ella hefði fengið, 39% fengu minni þjónustu og 37% urðu sjálfbjarga. Í samanburði við Danmörku þá fengu 29% minni þjónustu  og 47% urðu sjálfbjarga en þess ber að geta að þrif falla ekki undir félagsþjónustuna þar og því er niðurstaðan líklega sú sama. Meðhöndlun þjónustubeiðna þarf að breytast á Íslandi, að mati Ragnars.

Jafnframt sagði Ragnar frá rannsókn Janusar Guðlaugssonar en Janus fylgdist með rúmlega 100 manns á aldrinum 71-90 ára, sem stundaði reglulega líkamsrækt í 6 mánuði. Fimm árum eftir að prógramminu lauk voru þessir sömu einstaklingar enn í sambærilegu ástandi og þegar þeir hófu prógrammið, og þykir það stórmerkileg niðurstaða. Vöðvastyrkur rýrnar við venjulega öldrun en meðaltal einstaklinganna var yfir því sem það var í upphafi. Sömu sögu er að segja af göngujafnvægi og daglegri hreyfingu. Augljóst er að „til að ná árangri sem við höfum aldrei náð áður þurfum við að gera hluti sem við höfum aldrei gert áður“. Ragnar lauk máli sínu á því að spyrja hvað þurfi að gera til að auka lífsgæði aldraðra og sagði að skoða þurfi betur hvort svona áherslubreyting geti gefið meiri árangur.

Fundarstjóri þakkaði Ragnari fyrir og bauð síðasta framsögumanni, Pétri Magnússyni, að koma í pontu.

Pétur Magnússon, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og forstjóri Hrafnistu, flutti erindið: Rekstrarvandi hjúkrunar- og dvalarheimila.

Pétur hóf erindið með því að slá á létta strengi auk þess sem hann greindi frá hlutverki Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samtökin voru stofnuð í apríl 2002 og eru vettvangur fyrir stjórnir og stjórnendur þessara fyrirtækja til að koma saman, bera saman bækur sínar og ræða sameiginleg hagsmunamál. Flest aðildarfyrirtækin starfa að málefnum aldraðra, en einnig við endurhæfingu.

Í dag eru starfrækt um 2600 hjúkrunarrými á Íslandi. 14% þeirra eru rekin af heilbrigðisstofnunum ríkisins um land allt en langstærstur hluti er rekinn af sveitarfélögum, að hluta til eða alveg, eða góðgerðarsamtökum. Munur er á fjármögnuninni: Heilbrigðisstofnanir ríkisins fá greitt samkvæmt föstum fjárlögum í upphafi árs. Hinir aðilarnir fá greidd daggjöld fyrir nýtingu og virkar það sem afkastahvetjandi kerfi, það er, ef herbergi er tómt þá fæst ekki greitt fyrir það. Kostnaðurinn er um 25-30 milljarðar króna og sagði Ragnar að það ótrúlega væri að engir samningar eru um þessa þjónustu nema að mjög litlu leyti. Almennt er þjónustan talin góð en hún er nokkuð mismunandi. Staðreyndin er hins vegar sú að flest hjúkrunarheimili eru rekin með tapi – hvers vegna? Barist er fyrir tilvist hjúkrunarheimila en stjórnmálamenn vilja gjarnan hætta með þau og hafa fólk sem lengst heima. Þá kemur allavega tvennt til, annars vegar verður að virða valfrelsi einstaklingsins og hins vegar skoða hvað er fjárhagslega hagkvæmt fyrir einstaklinginn sem og samfélagið. Pétur sagði að byggingarkostnaður á nýju hjúkrunarrými sé aðeins 2-3 ár af rekstarkostnaði hjúkrunarrýmisins, sem er dropi í hafið í samanburði. Ennfremur sagði hann að útreikningar sýni að ódýrara sé að hafa fólk á hjúkrunarheimili ef það þarf heimahjúkrunarheimsóknir í 4-5 skipti á dag – nær enginn sem býr á hjúkrunarheimili í dag kæmist af með minna en 3-4 heimsóknir.

Varðandi þjónustusamninga hjúkrunarheimila hafði Pétur þetta að segja: Í janúar 2015 hófust formlega samningaviðræður milli Sjúkratrygginga Íslands og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um þjónustusamninga hjúkrunarheimila. Búið er að halda yfir 30 formlega samningafundi og fjölda vinnufunda um einstök atriði, auk undirbúningsfunda af ýmsu tagi af beggja hálfu. Því miður er ennþá töluvert í land þó báðir aðilar hafi mikinn samningsvilja. Stór þáttur sem hindrar að hægt sé að ljúka samningum er mjög óljós skilaboð af hálfu hins opinbera um þá þjónustu sem hjúkrunarheimilin eiga að veita. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa  lagt mikla áherslu á að sú þjónusta sem á að veita sé vel skilgreind og greitt sé sanngjarnt verð fyrir hvern þjónustulið. Grunnþættir þjónustunnar snerta marga aðila: Notanda, aðstandendur, samfélagið, opinbera aðila, rekstraraðila og starfsfólk. Þess vegna er mikilvægt að þjónustan sé vel skilgreind en ríkið getur ekki ákveðið sig hvaða þjónustu það vill kaupa af hjúkrunarheimilunum. Á heimasíðu velferðarráðuneytisins er skjal sem ber heitið Kröfulýsing fyrir velferðarþjónustu, 2. útgáfa, janúar 2013. Þar segir: ”Hlutverk þessarar lýsingar er að vera kröfuskjal með lágmarkskröfum sem velferðarráðuneytið gerir til þess aðila sem tekur að sér rekstur þjónustunnar og um þá þjónustu sem hann skal veita. Til viðbótar kröfum í þessari lýsingu koma faglegar gæðakröfur sem embætti landlæknis setur starfseminni.” Hvað ætti þá að greiða fyrir þjónustuna? Pétur benti á að í lögum um Sjúkratryggingar Íslands er beinlínis ætlast til að þjónusta sem semja á um sé kostnaðargreind. Ríkisendurskoðun hefur bent á að Kröfulýsing

velferðarráðuneytis hafi aldrei verið kostnaðargreind. Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu hafa margoft lagt til við Sjúkratryggingar Íslands að Kröfulýsing velferðarráðuneytis verði kostnaðargreind af óháðu ráðgjafafyrirtæki og að sú útkoma verði grunnurinn að nýju daggjaldi. Slíkt hefur aldrei verið samþykkt af Sjúkratryggingum.

Í úttekt Ríkisendurskoðunar 2013 á starfsemi hjúkrunarheimila kemur fram að heimilin eru rekin með um eins milljarðs króna tapi. Þó svo að 13 heimili séu rekin með hagnaði en afkoma 42 heimila sé neikvæð er þjónusta heimilanna mismunandi og var hún ekki mæld. Er það gagnrýnivert. Jafnframt kemur fram að aðeins tvö heimili telja sig uppfylla mjög vel kröfulýsingu velferðarráðuneytis um lágmarksmarkmið þjónustunnar og má því leiða líkum að því að rekstrartapið væri langt um meira ef öll hjúkrunarheimili myndu uppfylla mjög vel lágmarksmarkmið. Segja mætti að verið væri að hampa þeim sem uppfylla ekki gæðavinnuna ef hjúkrunarheimili er rekið í plús. Staðreyndin er sú að þjónustusamningar verða ekki að veruleika fyrr en að fyrir liggur hvaða mönnun á að vera á hjúkrunarheimilum. Beðið er eftir skýrum svörum frá ráðuneyti þar sem opinber viðmið Landlæknis eiga ekki að gilda. Jafnframt þarf að liggja fyrir kostnaðargreining kröfulýsingar, eða sambærilegs skjals. Það vantar 30-40% í núverandi greiðslur.

Í lokaorðum sínum nefndi Pétur þrjá möguleika í stöðunni til lausnar á vandanum: Hækka greiðslur upp í nýtt daggjald samsvarandi niðurstöðu kröfulýsingar, draga úr kröfum kröfulýsingar niður í núverandi daggjald eða sambland af þessum tveimur liðum. Hjúkrunarheimili starfa ekki til að græða peninga og vilja að allir fái þá þjónustu sem í boði er en jafnframt að greitt verði sanngjarnt verð fyrir. Það er ríkisins að bregðast við þessu en deginum ljósara að plúsrekstur uppfyllir ekki kröfur í dag. Með þessum orðum þakkaði Pétur fyrir áheyrnina.

Fundarstjóri þakkaði Pétri áhugavert erindi og tilkynnti að slegið yrði saman fyrirspurnum og liðnum ”önnur mál”. Að því loknu var orðið gefið laust fyrir spurningar til framsögumanna.

Önnur mál

Þessir tóku til máls:

Eyjólfur Eysteinsson, formaður FEB á Suðurnesjum, sagði erindi dagsins hafa verið fróðleg. Ætlun hans er að segja nokkur orð um Framkvæmdasjóð aldraðra. Hann hefur setið í stjórn sjóðsins fyrir hönd LEB í þrjú ár. Stjórnin er ráðgefandi, skipuð af ráðherra heilbrigðismála. Tekjur sjóðsins eru nefskattur sem innheimtur er árlega af sérhverjum skattgreiðanda frá 16-70 ára. Sjóðurinn er ætlaður til bygginga hjúkrunarheimila og stofnana fyrir starfsemi eldri borgara en í raun hefur tekjum verið ráðstafað af fjárlaganefnd en ekki af stjórn Framkvæmdasjóðsins. Þetta segir Eyjólfur að hafi lengi legið ljóst fyrir en sjóðurinn hefur samt sem áður staðið að stórum hluta undir rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila – ekki stofnkostnaði. Árið 2009 var ákveðið að fara svokallaða leiguleið til uppbyggingar hjúkrunarheimila. Um hlutverk Framkvæmdasjóðsins er bæði fjallað í lögum og reglugerð og hefur LEB margsinnis mótmælt framangreindri ráðstöfun sjóðsins. Mikil vöntun er á hjúkrunarheimilum til framtíðar – skýrslur staðfesta það sem og erindin hér í dag – og verður breyting að eiga sér stað þar sem í neyðarástand stefnir. Lengsti biðtíminn er á Suðurnesjum og ekki stendur til að byggja fleiri hjúkrunarheimili næstu 5 árin þó að gert sé ráð fyrir mikilli fjölgun eldri borgara. Eyjólfur sagði árangur af stjórnarsetu sinni ekki mikinn en hann hafi ítrekað bókað mótmæli um að tekjur sjóðsins fari ekki í hlutverk hans. Að lokum minntist hann á stofnun Öldungaráðs Suðurnesja þar sem helstu málefnin eru samþætting þjónustu og fjölgun hjúkrunarrýma. Á fundi sem haldinn verður í maí verður rætt við þá sem valdið hafa í bæjarstjórn og alþingismenn. Það er leiðin til að fá þessu framgengt, sem og ókeypis heilsugæslu – ekki er nóg að álykta heldur vinna ákvarðanir með þeim sem valdið hafa. Öldungaráð um allt land er framtíðin.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður FEB í Reykjavík og nágrenni, tók til máls og þakkaði sérstaklega fyrir flutt erindi. Með vísan til Janusar Guðlaugssonar sagði hún lausnina vera þessa: Hreyfing í 30 mínútur á dag og styrktarþjálfun tvisvar í viku – þar með yrði 10 árum bætt við lífið. Með þeim orðum óskaði hún fundarmönnum góðs gengis

Sigurjón Guðmundsson, formaður FEB Austur-Húnaþingi, tók undir með síðasta ræðumanni og sagðist hafa talað fyrir hreyfingu eins og hann getur. Ef við leggjumst upp í sófann og horfum á sjónvarpið þá getum við dáið fljótlega. Sigurjón þakkaði erindi dagsins en vill nefna tvö atriði og þá fyrst að hann er hræddur um að frumvarpið sem byggir á tillögugerðinni eigi eftir að daga uppi eins og svo oft áður hefur gerst. Til mikils er þó unnið ef til tekst. Hitt atriðið varðar starfslok fólks en því miður hefur atvinnulífið ekki verið í stakk búið til að taka við fólki í vinnu sem er 60 ára eða eldra. Einnig þarf að einfalda kerfið því fólk sem spyr um rétt sinn varðandi tryggingar fær ekki alltaf sömu svörin – túlkunin er mismunandi.

Björg Björnsdóttir, formaður Félags eldri Hrunamanna, vék máli sínu að nýja lífeyriskerfinu og sagðist ekkert skilja í því og vill gjarnan svör. Hún væri búin að lesa grein Jónu Valgerðar og blaðið sem allir hafa fengið. Hvor hækkunin er rétt, hvorug, eitthvað þar á milli eða lægra: Sú sem Jóna Valgerður nefnir í tilviki þeirra sem hafa 100 þúsund krónur í lífeyristekjur eða sú sem Hannes G. Sigurðsson nefnir í tilviki þeirra sem eru á tekjubilinu 0-100 þúsund? Forsendurnar hljóti að vera þær sömu. Sá sem spyr er kannski heimskur en sá sem ekki spyr verður heimskur alla tíð, sagði Björg að lokum.

Guðrún Aradóttir, formaður FEB Rangárvallasýslu, sagðist lítið skilja í þessum útreikningum sem kynntir hafa verið á fundinum og vísaði til greinar Jónu Valgerðar í ”Listin að lifa”, sumar 2016. Hún sagði það alltaf vera svo, þegar verið væri að breyta til bóta fyrir flesta þá sitji þeir sem minnst hafa gjarnan eftir. Guðrún vísaði einnig til orða Jónu Valgerðar um að fólk fengi sömu fjárhæð, hvort sem það fengi lífeyrissjóð eður ei. Sem fyrrverandi bóndi sagðist Guðrún fá raunverulega ekkert úr lífeyrissjóði, sem lækkar krónu fyrir krónu – 9,7% hækkun hafi skilað henni rúmum 6 þúsund krónum um síðustu áramót. Að því sögðu las Guðrún upp tillögu Halldórs Gunnarssonar, formanns kjararáðs FEB í Rangárvallasýslu, ásamt greinargerð í 6 liðum, sem send hefur verið til LEB. Guðrún lauk þar með máli sínu og segist vona að starf Gráa hersins gefi árangur.

Fundarstjóri áréttaði að samkvæmt 8. gr. laga LEB yrði tillaga sú er Guðrún Aradóttir nefndi ekki tekin til efnislegrar meðferðar.

Jón Eyþór Lárentsínusson, formaður Aftanskins FEB Stykkishólmi, sagðist ekkert botna í tölunum og vill bara einn lífeyrissjóð fyrir alla – sama hver hann er. Það er hans persónulega skoðun og að allir fái sömu upphæð greidda, á bilinu 450-600 þúsund. Jón Eyþór þakkaði fyrir sig og góðan fund og benti fundarmönnum á Unaðsdaga í Stykkishólmi, en þangað yrði hann að þjóta nú.

Stefanía Magnúsdóttir, formaður FEB Garðabæ, sagði það valda þunglyndi að vita til þess að Framkvæmdasjóður aldraðra sé ekki notaður í það sem hann á að vera notaður. Það sé þó til lítils að byggja hjúkrunarheimili ef ekki er hægt að reka þau og viðhalda og henni finnst svakalegt að byggingarkostnaður sé 2-3 ára rekstarkostnaður. Stefanía þakkar frábær erindi og fróðlegan og skemmtilegan dag.

Heiðdís Gunnarsdóttir, varaformaður FEB Selfossi, vildi þakka fyrir fróðleg erindi og var með smá hugleiðingu. Hana langar að fá öðruvísi orð yfir eftirfarandi hugtök og biður fundarmenn að hugsa aðeins um þau: „Ellilífeyrir”, „framfærsla”, „framfærsluuppbót”. Varðandi umfjöllun Jónu Valgerðar um að fólk mætti vinna til 75 ára, hver metur hvort að 75 ára geti unnið? Er það gott fyrir hana að vinna áfram, jafnvel klúðra hlutunum, eða hætta fyrr og það með reisn. Heiðdís þakkar góðan fund.

Að svo búnu lýsti fundarstjóri að umræðum væri lokið þegar Jóna Valgerður Kristjánsdóttir hefði svarað fyrirspurnum.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fyrrverandi formaður LEB, byrjaði á því að svara fyrirspurn Sigurjóns Guðmundssonar um hversu erfitt væri að fá vinnu eftir starfslok en þetta atriði sagði hún að hafi verið rætt í nefndinni og einmitt í dag var málþingið „Áskoranir fyrir vinnumarkaðinn vegna hækkandi lífaldurs”, á vegum aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna. Að hennar mati er atvinnulífið meðvitað um þetta og hefur vilja til að breyta þessu en helst vanti hlutastörf hjá hinu opinbera til að fólk geti minnkað við sig vinnu. Varðandi grein og útreikninga Hannesar G. Sigurðssonar þá er hún ekki skrifuð í takt við grein Jónu Valgerðar. Þar eru útreikningar frá Tryggingastofnun og miðast fjárhæðir við fyrir skatt, fólk getur því verið að fá misjafnt – sem dæmi 45% skerðingu á öðrum tekjum og síðan á það kannski eftir að borga skatt af hinum 55%. Um það hver meti hver geti unnið sagði Jóna Valgerður að væri sameiginlegt mat vinnuveitanda og starfsmanns. Jóna er sammála því að hugtakið „framfærsluuppbót” verði lagt niður, líkt og gert verður með nýju lögunum.

Harald S. Holsvik, formaður FaMos, steig í pontu til að tjá fundarmönnum hversu mikill heiður það væri og gaman að hafa tekið á móti þeim og vonaði hann að þeir hefðu notið góða veðursins. Að síðustu óskaði hann fundarmönnum góðrar heimferðar.

Fundarstjóri tilkynnti að fundarstörfum lyki senn því fyrirspurnum hafi ekki verið beint til annarra en þegar hafi stigið í pontu.

Fundarslit

Formaður LEB, Haukur Ingibergsson, steig í pontu og ávarpaði fundarmenn. Í máli hans kom meðal annars fram að erindi dagsins endurspegli mörg mikilvæg en flókin og þung mál sem varða eldri borgara, þannig að hægt sé að skilja stöðuna og greina hættur og möguleika. Fyrst nefndi hann almannatryggingamálið – fyrirliggjandi tillögur „Pétursnefndarinnar“ gera lífeyriskerfið betra en ef það yrði áfram óbreytt. Landssambandið mun halda áfram að reyna að koma fleiri atriðum úr skýrslu nefndarinnar í löggjöf, sníða vankanta af tillögunum og mögulega að ná samkomulagi við aðila um þau atriði sem annars hefur ekki náðst samkomulag um. Í annan stað eru það hjúkrunarheimilin og öldrunarstofnanir. Þar ríkir verulegur vandi, bæði fjárhagsvandi og gæðavandi, og taka þarf á tengingum við heimaþjónustu og fleiri aðila. Þriðja og síðasta málefnið sem Haukur nefndi er þörf fyrir stofnun sameiginlegs vettvangs félaga eldri borgara og sveitarstjórna. Líklegt sé að næsta skrefið í verkefnaflutningum ríkis til sveitarfélaga verði flutningur fleiri málefna aldraðra. Haukur fagnaði góðum degi með góðum umræðum, þakkaði fyrir og sleit formannafundi klukkan 17:41.

Fundarritari var Elísabet Valgeirsdóttir en henni til aðstoðar var Margrét Jónsdóttir.